Það munar um einn.

Image

 

Ég fór í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Genf á föstudaginn.  Erindið var áhugavert, kynning á bók um flóttamannabúðirnar Camp Ashraf í Írak.  Bókin heitir the Untold Story of Camp Ashraf og er höfundur bókarinnar  fyrrum yfirmaður SÞ í Írak, Tahar Boumedra.  Í bókinni er sett fram mikil gagnrýni á SÞ og alþjóðasamfélagið fyrir að láta ofbeldisverk á óbreyttum borgurum líðast en eins og kunnugt er voru búðirnar stofnaðar í því skyni að veita íröskum flóttamönnum skjól.  Því miður virðast ofbeldisverk á þeim sem í þarna búa engan endi taka.

Þegar maður situr á svona fundi og er minntur á hve heimurinn getur verið óskaplega grimmur, vaknar alltaf spurningin, hvað get ég gert?  Hverju get ég breytt?  Hvað getum við, sem sitjum hér og hlustum gert betur? Hjálpað?  Hvað gerum við þegar við stöndum upp og förum út?  Förum við á annan fund og hlustum? Eða taka önnur verkefni við?

Munar um einn?  Í litlum samfélögum er í raun svo auðvelt að hafa áhrif, þar munar svo óskaplega mikið um hverja einustu manneskju.  Það rann ekki upp fyrir mér almennilega fyrr en við fluttum til Egilsstaða í fremur fámennt samfélag hversu miklu munar um hvern og einn.  Þar spratt fram hjá mér þessi þörf að leggja mitt af mörkum til samfélagsins, eitthvað sem eflaust hefur blundað í mér alla ævi en fann farveg í því góða samfélagi.  Lítil samfélög þurfa á öllu sínu að halda og fólkið veit það.  Það sama má í raun segja um Ísland.  Við þurfum á öllu okkar að halda, við verðum  að mennta fólkið okkar og rækta í börnunum okkar skilning á því að hver og einn skiptir máli, hver og einn er hlekkur í því að við getum áfram dafnað í okkar landi.  Um leið verðum við að gera okkur grein fyrir að við erum hluti af stórum heimi og þar getum við líka haft áhrif – hvert og eitt.

Munar líka um einn í Sýrlandi og Írak? Bangladesh?  Í stríðshrjáðum löndum sem eru að sligast undan oki harðstjórnar og mannvonsku?  Í fjölmennum löndum þar sem fjölgunin er svo hröð að manni finnst nánast eins og mannslífið sé vart virt?

Hvernig er þessi eini sem byrjar á því að tala við næsta um það verði að berjast gegn ógnarvaldinu?  Hvers konar kjark hefur hann til að bera?  Litla stúlkan í Pakistan.  Malala Yousufzai byrjaði að skrifa blogg 11 ára gömul þar sem hún lýsti því að búa undir ofríki Talibana.  Þeir skutu hana 15 ára gamla.  Það er ekkert annað en kraftaverk að hún skuli hafa lifað það af og nú býr hún í Englandi og heldur áfram  andófi sínu.  Hvers konar kjarkur er þetta í ungri stúlku.  Það eru sem betur fer mörg dæmi um óbilandi hetjur.  Aung San Suu Kyi í Burma er kannski holdgervingur þessa fólks og lifandi sönnun þess hve miklu munar um einn.

Þessar hugsanir fóru í gegnum huga minn meðan ég sat á þessum fundi, hlustaði á fyrirlesarana og horfði á fólkið sem þarna var.  Flestir voru sennilega á vegum alþjóðasamtaka ýmiss konar sem starfa að mannúðarmálum í heiminum.  Fólk sem hugsar allan daginn um hvernig bæta megi líf almennra borgara í stríðshrjáðum og fátækum löndum.  Samtök sem hjálpa þeim sem rísa upp og berjast gegn óréttlæti og mannvonsku.   Hjálpa þessum eina sem einhvers staðar fór að tala við annan og smátt og smátt varð til hreyfing  sem á þá ósk heitasta að fá að búa í landi þar sem hver og einn fær tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi.

Ég fór heim með bókina.

