Símalaus í alpalandi

Símalaus í alpalandi

Nýjustu tölur:
sunnudagur: 11500 skref
mánudagur: 7200 skref
þriðjudagur 8100 skref
miðvikudagur 3200 skref

Þetta verður barátta – en hún verður þess virði.

Annars var ég að hugsa um jólakort. Ég hef sent mörg jólakort til vina og samstarfsmanna undanfarin ár og mér hefur þótt gaman af þeim undirbúningi. Það tekur tíma að velja myndina og velta fyrir sér hvort það sé rétt að hafa hana úr fjölskyldualbúminu eða ekki. Svo þarf að ákveða textann og ekki vill maður verða of væminn en þó er það þannig að slatti af væmni er bara uppskrift af manni sjálfum. Þá er það hitt, er hægt að setja sama textann alls staðar? Eflaust ekki, en ef kortin skipta hundruðum og kannski meira, er erfitt að skrifa á hvert einasta kort…svo þá vill maður hugsa fallega kveðju.

Undanfarin ár hefur sú rödd verið háværari að það eigi að sleppa kortunum og senda frekar rafræna kveðju og gefa það sem ella hefði farið í kortakaup til góðs málefnis. Það er auðvitað mjög góður kostur. Það var þó áður og er enn hægt að kaupa kort hjá þeim sem lögðu sitt til góðra mála, en gott og vel, kannski er kominn tími til að hætta þessu, spara pappír, hlífa fólki við pósti og leggja fé strax til góðra verka.

Ég ákvað að nú væri tími fyrir mig að prófa. Morgun rann upp og ég settist glöð í bragði við tölvuna og klukkan ekki orðin átta. Nú skyldi taka til óspilltra málana við að sauma saman fjölskyldumyndir, semja hnyttna frásögn og senda um víða veröld.

Ekkert svar.

Fjarskiptasambandið hér á sprengjusvæðinu sem hefur verið frekar brotakennt um hríð….gafst upp.

Ekkert svar – engar myndir – ekki neitt.

Símatólið var meira að segja utan sambands og sjónvarpið, jú, það var líka á bak og burt. Eina sem eftir stóð var nýi samsung síminn minn sem leysti eplasímann nýlega af hólmi. Ég reif hann upp og leitaði lengi vel eftir hringiskífu þar til ég náði sambandi við símafyrirtæki þeirra Svisslendinga sem sögðust mundu koma eins og skot eftir þrjá daga. En þeir myndu vissulega gera boð á undan sér með skilaboðum.

hm.

Eins gott að þessi nýi sími sýni mér skilaboðin án þess að ég þurfi að fara á netið á kaffihúsinu og leita svara!

Ekki þurfti að spyrja að því, að kveldi var mér tilkynnt að símamaður kæmi kl. 8 næsta dag og klukkan var vart orðin tvær mínútur yfir þegar maður stóð við dyrnar hjá mér. Hann byrjaði að grauta í snúrum um allt hús þar til hann kom áhyggjufullur á brún og bað mig að koma að líta á afraksturinn. Þar stóð hann með það sem ég kalla venjulega snúru, kannski dálítið roskna þó, og sagðist aldrei hafa séð annað eins. Þessi snúra hlyti að vera a.m.k. 50 ára. Nú ekki meira, hugaði ég, ég á systur sem eru meira að segja eldri en það. Og fyrir utan það, sagði hann og gat vart náð andanum, þá eru hér fleiri símasnúrur, það voru mörg tól hér, menn hafa verið með starfsemi hér í þessu herbergi. Jæja, hugsaði ég, símalína símalandi í símalandi. Kannski kom Hercule Poirot við hér á leið sinni til London…og leist bara þokkalega á mig.

Niðurstaðan var þó því miður sú að mínu netsambandi var ekki viðbjargandi og ég verð að bíða fram í janúar til að fá bót á. Ég tók þessu af mikilli ró miðað við að netið er orðið mitt helsta samband við umheiminn, kannski fann ég innra með mér að því þyrfti að breyta. Hitt var verra að ég gleymdi að spyrja manninn að því hvers vegna þeir hjá símalandi í Sviss hafi ákveðið að ég megi nánast engin sms skilaboð fá heiman frá Íslandi og að það sé alls ekki einboðið að allir þaðan geti hringt í mig? En þannig hefur það verið nú um nokkra hríð. Það er að minnsta kosti ekki hætta á að sms eða símtöl verði hleruð– þegar engin berast. Er þetta ekki augnablikið sem maður á að hrópa samsæri?

