Ég er kelirófa…um kossa, faðmlög og hvíta víkinga.

2014-10-01 10.55.13

Nú er brátt komið vel á þriðja mánuð frá því að líf mitt umturnaðist svo eftirminnanlega. Og fram til þessa hefur þetta gengið að óskum og mér líður bara vel. Það eru þrjár lyfjameðferðir, eða dælingar eins og ég kalla þær, að baki og þrjár eftir. Þau vandkvæði sem ég hef orðið fyrir eru þau helst að víkingarnir í hvítu blóðkornunum og blóðkornin sjálf hafa fallið um of og það hefur þýtt að ég hef nánast verið í einangrun hér í húsinu mínu í Laugardalnum.

Víkingarnir eru fyrstir á vettvang ef pest er yfirvofandi svo án þeirra er ég viðkvæm fyrir og verð að pakka mér í verndarhjúp. Ég lít á þessa árás lyfjanna sem jákvæðan hlut, lyfin eru svo sannarlega að ráðast á frumur líkamans!

Í stað þess að þeytast út um allan bæ og gæta þess að missa ekki af neinu, er ég heima. Og í stað þess að leggjast í lestur…einbeitingin ekki alveg upp á það besta…fór ég að hekla. Í stað þess að spekúlera hvað væri að frétta um víða veröld og hér heima….fór ég að hugsa um allt milli himins og jarðar öllu hversdagsamstri óviðkomandi. Í stað þess að skipuleggja lífið út í ystur æsar, læri ég að njóta.

Það sem ég geri ekki, hins vegar, er að faðmast og kyssast. Til þess eru hvítu vikingarnir og fáir og pestirnar of margar.  Mér finnst það samt eiginlega verst.  Ég er nefnilega kelirófa. Ég vil helst hlaupa upp um hálsinn á vinum mínum og kyssa þá rembingskoss þegar ég sé þá. Mér finnst gott að halda í höndina á þeim sem mér þykir vænt um. Mér finnst mannleg snert, hlý, gefandi og góð. Alltaf verið svona.

Ég finn samt hlýjuna gegnum rokið sem bylur núna á húsinu mínu, gegnum ólýsanlega strauma frá fólki allt í kringum mig, bréf kveðjur, og gegnum tæknina sem okkur finnst stundum ósköp tímafrek og þreytandi en er núna eins og lítill farvegur héðan út.

En ég hlakka til að taka utan góðan vin einhvers staðar á Laugaveginum á aðventunni…og smella honum rembingskoss.

Frú eyrnastór er mætt!

2014-09-10 20.11.16

 

Það var fjöldamargt sem mér þótti athugavert við sjálfa mig þegar ég var stelpa. Allt of mjó, allt of lítil, allt of ljót, allt of feimin, þykk, þung og ljót gleraugu…og það sem mér þótti verst af öllu, með ALLT of stór eyru. Á tímabili vildi ég, ekki orðin 12 ára, fara í aðgerð og láta laga svo hitt og þetta, en númer eitt, tvö og þrú, laga á mér eyrum, líma þau aftur. Svo ég mundi aldrei aftur þurfa að svara stríðnisröddunum því að jú, ég get flogið á eyrunum, en því miður, tek ekki farþega!

 

Smátt og smátt sættist maður svo við allar misfellurnar, a.m.k. hvað útlitið varðar og vandræði bernskunnar víkja fyrir annars konar áhyggjum og við tekur ævilöng barátta við innri vankanta.

 

Eitt það fyrsta sem ég hugsaði um þegar í ljós kæmi að hárið á mér væri í þann mund að yfirgefa mig, var hvernig þetta yrði með eyrun. Það var þá ekki farið fjær huga mínum en svo, að 47 ára gömul konan fór að hugsa um eyrun sín og þau færu að standa út í loftið henni til mismikillar ánægju. Álfar og huldufólk, kynjaverur, þjóðsagnapersónur alls konar fóru að sækja á mig, alveg tilviljunarkennt en samt alltaf kringum þetta sama stef. Eyrun. Ekki þar fyrir að þjóðsögurnar eru mér alltaf kærar en í þessu tilviki það miklu frekar að þessi tenging sem er í huga okkar milli álfa og eyrna svo ekki sé talað um álfana í Hringadrottinssögu.

