Að rækta krydd og vökva nágrannana

Ég er ekki með græna fingur, ekki ennþá. Engar frægðarsögur eru til af mér í garðinum og oft hefur mér fundist blómstrandi arfi ljómandi fallegur öðrum til mikillar armæðu. Fyrst eftir að við fengum okkar eigin garð leysti ég þetta með því að nánast taka burtu garðinn og hafa bara iðagrænt gras og stól á palli. En smátt og smátt hef ég fundið hjá mér þörf á að rækta eitthvað sjálf. Er það aldurinn? Er það af því að það ég er hætt að eiga börn? Er það af því að það er eitthvað svo fallegt við að sjá agnarlítinn sprota vaxa og mynda blóm? Er það umhverfið? Að allir eru farnir að rækta krydd, kartöflur og túlípana? Áhrifagjörn?

Ég veit það ekki. En þetta gerðist svona. Í bókabúðinni endaði ég iðulega í náttúrudeildinni að skoða bækur um að rækta garða og blóm í gluggum og svölum. Ég fór að lesa um fólk með græna fingur. Bókin hennar Hildar Hákonardóttur varð fyrir mig eins og þerapía, róandi lesning þótt ég skildi minnst af því sem hún var að tala um. Ég gerðist áskrifandi af riti garðyrkjufélagsins og fór að lesa það mér til ánægju fyrir svefninn. Maðurinn minn skildi ekkert. Ekki í fyrsta sinn sem hann horfir á þessa og veltir eflaust fyrir sér hve margar hliðar séu til á henni.

Og nú í vor ákvað ég að láta til skarar skríða og kaupa kryddjurtir í pottum og setja á svalirnar mínar á sprengjusvæðinu. Hér er fólk með blómapotta utan og innan á svölum og þetta er svo óstjórnlega búsældarlegt að ég verð að taka þátt.

Drap fyrstu tvær tilraunir. Bæði kryddin og hortenseurnar sem fóru allt of fljótt út og króknuðu. Drekkti sumum og svelti aðrar.

Byrjaði aftur. Ég ákvað að kaupa ekki hortenseur (hvernig á eiginlega að skrifa þetta?) en hélt mér við kryddin og blóm sem heita eitthvað óskiljanlegt. Þetta hangir enn uppi, ég held meira að segja að flest muni lifa af. Ég vökva og vökva og bæti blómalýsi út í vatnið.

En auðvitað gat þetta ekki gengið svona snuðrulaust fyrir sig að ég fengi að vera í friði hér á 6. hæð með blómin mín. Um daginn lá nefnilega umslag við útidyrnar. Konan á neðri hæðinni. Hún segir að ég sé alltaf að hella vatni yfir eldhúsgluggann hennar og biður mig vinsamlega um að hætta því. Ég fékk í magann. Mér finnst mjög óþægilegt að það sé kvartað undan mér og er eins og vinir mínir vita hrædd við skammir og yfirvald, dauðhrædd við lögguna. Ég fór strax að eldhúsglugganum og teygði mig langt út. Mínar rannsóknir sýna að konan á neðri hæðinni er sérstaklega viðkvæm ef ég hef með þessum dropum mínum truflað hjá henni eldhúsgluggann. En…auðvitað skrifaði ég henni strax til baka og lofaði bót og betrun. Hætti samstundis með blómin þar og fór með allan garðinn út á stofuvalirnar. Þar hef ég hafið mikla starfsemi við vökvun og alls kyns.

Í morgun vökvaði ég sérlega vel. Fór nákvæmlega yfir hvern pott og hellti vel af vatni. Í gólfi svalanna er sérstakur stútur til að allt vatn renni haganlega þar út svo ég taldi mig aldeilis í góðum málum. Til öryggis teygði ég mig út yfir svalirnar og leit niður. Svalirnar á 5 hæð eru bónaðar og slípaðar og þar eru tveir óþolandi fallegir blómapottar. Ég brosti. Þetta verður í lagi.

Þegar ég hafði gert mig til leit ég aftur út á svalir og niður. Mér til mikillar skelfingar sá ég að á svölum 5 hæðar er blautt svæði þar sem vatn að ofan hefur sullast inn. Hjálpi mér. Ég á von á öðru bréfi.

Ég vona að ég sleppi þó. Er á leiðinni út í búð að kaupa vaskaföt. Framvegis verður gerð framleiðslulína vökvunar í vaskafötum og þeim hellt í eldhúsvaskinn….fyrir tíu á kvöldin.

Ég sé fram á að vera mjög upptekin við þetta á næstunni. Spurning hverju fleiru ég get komið í verk.

