Er komin á nýtt sprengjusvæði…

Ekki gat ég ímyndað mér að sprengjusvæðið elti mig burt úr Genf. En ótrúlegir hlutir gerast. Í gær keyrðum við af stað áleiðis frá Avenue de Champel í fínasta veðri. Áfangastaðurinn ítalska ríverían. Eða öllu heldur, höfuðstaðurinn Genúa. Ég lét ekki mitt eftir liggja og lét bílstjórann ekki einan um stjórnina enda lætur mér betur að keyra bílinn….finnst mér. Undir kvöld blasti Genúa við, falleg í kvöldroðanum. Ég hafði einsett mér að finna hagstæða gistingu í gamla bænum og taldi mig hafa fundið spennandi gistingu í Palazzo Cicolo. Og svo varð raunin. 200 evrur nóttin fyrir 5 er vel sloppið! Þetta er yndislegt “húsahótel” þar sem er að finna íbúðir og herbergi í nokkrum húsaþyrpingum. Í þessu tilviki eru íbúðirnar í gömlum palazzo í frábærum hluta Genóa. Það gæti ekki verið yndislegra. Okkar íbúð er í raun þrjár stofur, hver inn af annarri, sú fremsta er hugsuð sem dagstofa, svo koma tvö herbergi hvert innan af öðru. Við erum í öðru og stelpurnar í hinu. Fremst í íbúðinni er brattur stigi niður og þar er sturtan. Hátt til lofts, vítt til veggja. Húsagarður innaf. Kaffihús fyrir utan. En bíddu við….það standa framkvæmdir fyrir dyrum í Genúa, þeim finnst kominn tími til að endurnýja lagnirnar….fyrir utan herbergisgluggann hjá mér 9. maí er í þeirra huga gráupplögð byrjun….ég brosi út í annað og hlakka til að ganga með fram strandlengjunni á morgun. Manneskja sem kemur af sprengjusvæði lætur ekki slá sig út af laginu. Læt fylgja með hér mynd af bakgarðinum!

20130509-224011.jpg

Maður getur hafið feril sem sjónvarpskokkur á ýmsan hátt…

Við skoðuðum borga Quito sem er höfuðborg Ekvador á ferðalagi okkar um daginn.  Hún er hæsta höfuðborg í heimi, í 2800 metra hæð.  Ég var aðeins vör með það fyrstu dagana í borginni – aðeins móð og þreytt.  Quito er á heimsminjaskrá, fór þar inn fyrst borga ásamt Kraká, árið 1978. Gamli bærinn þykir afar vel varðveittur og ég naut þess mjög að ganga um þröngar götur og torg og dást að þessu samblandi Inka og spænskra róta. Við tókum margar myndir af borginni og ekki síður mannlífinu þar. Margt kom manni spánskt fyrir sjónir og alls konar sögur urðu til í kollinum á mér þegar ég skoðaði það sem fyrir augu bar.  Þessi maður fangaði athygli mína lengi og við tókum margar myndir af honum og fylgdumst með honum af áhuga.

Hvað er að verða eitt vinsælasta efni í sjónvarpi?  Jói Fel allra landa, Jamie Oliver, Barefood Contessa, alls konar keppni í matgæðinga og amatöra, meira að segja spennuþættir um matreiðslu…yfirleitt eru þessir þættir teknir upp í fínum stúdíum og með lúxusgræjum.  Við þetta bætist svo áhuginn á heilsudrykkjum, heilu vefsíðurnar eru um holla drykki, reglulega les maður um uppáhaldsheilsudrykk þessa og hins í blöðunum…og maður smitast auðvitað sjálfur…fæ mér minn græna drykk á hverjum morgni!

Þessi maður hafði heyrt um þetta eins og aðrir.  Ákvað að skella sér með í hæpið og sýna borgarbúum hvernig ætti að gera almennilegan grænan drykk í sjónvarpinu.  Eða stendur ekki að þarna fari fram sala í sjónvarpi?

Reyndar var hann ekkert í stúdíoi heldur í glugganum á fornfálegri útvarpsbúð og hélt magnaða sýningu með hljóðnema og allt saman um hvernig ætti að gera þetta.  Stór hópur fylgdist með af áhuga.  Þar á meðal ég sem gat ekki slitið mig frá þessu sjónarspili.

Ég get ekki endurtekið öll þau ósköp hann setti í litla blandarann sinn en þar var ekkert óviðkomandi og hann hélt miklar ræður um hollustu hvers hráefni fyrir sig.  Ég var orðin viss um að það væri ógerningur fyrir hann að fá drykkjarhæfan safa út úr þessu og beið eftir því að blandarinn spryngi hreinlega í loft upp!

En það gerðist ekki. Þetta var greinilega maður sem kunni að bjarga sér og ætlaði sér stóra hluti í sjónvarpinu.

Við gengum brosandi á braut.

ImageImage

Himnesk Mið-Ameríka!

Ísland, Bandaríkin, Ekvador, Perú, El Salvador, Costa Rica….það er þegar komið efni í heila Tinnabók og margar aðrar ferðasögur og ýmislegt skemmtilegt á ég núna í pokahorninu.

…ég er á faraldsfæti – kvaddi varla nokkurn mann og eflaust eru margir heima undrandi á því að hafa ekki a.m.k. fengið eitt stutt símtal frá konunni áður en hún fór í margra landa sýn. En svona er þetta – tíminn flýgur áfram og þá er ekkert annað að gera en að fljúga með.

Ég tók ákvörðun um að skrifa ekki á bloggið mitt þessa síðustu vikur í þinginu – það er hreint út sagt svo sérstakur tími og alls ekki í stíl við annað sem mig langar að setja á síðuna mína.

Núna er það Kyrrahafið – þvílík fegurð og paradís – maður í hitnar í gegn.

Þar til næst…adios!