 

Nú er sem sagt álfurinn ég kominn í ljós. Eftir að hafa lokið þriðjungi af lyfjameðferðinni birtist hann. Og þótt að mér hafi lítið þótt til um þetta þegar ég var lítil stelpa, kann ég ljómandi vel við stóru eyrun núna.

Klisjurnar

himininn

 

Ég hef verið að hugleiða klisjur og klisjukennd orð. Mér finnst flest af því sem í huga minn kemur þessa dagana vera frekar klisjukennt, það er ekkert nýtt undir sólinni. Og þegar áföll dynja yfir færa klisjurnar gjarnan sannleikann heim. Það er líka hægt að líta á orðtök og málshætti og segja að boðskapur þeirra sé klisjukenndur. Maður er manns gaman er einn af þeim. Margar hendur vinna létt verk. Hver er sinnar gæfu smiður. Að láta hvern dag nægja sína þjáningu. Í skáldskap finnum við líka alls kyns sannleik, Einar Benediktsson minnti okkur á að aðgát skuli höfð í nærveru sálar og Jónas minn orti varla nokkurn skapaðan hlut án þess að það snerti við manni.   Hér er partur úr broti sem ég held upp á.

 

….

Augun raunar eru þín

upplitsbjarta stúlkan mín

hitagler ef hlýna

 

sólargeislum innan að

ég er búin að reyna það

safna þau, svo brímabað

brennir vini þína

 

Vinátta, hlýja og félagsskapur er nokkuð sem við öll þurfum á að halda. Miklu meira en nokkurt okkar vill viðurkenna, held ég. Eða svo ég tali bara fyrir sjálfa mig af því að það er öruggara, miklu meira en ég hélt. Síðustu vikur hef ég verið umvafin vinum, kunningjum og meira að segja ókunnugu fólki sem hefur veitt mér ómælda hlýju og skemmtilegheit. Gegnum kveðjur, símtöl, vinskap, falleg sendibréf og heimsóknir hef ég safnað mér orku og krafti sem ég nú beiti til að takast á við lyfjameðferðina sem ég nú stend í. Eitrið í lyfjunum læsir sér um líkama minn og bægir í burtu þessum óboðna gesti sem ég ætla að senda út í hafsauga. Og eitrið vinnur sína vinnu hægt og bítandi, losar mig við hárið á höfðinu og veldur tímabundinni þreytu. Dregur mann niður, um stund, svo hægt sé að byggja aftur. Enn ein klisjan, upprunnin í heilögu orði, maður reisir hús sitt á bjargi, en ekki sandi.

 

Í miðju þessu kófi líður manni upp og niður. Verst þykir mér hvað ég er löt að lesa. Það bíða alltaf nokkrar bækur á borðinu en einbeitingin ekki enn alveg eins og hún á að vera. Það hlýtur að lagast hægt og bítandi. Á meðan hlusta ég á Góða dátann Svejk í græjunum,brosi og hlæ. Hann er auðvitað skyldulesning á hvert heimili, reglulega.

Óboðinn gestur – baráttan við óvænt veikindi

himininn

Lífið getur breyst á einu augnabliki. Við vitum það flest en trúum því samt ekki að neitt hendi okkur sjálf. Ég held sem betur fer.

Við vorum á leið í brúðkaup á Íslandi fyrir örfáum vikum og síðan var ætlunin að hefjast handa við flutninga frá Genf til New York. Praktísku atriðin voru komin á gott skrið, skólamál, íbúðarmál…allt hefðbundin verkefni sem fylgir því að flytja milli landa. Alpalandið var kvatt með söknuði í bili og við hlökkuðum til að takast á við nýjar áskoranir.

Þá tóku æðri máttarvöld í taumana. Ég ákvað að fara til læknis við komuna heim af því að ég var orðin svo mikil um mig miðja frekar skyndilega. Á örskotsstundu skiptu fyrri plön engu máli, hversdagslegu verkefnin víkja núna fyrir þeirri stærstu áskorun sem ég hef staðið frammi fyrir. Óboðinn gestur hafði nefnilega sest að innra með mér.

Ég er nýlega komin úr uppskurði þar sem, gesturinn, illkynja æxli, var fjarlægður og nokkurra mánaða lyfjameðferð er hafin. Öll fjölskyldan er sameinuð hér heima á Íslandi og hér verðum við í vetur og tökumst á við afleiðingar þessa óboðna gests sem vonandi verður endanlega skolað niður í lyfjameðferðinni. Ég hef fulla ástæðu til bjartsýni þegar þeim kafla lýkur. Fram að þessu hefur allt gengið á áætlun, meira að segja hárið sem fýkur af mér í þessum töluðu orðum og í fyrramálið ætla ég sjálf að losa mig við afganginn af því – það verður hressandi að láta íslenska síðsumarið leika um kollinn minn.