Það er lítil veisla í farangrinum

Ég er á leiðinni til Genfar.  Ætla að vera þar í nokkra daga og kanna ástandið á fólkinu þeim megin.  Ég dríf mig í fyrramálið snemma og vonandi standast allar áætlanir svo ég lendi þar á skikkanlegum tíma.  Það er nefnilega 1. febrúar.  Afmælisdagur.  Veisla.

Hugmyndin var að fara með engan farangur.  Ég hef verið ansi oft á ferðinni síðasta ár og það er alveg hreint makalaust hversu oft það hefur gerst að töskurnar hafa ekki borist á leiðarenda.  Á það við bæði hérna megin og hinu megin.  Ég hef satt að segja alltaf verið frekar á móti farangri.  Þegar við fjölskyldan höfum farið í frí í gegnum tíðina – hvort sem það er út á land eða í önnur lönd – hefur hann séð um að taka þennan skynsama farangur með. Ég hef helst ekki viljað taka neitt yfirleitt.  Ef það kemst ekki í litla skjóðu gleymi ég því heima.  Allt of oft – sérstaklega þegar stóru krakkarnir voru minni – kom í ljós í miðju ferðalagi að litla taskan mín var alveg ónothæf á neyðarstundu – vantaði þetta og hitt – en þá var hjálpin í næstu tösku! Það er langt síðan að hann gafst upp á því að ræða við mig um gildi þess að vera með vel skipulagðan farangur á ferðalögum og enn lengra síðan að búist var við að ég gæti verið með nokkuð gagnlegt með.

En…undanfarna mánuði hef ég þurft að rogast með farangur af mjög praktískum ástæðum.  Flytja dót og drasl á milli landa.  Ég er reyndar líka frekar mikið á móti of miklu aukadóti og vil helst losa mig við sem mest.  Ég geng stundum allt of langt og hendi eða gef eitthvað sem mig vantar daginn eftir.  Ég bara viðurkenni það.

Sem sagt.  Endalaus farangur og týndar töskur undanfarið ár.  Alveg sama hvaða flugvellir eru notaðir en ég held samt að London og Paris hafi strítt mér mest.

Ég hlakkaði svo til að fara í fyrramálið með ekkert.  Það eru komin föt í fataskápinn úti og snyrtidót í skúffuna á baðinu. Skór í skápnum og stílabækur á borðinu.  Bara passinn, taskan, ipadinn og ég.

En auðvitað verður þetta ekki svona.

Hér eru komnir alls konar pinklar og pakkar  í hrúgu á gólfið og bíða eftir að komast ofan í tösku.

En – þótt ég hafi í einfeldni minni haldið að ég yrði bara með eina tösku undir handleggnum – er ég ljómandi kát.

Það er nefnilega veisla í farangrinum.

Þurrkarinn hennar mömmu

Mér var kalt í dag.  Ég hef verið kvefuð í nokkrar vikur, það rennur stöðugt úr nebbanum og ég er með krumpaðar sérvettur í öllum vösum og töskum.  Ég er lengur að hrista af mér kvef en áður og ætti sennilega að taka meira mark á þessari ólæknandi pest en ég geri.  Gamla húsið við Austurvöll er lifandi og fylgist með veðrinu.  Á heitum sumardögum fagnar það innilega og hitar okkur öllum inn að beini og…á veturna…er stundum pínu kalt.  Eins og í dag. Ég átti að vera í myndatöku í dag svo ég var heldur léttklædd í stuttu pilsi og litlum jakka.  Og það dugði mér ekki.  Í kvöld fann ég að kvefið fór að ágerast.

Og þá fór ég að hugsa um þurrkarann hennar mömmu.  Þegar ég var lítil stelpa með þung og þykk gleraugu og allt of stór eyru fannst mömmu skipta máli að mér væri ekki kalt.  Svo hún heimtaði að ég gengi með þykka lopalambúshettu.  Hún var með dúski og stakk mig voðalega í kinnarnar.  Hún vildi líka að ég gengi í þykkri ullarúlpu og í sposssokkum undir buxunum.  Þetta var ekki alveg það smartasta í Laugarnesskóla en ég þorði ekki annað en að hlýða svona að mestu  – var í sokkunum og skónum en tróð lambúshettunni í skólatöskuna mína þegar færi gafst.