Er ekki best að fara fullklæddur út á morgnanna?

Er of vel í lagt að fara að tala um veðrið?  Læt samt vaða.  Mikið annað svo sem að gerast  á vettvangi stjórnmálanna sem ég væri alveg til í að tala heilmikið um en ég ætla ekki að gera það í dag.

Ég þarf að gera játningu.  Ég er nefnilega ein af þeim sem langar voðamikið að vera almennilega til fara og vel greidd á morgnanna og geng oft til hvílu með slík áform efst á listanum.  Það gengur svo misvel að framfylgja því.  Ég er utan við mig.  Lent í ótrúlegum hlutum eins og því að vera komin út á stétt þegar ég áttaði mig á að það var ekki einleikið hvað mér var kalt – en svo kom svarið – ég hafði bara gleymt að fara í pilsið mitt.  Ég gleymi buddunni í frystikistunni í búðinni – eða keyri alla leið á Hvammstanga og fatta svo að ég hafði hent buddunni í ruslið fyrir utan bensínstöðina í Borgarnesi.  Á ég að lýsa því hvernig það gekk svo fyrir sig að hafa – fyrir mörgum árum stigið inn í bíl fyrir utan leikskólann og komist að því að stýrið var í framsætinu en ég í aftursætinu – með barnalæsinguna á og það sjónarspil að fá nærstadda til að hleypa mér út….og það er miklu meira og neyðarlegra sem ég get varla sagt frá.  Enn þarf að kanna hvort ég geti gengið og tuggið tyggjó á sama tíma….

….en ég hafði heitið sjálfri mér að þingmaðurinn í sæti 13 ætlar að vera fín alveg til þingloka og það þýðir í mínum kokkabókum að ganga í pilsi.  Og hælum líka.  Mér fannst tilvalið að byrja á þessum síðasta kafla í morgun.  Í stíl við annað hafði ég tekið mátulega eftir veðurspánni, mér heyrðist vera talað um kólnandi veður en svo hef ég greinilega farið að hugsa um eitthvað annað og náði ekki meiru í veðurfréttunum.  Kólnandi veður – það er aldeilis lítið mál fyrir íslenska kellu að skella utan um sig heitu kápunni og skálma út í fínu skónum og stutta pilsinu í svoleiðis.

Var syfjuð í morgun eins og alla morgna.  Er típískt B.  Sonur minn kom inn og fór að fjasa um að veðrið væri vont að hann þyrfti kannski að gera bílinn kláran fyrir mig og hvort ég vildi ekki klæða mig vel.  Naumast hann er vel upp alinn, hugsaði ég.  Og hélt mér við mitt prógramm.  Svo, eftir mínar 15 mínútur í snyrtihamnum (neita að vera lengur að gera allt klárt á morgnanna) fór ég fram í forstofu og hitti báða synina áhyggjufulla yfir stöðu mála. Stór skafl fyrir utan dyrnar.

Og viti menn.  Litli bíllinn var líka á kafi í snjó hátt í innkeyrslu í Laugardalnum og mamma alveg fráleit til fara.

Ég skammaðist inn og fór í síðan kjól,  enn stærri kápu, sjal og stigvél sem henta best í réttirnar og gaf allt í botn í bakkgír á litla kút niður Laugarásveginn.  Miðað við að ég vissi minnst um færð á vegum borgarinnar komst ég á ótrúlegum hraða niður á Austurvöll þar sem ég hélt til í allan dag.

Og svo….eins og synirnir hefðu haft áhyggjur af mömmu í allan dag…undir kvöld kom ég svo heim og hvað beið mín í brekkunni nema skóflur og tilbehör og sú gamla keyrði eins og fín frú beint að heim að dyrum!

Í fyrramálið hefst aftur átakið að punta sig í vinnunna.  Því verður haldið áfram allt þangað til að nýr verður kjörinn til að setjast í það ágæta sæti 13 á Alþingi.