Manni bregður við svona tíðindi. Enginn á von á því að svona nokkuð hendi sig. Og það er gott. Ég ætla ekki að velta mér upp úr þessum veikindum en ég ætla hins vegar að sigrast á þeim. Ég finn um leið hvað jákvæðni og stilltur hugur skiptir miklu máli þegar áföll ríða yfir. Að reyna að ná stjórn á hugsunum sínum og laða fram það jákvæða í lífinu hjá mér sjálfri og öllum þeim sem eru í kringum mig.
Þannig ætla ég að nálgast þetta stóra verkefni sem mér hefur nú verið falið að glíma við.

Að ná markmiðum sínum…

Hvernig stendur á því að það er erfiðara að ná markmiðum sem maður setur sér prívat, þá á ég við um borða hollari mat, hreyfa sig meira og sofa betur, heldur en þeim sem sett eru í vinnunni?

 

Hvernig stendur á því að það er erfiðara að setja líkamann og sálina í fyrsta sæti heldur en verkefnin sem eru á skrifborðinu?

 

Þetta hefur verið sú áskorun sem ég hef barist við frá því ég stóð upp frá skrifborðinu í vinnunni og settist við borðið mitt hér heima í alpalandi.  Að gera það að fullu starfi að takast á við sjálfa mig og verða líkamlega sterkari á eftir.  Og þá um leið fá enn meiri orku til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

 

Ég hef vanið mig á gönguferðir og hollan morgunmat.  Ég reyni að fara að sofa á skikkanlegum tíma.  Ég er komin með mjög heilsusamlegt tæki hér heim, cross trainer og reyni að nota það reglulega.  Fyrst gat ég bara ekkert, gafst upp eftir nokkrar mínútur en nú er ég komin upp í 20 mínútur og held áfram. 

 

10000 skref á dag er markmiðið, þá með því að nota tækið og ganga úti.  Það gengur upp og niður að ná því.  Gekk ekkert heima um jólin enda annað á dagskrá heldur en að hreyfa sig! 

 

En ég er ekki orðin betri en svo, að ég þarf endalaust að minna mig á að hreyfa mig.  Segja við sjálfa mig á morgnana, jú, Ólöf, morgunmatur er mikilvægur.  Nú er þó a.m.k. svo komið að ég er að verða háð græna spínatdrykknum og eplaedikið er að verða skikkanlegra, en ég á enn nokkuð í land með að tileinka mér morgunmat.  Lengst af borðaði ég ekkert á morgnanna og það tekur tíma að kenna gömlum hund að sitja.  Nú eru það 2 msk af eplaediki í vatni á fastandi maga.  Þeytingur úr spínati, grænum eplum, agúrkum og engifer og heilmikið að vatni fram að hádegi.  Svo versnar í því. Hafragrauturinn kemst ekki að enn…

 

Ég finn þó að þetta hefur allt gert mér gott og þrekið eykst dag frá degi.  Það er nefnilega ekki endalaust hægt að keyra sig áfram á viljastyrknum, sama hversu mikill hann kann að vera.

 

Ég hef eins og við öll, sett mér alls kyns markmið í lífinu og reynt að ná þeim eftir fremsta megni.  En þetta, baráttan við sjálfa mig  og vöðvana í líkamanum ætlar að verða það erfiðasta sem ég hef átt við!

 

 

Um 8370 klukkutímar eftir af árinu – nota tímann vel!

Um 8370 klukkutímar eftir af árinu – nota tímann vel!

Svona lítur dagbókin mín út núna, ansi hrein og fín. Áður var hún í miklu kaosi og stundum gleymdi ég að bóka verkefni í hana, eða setti þau á vitlausan stað og þá lenti ég í klípu. Ég hef þó aldrei verið dugleg að nota dagbók á annan hátt en að minna mig á það sem þarf að gera. Ég býst við að flestir hafi sama háttinn á, hvort það notuð er svona venjuleg dagbók eða rafræn í símanum. Ég horfi fram á árið 2014 eins og við öll og set mér markmið um hitt og þetta, hugsa betur um heilsuna, fjölskylduna, lesa og ákveða hvað ég ætla að gera næst. Og ég blaða í dagbókinni og set inn þau verkefni sem þegar eru ákveðin og þá fundi sem eru bókaðir. En það er enn ansi gott pláss.