Og þegar við vinkonurnar gengum heim úr skólanum á köldum vetrardögum – við vorum svona hálftíma að ganga 7 mínútna leið – varð mér ægilega kalt á stóru eyrunum.  En þráskallaðist við að taka upp lambúshettuna.  Mér var líka pínu kalt á fingrunum af því að annar vettlingurinn hvarf alltaf um leið og hann hitti hinn svo lítið gagn var af þeim.  En….þegar ég gekk upp brekkuna  heima þá greikkaði ég sporið – af því að ég heyrði notarlegt hljóð.  Og þegar ég kom í portið sá ég gufuna og suðið í þurrkaranum hennar mömmu.  Hann vann inni í þvottahúsi en skilaði gufunni út um gat á húsveggnum.  Þar hitaði ég hendurnar og eyrun og áður en ég vissi af henti ég skólatöskunni af bakinu og hljóp heit og rjóð á vit nýrra ævintýra með vinkonu minni.

Þurrkarinn hennar mömmu.  Ég vona að svoleiðis þurrkari gangi enn og gleðji litlar stelpur sem koma kaldar heim úr skólanum.

Hryggur og framboðslisti

 

Í gær var framboðslisti okkar fyrir Reykjavíkurkjördæmin ákveðinn.  Ég flutti mig úr suður kjördæminu yfir í norður og sit þar í 22. sæti. 

 

22. janúar 2013 settist ég í 22. sæti framboðslistans.  Í gær var líka afmælisdagur tengdapabba, hann hefði orðið 73 ára og ég passaði mig á að borða sem minnst yfir daginn enda hryggur í matinn eins venjulega.  Ég kom við á fundinum – stóð aftast og fylgdist með.  Ég veit að framundan eru skemmtilegir tímar hjá frambjóðendum og forysta listanna er í öruggum höndum þeirra Hönnu Birnu og Illuga. 

 

Ég hef haft mikla ánægju af því að vera í stjórnmálum þótt ég hafi auðvitað skynjað mjög vel að mjög margir eru leiðir á okkur sem í þessu stöndum og finnst við gætum gert hlutina miklu betur.  Og það er auðvitað rétt – maður getur eflaust alltaf gert betur og á að reyna að gera betur hvern dag.  En það er samt óhætt að segja að það hefur gefið mér mikið að hitta og kynnast fjölda fólks um allt land, heyra vonir þess, þrár og drauma.  Og alltaf er það þetta sama og það skiptir engu máli hvar í flokki fólk stendur eða hverjum það treysti best fyrir atkvæði sínu, öll viljum við vinna landinu okkar gagn.  Þá þykir mér ekki síður vænt um þau vinarbönd sem ég hef bundið þvert á flokka og ég veit að munu vara ævilangt. 

 

Ég hugsaði um þetta þar sem ég stóð aftast við kaffivélina í gær og fylgdist með.  Ég var svo sem ekkert að fela mig en svo langaði mig bara að standa þarna og kjafta við félaga mína til margra ára.  Samt fannst mér ég eiginlega varla vera á staðnum –  það læddist að mér undarleg tilfinning að ég væri að horfa á það sem fram fór nánast eins og ég væri bara einhver allt önnur. 

 

Senn líður að því að  verð ég að gera eitthvað allt annað.  Ég verð ekki á fundum á laugardagsmorgnum og miðvikudagskvöldum.  Ég verð ekki að hugsa hvað ég ætla að segja á þessum fundinum eða hinum um það sem ég held að sé framundan í efnahagslífinu eða öðru daglegu amstri.  Ég verð ekki að koma heim um miðjar nætur af þingfundum. 

 

Á sama tíma að ári.  22. janúar 2014.  Þá verður það eitthvað annað sem fangar huga minn  þótt ég verði áreiðanlega að hugsa um þjóðfélagsmál eins og mér er tamt að gera.  En eitt er þó víst – það verður hryggur á borðum.

Norðanáttin kallar

Það blés hressilega á Kjalarnesinu og undir Hafnarfjallinu í hádeginu í dag.  Ég var á leið á stefnumót við félaga mína á norðvesturlandi – hálfhallærislegt að nota eitt orð yfir þetta mikla landsvæði – en kjördæmið spannar allt frá Akranesi norður á strandir – Snæfellsnes – allt vestanvert norðurland og allt þar á milli.  Þar eru líka Húnavatnssýslurnar sem mér hefur ávallt verið kennt að þykja sérlega vænt um.  Framundan var fundur við góða félaga og ég hlakkaði til.

 

Mér finnst notarlegt að hlusta á rás 1 þegar ég er ein í bílnum.  Á ferðum mínum um norðausturkjördæmið fannst mér alltaf gott að keyra ein og láta hugann reika og hlusta á þátt eftir þátt í útvarpinu.  Þegar ég sit í heitum bílnum skiptir rokið engu og meira að segja kann ég bara vel við það.  Það hvarflaði að mér að fara upp í sumarbústað og koma aftur heim á mánudaginn – kúra undir teppi, lesa og hlusta á hávaðann í rokinu.  En ég gerði það ekki.