Kveðjuræða á landsfundi

Formaður, fundarstjóri vinir mínir og félagar
Ég er hingað komin til að kveðja.
Ég vil þakka fyrir mig.
Ég vil þakka sjálfstæðismönnum í norðausturkjördæmi sem voru tilbúnir til að veðja á Reykvíking í prófkjörinu 2007 – sjálfstæðismönnum í Reykjavík sem ákváðu að taka á móti mér árið 2009 – og ykkur – landsfundarfulltrúum fyrir að hafa sýnt með það traust að trúa mér fyrir embætti varaformanns í flokknum. Fyrir það er ég þakklát.
Ég ætlaði að vera hér svo miklu, miklu lengur og ganga áfram með ykkur götuna fram að bjartari tímum í sögu þessa lands – sögu sem verður vörðuð bjartsýni og uppbyggingu – þar sem við Íslendingar munum hlúa að nýgræðingnum um leið og við horfum langt fram á veginn til þess þjóðfélags sem við viljum móta hér.
En enginn á nokkru sinni að halda að hann hafi eða eigi að hafa fulla stjórn á elfur lífsins. Það eru fleiri kraftar en minn eða þinn sem stýrir framvindu okkar. Lífið sjálft tekur völdin. Við setjum okkur öll markmið – keppum að þeim og það þarf að vanda sig við öll þau verk sem okkur eru falin. Þegar öllu er á botninn hvolft – alveg sama í hvaða stól hver er – þá er ekkert mikilvægara en hagur fjölskyldunnar – velferð hennar og framtíð – sem er í raun stefna Sjálfstæðisflokksins.
Ég held að það sé okkur öllum hollt að líta aldrei á neitt sem gefið. Við eigum að vera opin fyrir öðru en því sem við er að fást á hverjum tíma. Ég ætla samt að segja við ykkur að það hefur reynst mér í vetur allt að því sársaukafullt að slíta mig í burtu frá ykkur og því sem framundan er á vettvangi stjórnmálanna og Sjálfstæðisflokksins.
Nú er ég farin að skrifa ótæplega um fjölskylduna og um það að flytja með börn og hálffullorðið fólk til útlanda á vefsíðu mína – englunum mínum fjórum til mismikillar ánægju. Ég hef aldrei talað jafnmikið um uppvask og þvottavélar – börnin horfa forviða á – en láta allt yfir sig ganga eins og vant er þegar mamma er annars vegar. Þau bíða róleg eftir að hún komi sér á bólakaf á ný í önnur verkefni.