Hvers vegna nota ég bókina bara í svona? Af hverju ekki að bæta í hana öðrum verkefnum, t.d. því að fara út að ganga kl. þetta, vera búin að lesa þessar bækur á vormánuðum, vera tilbúin með þetta verkefni á þessum degi?

Pældi í þessu í nokkra daga. Væri gaman að fá aftur “busy” dagbókina, hugsaði ég með mér. Ekki síst vegna þess að venjulega geri ég það sem mér er sagt og ef bókin segir mér að gera eitthvað, geri ég það. En ef ég sjálf ætla að gera eitthvað…svík ég það ansi oft og tek það fram yfir sem aðrir segja mér að gera.

En það er hængur á þessu öllu. Markmiðin fyrir árið 2014 má skrifa upp í stílabókina mína sem ég hef alltaf með mér og sting inn alls konar hlutum sem ég sé, póstkortum, miðum, ljósmyndum og svo pára ég hitt og þetta sem mér dettur í hug. Ég þarf ekki þessa bók í það. Og svo auðvitað aðalatriðið, er það markmið í sjálfu sér að vera með útkrotaða dagskrá? Er hægt að leggja það til hliðar í bili og hugsa eftir nýjum brautum? Að það eru nú um 8370 klukkustundir eftir af árinu og ég á enn fullt af lausum klukkustundum – sem ég ætla að nota vel.

Og NB, ég var ansi langt frá 10000 skrefa markinu mínu í hálkunni heima – svo það er nóg að gera í göngutúrunum á næstunni!

9 klst. 24 mín og 8276 skref.

9 klst. 24 mín og 8276 skref.

-Ertu hætt að blogga mamma?, spurði sonur minn mig í gær.
-Nei…sagði ég…
-Þú hefur ekkert skrifað mjög lengi.
-Já…lífið er svo hversdagslegt hjá mér þessa dagana…
-Af hverju skrifarðu ekki um pólitík, þú ert alltaf að tala um hana?

Einhvern veginn svona var samtalið milli okkar mæðgina í gær. Sannleikurinn er sá að ég hef ætlað að skrifa eitthvað mjög lengi, af því að ég ætlaði þessari síðu að vera vettvangur fyrir mig að skrifa einmitt um þetta hversdagslega og hvað það þýðir að taka sig upp, hætta annasömu starfi og finna fjölina á ný. Svo varð ég aðeins leið á sjálfri mér í því og hlífði síðunni minni við þeim fábreytileika.

Ég ætla að herða mig. Ætla þó ekki að tala um pólitík – ekki strax a.m.k. heldur að halda mér við hversdagsleikann – og jú, ætla að nota síðuna mína til að halda mér aðeins við efnið.

Ég hef nefnilega verið að taka mig aðeins í gegn. Það hefur aðallega falist í því að hreyfa mig meira og markvissara. Í fyrir ári síðan greindist ég með hryggikt sem er gigtarsjúkdómur sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum líka í útliðum. Ég hef verið bakveik frá því að ég var unglingur en aldrei fannst hvað var að. Svo var það ekki fyrr en í fyrra þegar hnéð á mér bólgnaði hressilega upp, að orsök alls þessa fannst. Mér finnst sérstaklega fyndið að þessi sjúkdómur herjar miklu frekar á karla en konur!

Ég tek lyf við þessari óáran en til viðbótar er nauðsynlegt fyrir mig að hreyfa mig reglulega sem er nokkuð sem ég hef aldrei gert að neinu viti og lifa sæmilega reglulegu lífi. Kannski hefur það að hluta til verið vegna þess að ég man varla eftir degi frá því ég komst til vits og ára að ég fann ekki til einhvers staðar í líkamanum. Ég hef sett mér það markmið að ganga 10 þúsund skref að meðaltali á dag og sofa átta klst. Göngur er mjög góð alhliða hreyfing, ekki satt? Og góð leið til að kynnast nýju heimkynnum mínum, sem ekki veitir af. Svo er á stefnuskránni að bæta liðkandi hreyfingu við….sjáum hvernig úr því rætist. 10 þúsund skref er nokkuð metnaðarfullt markmið, tæpir 10 km. en þýðir nokkuð annað? Ef mér tekst að komast nálægt því er það talin mjög góð hreyfing eftir því sem ég kemst næst. Svefninn er minna mál fyrir mig, enda hef ég alltaf sofið lengi, og fast hef ég lengst af haldið.