 

Ég fór hins vegar að hugsa um bréf sem ég fékk sent á svipuðum árstíma fyrir 18 árum síðan.  Þá bjuggum við  í Íþöku í NY fylki Bandaríkjanna og ég var með tvo litla snáða á sitthvorum handleggnum.  Hann var í framhaldsnámi, ég eignaðist börn.  Og ég þjáðist af sárri heimþrá.  Fyrir utan að sakna allra vina minna og fjölskyldu var ég sannfærð um að lífið væri á harðahlaupum framhjá mér.  Lögfræðiprófið mitt ónotað og yrði áreiðanlega alveg úrelt þegar hann kláraði námið sitt.  Ég fengi eflaust aldrei vinnu á Íslandi.  Ungar mæður verða stundum ruglaðar í kollinum og horfa á tvö ár sem heila eilífð.  Þennan morgun var kyrrt og gott veður en kalt.  Svoleiðis var veðrið gjarnan á þessu svæði. Ég kunni ágætlega við það eða maður skyldi halda það.  En svo kom bréfið.

 

Systir mín sagði mér fréttir af Íslandi og frá einu og öðru sem hún að sýsla.  Alveg eins og góð bréf eiga að vera.  En það var líka lýsing af göngu hennar eftir Suðurgötunni morguninn sem hún skrifaði bréfið.  Grenjandi norðanátt og varla stætt.  Hún þurfti að forða sér inn í trjágöngin við háskólann til að standa á fótunum.  Þetta sagði hún hispurslaust og ekki svo að skilja að henni hefði þótt gangan skemmtileg.

 

Viðbrögðin handan hafsins hefðu komið henni á óvart.  Þar sat ég á stól með bréfið í höndunum og skældi eins og barn.  Það kom í ljós að ég saknaði ekki bara fjölskyldunnar og vinanna.  Norðanáttin íslenska hrópaði á mig. Esjan og strengurinn í Lækjargötunni á vindasömum vetrardögum skilur líka eftir sig minningar og ilm af Íslandi.

 

Þegar ég renndi í hlaðið við menntaskólann í Borgarnesi fann ég hvernig hita hríslast um mig alla.  Hér er gott að vera.

 

Flyt á sprengjusvæði

Það verður stöðugt brýnna að læra frönsku. Þegar þetta tímabil hófst fyrir réttu ári fórum við strax að leita að íbúð hér.  Ákváðum að best væri að vera miðsvæðis a.m.k. meðan við værum að kynnast þessari borg.  Það gekk svo upp og niður að finna íbúð – í fyrravor héldum við að við værum komin með eina ansi góða rétt við miðbæinn en svo klikkaði það á síðustu stundu og við blasti að hann (þá í einsemd sinni) yrði hreinlega á götunni.  En sem betur fer leystist það og við fluttum í pörtum inn í fallega íbúð í sumar.  Ég hef þó kveinað undan umferð þegar ég hef verið hér og yfir öðru smálegu – eins og til dæmis því að verið er að taka tvær íbúðir í gegn með fyrir neðan okkur og hávaðinn byrjar stundvíslega kl. hálfátta.  En það sér fyrir endan á því og ég hugsaði með mér að það væri bara ágætt að vera kjurr hér fyrst og sinn – nóg framundan við að klára skyldur á Íslandi og huga að krökkunum í þessum breytingum öllum að maður væri ekki stöðugt að flytja og vesenast.  Enda telst mér til að við höfum flutt 11 sinnum milli húsa, landshluta og landa frá því við fluttum úr hlýju foreldrahúsanna.  Svo smávegis umferðaniður og hamarshögg skiptir ekki máli.

En svo fór málið að vandast.  Nýlega hitti ég konu úti á götu sem kom blaðskellandi til mín og hélt yfir mér fyrirlestur – á frönsku.  Ég afgreiddi hana sem bilaða enda var handapatið þvílíkt og fyrirgangurinn, hvað á það líka að þýða að ráðast á bráðókunnugt fólk með hávaða og að því að ég taldi, skömmum.  Sagði bara við hana að ég skildi ekki bobs og ætlaði að halda mína leið.  Nei.  Hún hélt ekki.  Hún skipti bara yfir í heldri manna ensku og hóf upp raust sína.  “Veistu hvað þessir menn ætla að gera?  Það á að eyðileggja þetta frábæra hverfi hér. Það verður ekki búandi hér.  Af hverju mega hlutirnir aldrei vera í friði? Þetta eru auðvitað brjálaðir menn.  Veistu hvað? ”  Nei.  Það var óhætt að segja að ég vissi ekki hvað né nokkuð annað.  “Ég skal bara segja þér að þeir ætla að byggja lestarstöð hér á horninu!”