Niðurstaðan er þó sú að ég læt því jólakortin lönd og leið, sleppi símanum en sendi öllum þess í stað kærar jólakveðjur – í huganum.

9 klst. 24 mín og 8276 skref.

9 klst. 24 mín og 8276 skref.

-Ertu hætt að blogga mamma?, spurði sonur minn mig í gær.
-Nei…sagði ég…
-Þú hefur ekkert skrifað mjög lengi.
-Já…lífið er svo hversdagslegt hjá mér þessa dagana…
-Af hverju skrifarðu ekki um pólitík, þú ert alltaf að tala um hana?

Einhvern veginn svona var samtalið milli okkar mæðgina í gær. Sannleikurinn er sá að ég hef ætlað að skrifa eitthvað mjög lengi, af því að ég ætlaði þessari síðu að vera vettvangur fyrir mig að skrifa einmitt um þetta hversdagslega og hvað það þýðir að taka sig upp, hætta annasömu starfi og finna fjölina á ný. Svo varð ég aðeins leið á sjálfri mér í því og hlífði síðunni minni við þeim fábreytileika.

Ég ætla að herða mig. Ætla þó ekki að tala um pólitík – ekki strax a.m.k. heldur að halda mér við hversdagsleikann – og jú, ætla að nota síðuna mína til að halda mér aðeins við efnið.

Ég hef nefnilega verið að taka mig aðeins í gegn. Það hefur aðallega falist í því að hreyfa mig meira og markvissara. Í fyrir ári síðan greindist ég með hryggikt sem er gigtarsjúkdómur sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum líka í útliðum. Ég hef verið bakveik frá því að ég var unglingur en aldrei fannst hvað var að. Svo var það ekki fyrr en í fyrra þegar hnéð á mér bólgnaði hressilega upp, að orsök alls þessa fannst. Mér finnst sérstaklega fyndið að þessi sjúkdómur herjar miklu frekar á karla en konur!

Ég tek lyf við þessari óáran en til viðbótar er nauðsynlegt fyrir mig að hreyfa mig reglulega sem er nokkuð sem ég hef aldrei gert að neinu viti og lifa sæmilega reglulegu lífi. Kannski hefur það að hluta til verið vegna þess að ég man varla eftir degi frá því ég komst til vits og ára að ég fann ekki til einhvers staðar í líkamanum. Ég hef sett mér það markmið að ganga 10 þúsund skref að meðaltali á dag og sofa átta klst. Göngur er mjög góð alhliða hreyfing, ekki satt? Og góð leið til að kynnast nýju heimkynnum mínum, sem ekki veitir af. Svo er á stefnuskránni að bæta liðkandi hreyfingu við….sjáum hvernig úr því rætist. 10 þúsund skref er nokkuð metnaðarfullt markmið, tæpir 10 km. en þýðir nokkuð annað? Ef mér tekst að komast nálægt því er það talin mjög góð hreyfing eftir því sem ég kemst næst. Svefninn er minna mál fyrir mig, enda hef ég alltaf sofið lengi, og fast hef ég lengst af haldið.

Til að mæla þessi herlegheit var haldið af stað, fótgangandi, og keypt armband, UP band sem ég geng nú með alla daga. Það er hægt að forrita það með alls kyns upplýsingum, bæði um svefn og hreyfinu, en það er líka hægt að fylgjast með mataræðinu. Ég ákvað að sleppa því, a.m.k. í bili. Mér tekst alls ekki alltaf að komast upp í 10 þúsund skref og stundum er ég nokkuð frá því, en það rekur mig þó áfram að sjá hvernig gengur með svona reglubundnum hætti. Þá hefur það komið mér á óvart, að nánast hverja einustu nótt virðist ég sofa laust og djúpi svefninn alltaf mun minni. Mig grunar að bandið mæli svefninn eitthvað vitlaust!

Tölurnar mínar í gær voru svona:

Svefn: 9 klst. og 24 mín., þar af léttur svefn 5 klst. og 36 mín. – svaf of lengi!
Gangur: 8276 skref.