Til að mæla þessi herlegheit var haldið af stað, fótgangandi, og keypt armband, UP band sem ég geng nú með alla daga. Það er hægt að forrita það með alls kyns upplýsingum, bæði um svefn og hreyfinu, en það er líka hægt að fylgjast með mataræðinu. Ég ákvað að sleppa því, a.m.k. í bili. Mér tekst alls ekki alltaf að komast upp í 10 þúsund skref og stundum er ég nokkuð frá því, en það rekur mig þó áfram að sjá hvernig gengur með svona reglubundnum hætti. Þá hefur það komið mér á óvart, að nánast hverja einustu nótt virðist ég sofa laust og djúpi svefninn alltaf mun minni. Mig grunar að bandið mæli svefninn eitthvað vitlaust!

Tölurnar mínar í gær voru svona:

Svefn: 9 klst. og 24 mín., þar af léttur svefn 5 klst. og 36 mín. – svaf of lengi!
Gangur: 8276 skref.

Ég er að reyna að elska stigann…

Frábær ferð til Ekvador og Costa Rica að baki Við stoppuðum einn dag á Íslandi og svo rakleiðis til Genfar. Við vorum klifjuð farangri að heiman enda frúin loksins formlega að flytja út. Þetta hefur svo sannarlega tekið tímann sinn. Við flugum í tvennu lagi, við kvenfólkið í gegnum Amsterdam, en hann um París. Og auðvitað vantaði eina tösku, skórnir mínir ákváðu að stoppa aðeins í París…en allt kom þetta á endanum. Það er vor í lofti hér og skammt í að hitinn hækki og sumarið láti á sér klæra. Öll borð og stólar komin út á torgum bæjarins og bíða eftir sumrinu. Sé á fréttum að það lætur á sér standa heima á Íslandi en það breytist vonandi brátt með hækkandi sól. Nú er að setja sér ný markmið. Ég þarf að taka mig hressilega taki eftir óreglulegan vinnutíma í mörg ár…og auðvitað fyrir manneskju sem vill frekar sitja og lesa, lét ég það þvælast verulega fyrir mér að fara í sund hvað þá að mæta í ræktina. Ég skal bara segja þetta eins og það er, það er átak fyrir mig að byrja. Og í stíl við annað byrjaði ég á að lesa um alls konar líkamsrækt, skoðaði vefsíður og pantaði mér bækur um jóga, pílates og hvað eina. En hélt áfram með ósiðina, tók bílinn í stað þess að ganga og núna strætó, beygi mig vitlaust og sit í keng. Og auðvitað tek ég lyftina ef hún er í boði. Ég var með skrifstofu á 4. hæð í Alþingi og tók eiginlega alltaf lyftuna. Það var helst ef einhver félagi minn var með mér að ég druslaðist eftir honum niður og upp stigann. Nú bý ég á 6. hæð og þessi fína lyftan niðri. Ég tek hana….og þó…ég skal upp stigann. Hef þegar farið nokkrar ferðir upp stigann hér. Hélt ég mundi deyja á 5. hæð. Fæturnir sögðu nei. Hvað ertu að gera hér gamla? Af hverju notarðu ekki nútímaþægindi og lætur okkur í friði. Ég hata stigann. Mér er hins vegar sagt að ég eigi að elska hann. Einmitt. Það eru alls konar aðrir hlutir sem ég elska framar bévítans stiganum sem drepur mig á leiðinni upp á 5. og ég þarf upp á 6. Hvað erum við að gera svona hátt uppi? Það er ekki nóg með að maður búi á sprengjusvæði lestarstöðvabyggingar heldur þarf maður nú að drattast upp stigann á 6. hæð! Þetta skal lagast. Ég held áfram að þjösnast upp stigann og einn daginn verður þetta ábyggilega allt miklu betra. Læt ykkur vita hvernig gengur…. Ég fer ekki upp stigann þegar ég er með rauðu rúllutöskuna mína, ekki enn að minnsta kosti, og ég er ekki nálægt því að elska stigann…enn.