En ljómandi fínt hugsaði ég með mér.  Ósköp er þessi kona dekruð að vera á móti smáframkvæmdum vegna lestarstöðvar – þetta hlýtur að eiga að vera ný stoppistöð – varla meira en það og er ekki bara ágætt að fá sporvagninn hér í nágrennið – gerir samgöngur enn betri og eru þær þó ágætar fyrir.

Tíminn leið þar til nú í janúar að við fengum bækling í póstkassann.  Tilkynning um að framkvæmdir væri að hefjast – ekki vegna stoppistöðvar fyrir sæta sporvagninn – heldur  eitthvað miklu meira í sambandi við lestir – og svo var heilmikill texti á frönsku sem við skyldum auðvitað ekki.  En okkur leist ekki alveg á blikuna.

Og í morgun – þar sem ég var á kafi ofan í ferðatöskunni – enda á leiðinni heim til Íslands – kom hann blaðskellandi með skýringar á því sem framundan er.  1. áfangi framkvæmda er að hefjast – byggja skal 4 eða 5 hæða lestarstöð ofan í jörðina, nánast undir húsinu okkar með tilheyrandi jarðgöngum fyrir lestir út og suður.   Framkvæmdir standa væntanlega í fjögur til fimm ár kryddaðar með sprengingum og efnisflutningum fyrir framan litlu sætu svalirnar mínar.  Markmiðið?  Bæta samgöngukerfið í Genf og bæta aðgengið að spítalanum (sem NB þarf líka að gera í Reykjavík þótt lítið sé farið að tala um það í tengslum við nýja spítalann).

Ég hugsaði um allar bíómyndirnar , íbúðir á lestarteinum, ekki hægt að tala saman meðan lestin brunar framhjá og allt leirtauið hristist í skápunum á 5 mínútna fresti….

…Ég er að flytja úr græna gróna dalnum mínum í austurbæ Reykjavíkur á sprengjusvæði…

 

Verðum að ráðast á skuldir ríkissjóðs.

Það styttist í kosningar.  Erilsamt kjörtímabil er senn að baki og flokkar og framboð stilla sína strengi fyrir komandi kosningabaráttu.  Mér finnst miklu máli skipta að menn horfist í augu við stöðu íslensks þjóðarbús eins og hún er – tali fyrir raunverulegum lausnum en falli ekki í þá gryfju að bjóða upp á skyndilausnir til skamms tíma.  Við skuldum allt of mikið, íslensk þjóð.  Þeir miklu erfiðleikar sem á okkur dundu 2008 setja enn mark sitt á efnahag þjóðarinnar.  Þar við bætist að í aðdraganda falls bankanna voru íslensk heimili allt of skuldsett.  Það má segja, að nú sé dæmið þannig að til viðbótar við skuldug heimili bætist allt of skuldsettur ríkiskassi og það er engin leið að varpa þeim skuldum á almenning í landinu í formi endalausra skattahækkana og aukinna álaga.  Öllu máli skiptir fyrir okkur að auka tekjur þjóðarbúsins – leita að og næra ný fjárfestingartækifæri og hagræða eins og frekar er kostur í ríkisrekstrinum.  Á sama tíma þurfum við að líta á framtíðarmöguleika okkar Íslendinga – samkeppnishæfni okkar í ört harðnandi heimi og þar mun mestu skipta að á Íslandi búi vel menntuð og hugmyndarík þjóð.  Við vitum ekki í dag hvað fyrirtæki – hvaða hugmyndir það verða sem skapa grunn að vexti framtíðarinnar.  Við vitum hins vegar að það verður á grunni góðra menntunar – vísinda og rannsókna.

Ég vona að komandi kosningabarátta snúist um þetta.  Að menn viðurkenni að við erum ekki komin út úr erfiðleikum kreppunar.  Að hættur séu framundan ef menn láta eins og ekkert sé –  en jafnframt að vandinn er yfirstíganlegur.  Fyrst og fremst verðum við að greiða úr skuldavanda ríkissjóðs og efla fjárfestingar og nýsköpun í landinu.  Þannig munu einstaklingar og fjölskyldur dafna á Íslandi.

Flokkar og framboð eru smátt og smátt að kynna sín stefnumál fyrir komandi kosningar.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hélt öflugan fund í Valhöll í dag þar sem stefnan var tekin á framtíðina.  Ég hlakka til að fylgjast með á komandi vikum og mánuðum.