Góðu vinir
Flokkurinn okkar stendur á tímamótum. Eftir erfitt kjörtímabil horfum við bjartsýn fram að kjördegi og vinnum að því að stefna okkar og hugsjónir fái gott brautargengi. Öllu skiptir að lausnir Sjálfstæðisflokksins verði ráðandi við stjórn landsins á komandi árum. Ég er sannfærð um að með okkar skýru stefnu að leiðarljósi, undir traustri forystu og með okkar breiðfylkingu að baki henni munum við uppskera vel í komandi kosningum. Ef við gætum þess að tala af ábyrgð og festu um hlutina, ef við vörumst gylliboð og skyndilausnir, ef við tölum hreint út um að stundum verði þungt undir fæti, mun smám saman birta til. Fyrirtækin öðlast aftur trú á frekari fjárfestingar, heimilin finna að krónunum fjölgar í buddunni og kaupmáttur eykst, skuldir lækka og nýir vaxtabroddar skjóta rótum um land allt.
Þetta gerist með traustum aðgerðum á sviði efnahagsmála sem snúa að því að byggja undir hagvöxt í landinu, skapa svigrúm fyrir erlenda fjárfestingu og styrkja gjaldeyrisöflun og síðast en ekki síst með því að lækka skatta á fyrirtæki og heimili. Við megum engan tíma missa við að brjótast út úr þeim hörmungar haftabúskap sem hér hefur náð undirtökum í stöðugt hertum reglum Seðlabankans sem bitna mest á venjulegum íslenskum fjölskyldum sem sig hvergi geta hreyft.
Vinir mínir.
Verkefnin sem bíða eru mörg og stór en ekkert þeirra er mikilvægara en að tryggja stöðu heimilanna – Ég ítreka mikilvægi þess að skattar verði lækkaðir á heimilin.
Mikilvægasta aðgerðin til að mæta vanda heimilanna og auka slagkraft þeirra er á sviði atvinnusköpunar og skattalækkana.
Hvað eru almennar aðgerðir? Hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að byggja undir hagvöxt? Hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að auka kaupmátt og hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að lækka tekjuskatt á heimili og fyrirtæki.
Við þurfum að lækka skatta.
Ágætu landsfundarfulltrúar,
En það er fleira. Við verðum að huga vel að opinberri umræðu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum undir trumbuslætti og mótmælaöldu. Reiðin var mikil í upphafi árs 2009 og stór orð voru látin falla um menn og málefni. Jóhanna leyfði sér reyndar í stefnuræðu vorið 2009 að setja upp leikrit fáránleikans um að hennar nýja ríkisstjórn væri boðberi nýrra vinnubragða, sátta og samlyndis. Þegar litið er til baka er það allt að því ósvífið að hún skyldi hafa látið slík orð falla enda hefur þetta kjörtímabil litast af harkalegri umræðu, ofstæki og síðast ekki síst ofsóknum eins og við þekkjum af aðförinni að okkar fyrrverandi formanni í Landsdómsmálinu. Þeirra skömm er ævarandi.
Því miður virðist ekkert lát á þessu. Ég hef áhyggjur af vaxandi persónulegum árásum og á köflum heift í opinberri umræðu hér á landi.
Það virðist vera orðið viðurkennt sums staðar að minnsta kosti að það sé sjálfsagt að svara gagnrýni með upphrópunum og oft á tíðum óþarfa árásum á fólk.
Bloggið er á margan hátt merkilegur miðill. Nú er ég að rannsaka það töluvert – ekki síst eftir að ég byrjaði að skrifa þar sjálf og um aðra hluti en stjórnmál. Áberandi er að orðfærið sem viðgengst á sumum bloggmiðlum virðist einskorðað við stjórnmálamenn og opinberar persónur.
Það er vissulega rétt að þeir sem eru í kastljósi fjölmiðla eiga svo sannarlega von á því að fá á sig gagnrýni af ýmsum toga og þeir eiga ekki að veigra sér undan því. Það er hluti af starfi stjórnmálamannsins. En þegar það er nánast stanslaust ráðist á nafngreinda einstaklinga með ljótu orðfæri og meiðandi ummælum er of langt gengið. Við eigum ekki og getum aldrei sætt okkur við þann sóðaskap sem viðgengst og við eigum að grípa til varna – og segja hingað og ekki lengra. Við höfum séð hvernig ítrekað hefur verið ráðist með svívirðingum að félögum okkar. Við höfum séð hvernig látlaust er barið á formanni okkar, Bjarna Benediktssyni í ákveðnum fjölmiðlum með óvægnum og ósanngjörnum hætti. Við eigum öll að andæfa og fylkja okkur að baki formanni okkar sem hefur það vandasama verk ásamt öðrum í forystu flokksins að leiða hann í gegnum kosningar. Við skulum átta okkur á því að árásir á hann – eru árásir á okkur – árásir á Sjálfstæðisflokkinn.
Mér ofbýður þetta og ég vil ekki – og neita – að sætta mig við að svona eigi hlutirnir að vera.
Það er eðlilegt og raunar nauðsynlegt að setja fram gagnrýni á fólk út frá málefnalegum rökum og með siðuðum hætti. En við sjálfstæðismenn skulum aldrei láta það viðgangast að umræðan sé færð niður á plan persónuleg árása og rógs. Við verðum að vera yfir slíkt hafin og við skulum svara þessu með því að gera nákvæmlega það, beita rökum og halda okkur við efni máls.
Það er mikil hætta fólgin í því að hleypa opinberri umræðu ofan í slíkar skotgrafir sem við höfum hér orðið vitni að. Og já, þótt að mörgum ykkar finnst eflaust að ég eigi ekki að tala um kommentakerfi, samskiptamiðla og bloggsíður þá vil ég gera það af því að þetta hefur áhrif á hvernig umræðan hér þróast. Hættan er nefnilega sú að þessi þróun dragi úr vilja fólks til að setja skoðanir sínar fram og standa fyrir þeim á opinberum vettvangi. Að fólk hreinlega veigri sér við því að blanda sér í opinbera umræðu. Við kjörnir fulltrúar á Alþingi erum ýmsu vanir og ekki síst undir lok þessa kjörtímabils. En við þurfum miklu breiðari umræðu hér um einstök mál og sú umræða má ekki einskorðast við kjörna fulltrúa Alþingis og sveitarstjórna. Við þurfum breiða þjóðfélagslega umræðu um þjóðfélagsmál og það má ekki verða þannig að venjulegu fólki finnist hreinlega ekki borga sig að taka þátt í henni.
Þess vegna segi ég við ykkur góðu félagar að við skulum öll gæta að okkur og tala skynsamlega við og um andstæðinga okkar og berjast á móti þeim sem telja hag sinn felast í því að ráðast á náungann með árásum og dylgjum..
Landsfundargestir
Í árdaga íslenska lýðveldisins sagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins Ólafur Thors:
„Okkur er vel ljóst, að aldrei hefur meiri vandi beðið okkar né jafn mikið í húfi. – En við kvíðum þó engu. Við vitum vel, að saga okkar er ekki fyrst og fremst sigrar heldur barátta og þrautir. Með festu og alvöru viljum við enn takast á hendur ábyrgðina og þar með erfiðið, sem fram undan er. – Við minnumst þess, að með hverjum nýjum sigri í sjálfstæðisbaráttunni hefur þjóðinni vaxið þrek og djörfung og treystum því að sú muni raunin enn verða. Og við vonum að bera gæfu til að eyða misklíðinni og skipa okkur sem allra flestir í lífvarðarsveit hins unga íslenska lýðveldis.”
Það er hlutverk Sjálfstæðisflokksins, að eyða misklíðinni, sýna Íslendingum að saman getum við aukið hagsæld, að standa saman í þágu allra Íslendinga og í þágu allra heimila. Við sjálfstæðismenn treystum fólkinu í landinu en andstæðingar okkar byggja allt sitt á tortryggni, sundurþykkju og vantrausti. Við höfnum sundurslyndisfjandanum en trúum á samstöðu þjóðarinnar. Við sjálfstæðismenn vitum að þjóð sem reynir að skattleggja sjálfa sig út úr efnahagslegum þrengingum nær ekki árangri frekar en maðurinn sem stendur í fötunni og reynir að lyfta sjálfum sér upp með því að toga í handfangið.
En fyrst og fremst erum við sjálfstæðismenn fullir bjartsýni enda sjáum tækifærin í hverju horni, ólíkt vinstri mönnum sem fullir svartsýni sjá hættur í öllum tækifærum.
Við sjálfstæðismenn þekkjum styrkleikann í því að sameinast sem eitt – jafnvel þótt ekki séu allir sammála. Þannig höfum við haft það hér í okkar flokki. Við erum ekki endilega sammála um allt – og þurfum alls ekki að vera það – en við deilum grundvallarlífsskoðunum og í krafti þeirra sækjum við fram. Þar liggur styrkleiki og breidd Sjálfstæðisflokksins – því skulum við aldrei gleyma.
Við sem hér erum, og þúsundir sjálfstæðismanna út um land allt, höldum áfram að sækja fram, við berjumst fyrir réttlátu samfélagi og við vitum að framundan er betri tíð með blóm í haga. Við ætlum að horfa fram á veginn, vinna þjóðinni gagn og búa þannig í haginn að unga fólkið í landinu geti gert markvissar áætlanir með framtíð sína hér á landi.

Ég þakka aftur fyrir þann stuðning sem þið hafið sýnt mér síðustu ár og um leið vil ég óska nýrri forystu flokksins velfarnaðar og alls hins besta. Við skulum öll fylkja okkur að baki þeim og við skulum öll taka upp kyndilinn og lýsa veginn fyrir þjóðina.
Takk fyrir allt, kæru vinir. Ég færi mig yfir í bakvarðasveitina.

20130225-143227.jpg