9 klst. 24 mín og 8276 skref.

9 klst. 24 mín og 8276 skref.

-Ertu hætt að blogga mamma?, spurði sonur minn mig í gær.
-Nei…sagði ég…
-Þú hefur ekkert skrifað mjög lengi.
-Já…lífið er svo hversdagslegt hjá mér þessa dagana…
-Af hverju skrifarðu ekki um pólitík, þú ert alltaf að tala um hana?

Einhvern veginn svona var samtalið milli okkar mæðgina í gær. Sannleikurinn er sá að ég hef ætlað að skrifa eitthvað mjög lengi, af því að ég ætlaði þessari síðu að vera vettvangur fyrir mig að skrifa einmitt um þetta hversdagslega og hvað það þýðir að taka sig upp, hætta annasömu starfi og finna fjölina á ný. Svo varð ég aðeins leið á sjálfri mér í því og hlífði síðunni minni við þeim fábreytileika.

Ég ætla að herða mig. Ætla þó ekki að tala um pólitík – ekki strax a.m.k. heldur að halda mér við hversdagsleikann – og jú, ætla að nota síðuna mína til að halda mér aðeins við efnið.

Ég hef nefnilega verið að taka mig aðeins í gegn. Það hefur aðallega falist í því að hreyfa mig meira og markvissara. Í fyrir ári síðan greindist ég með hryggikt sem er gigtarsjúkdómur sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum líka í útliðum. Ég hef verið bakveik frá því að ég var unglingur en aldrei fannst hvað var að. Svo var það ekki fyrr en í fyrra þegar hnéð á mér bólgnaði hressilega upp, að orsök alls þessa fannst. Mér finnst sérstaklega fyndið að þessi sjúkdómur herjar miklu frekar á karla en konur!

Ég tek lyf við þessari óáran en til viðbótar er nauðsynlegt fyrir mig að hreyfa mig reglulega sem er nokkuð sem ég hef aldrei gert að neinu viti og lifa sæmilega reglulegu lífi. Kannski hefur það að hluta til verið vegna þess að ég man varla eftir degi frá því ég komst til vits og ára að ég fann ekki til einhvers staðar í líkamanum. Ég hef sett mér það markmið að ganga 10 þúsund skref að meðaltali á dag og sofa átta klst. Göngur er mjög góð alhliða hreyfing, ekki satt? Og góð leið til að kynnast nýju heimkynnum mínum, sem ekki veitir af. Svo er á stefnuskránni að bæta liðkandi hreyfingu við….sjáum hvernig úr því rætist. 10 þúsund skref er nokkuð metnaðarfullt markmið, tæpir 10 km. en þýðir nokkuð annað? Ef mér tekst að komast nálægt því er það talin mjög góð hreyfing eftir því sem ég kemst næst. Svefninn er minna mál fyrir mig, enda hef ég alltaf sofið lengi, og fast hef ég lengst af haldið.

Til að mæla þessi herlegheit var haldið af stað, fótgangandi, og keypt armband, UP band sem ég geng nú með alla daga. Það er hægt að forrita það með alls kyns upplýsingum, bæði um svefn og hreyfinu, en það er líka hægt að fylgjast með mataræðinu. Ég ákvað að sleppa því, a.m.k. í bili. Mér tekst alls ekki alltaf að komast upp í 10 þúsund skref og stundum er ég nokkuð frá því, en það rekur mig þó áfram að sjá hvernig gengur með svona reglubundnum hætti. Þá hefur það komið mér á óvart, að nánast hverja einustu nótt virðist ég sofa laust og djúpi svefninn alltaf mun minni. Mig grunar að bandið mæli svefninn eitthvað vitlaust!

Tölurnar mínar í gær voru svona:

Svefn: 9 klst. og 24 mín., þar af léttur svefn 5 klst. og 36 mín. – svaf of lengi!
Gangur: 8276 skref.

Heilinn eins og skrældur laukur…

Mér finnst sem ég hafi verið í hýði undanfarin mánuð.  Það hefur fátt komist að hjá mér annað en að vakna í býtið og mæta í skólann.  Þar er ég svo allan daginn með krökkum sem flest eru jafngömul eða yngri en elstu börnin mín.  Og verið er að troða í okkur frönsku.  Við byrjuðum alveg á byrjuninni og nú erum við farin að geta myndað setningar.  Þetta er gaman en ég verð að viðurkenna að það tekur á.   Mér finnst ég stundum ægilega treg og var á tímabili hrædd um að ég það væri farið að slá í hausinn á mér, ég væri kannski orðin of gömul til að læra nýtt mál….?  Sem betur fer ýtti ég þeim hugsunum frá mér og bekkjarsystkini mín sögðu mér hughreystandi að þau væru í sömu sporum og ég.  En, ég hef ekki haft nokkra orku í að sinna skrifum á heimasíðu eða koma öðrum hlutum í verk. 

 

Það var eiginlega fyrst í dag, eftir skóla, að ég nuddaði saman höndunum og fann að skólinn er að verða að rútinu og ég get bætt öðru við og aðeins lagað samviskubitið á curiosus.

 

Núna erum við sem sagt að klára fjórðu viku, komin í aðra  lotu af þremur.   Mér finnst framburðurinn enn erfiðastur, ég er auðvitað með lítinn orðaforða og það tekur langan tíma ná sæmilegum árangri þar.  Málfræðin er utanbókarlærdómur enn sem komið er a.m.k. og með því að vera dugleg að læra kemur hún.  En framburðurinn, oh, mon dieu!  Annað hvort er ég að bisa fremst í munninum eða alveg ofan í koki.  Ég hlusta á Edith Piaf og franska kaffihúsamúsík í gríð og erg…og vona það besta.

 

Ég útskrifast vonandi úr sumarskólanum seinni partinn í ágúst, núna óttast ég mest að við verðum sett í próf til að athuga hvernig sumarið hafi nýst í náminu og útkoman verði einhver hryllingur. Spurning hvað verður gert við svoleiðis fólk?

Ég held í vonina og trúi því að í haust geti ég lesið Tinna á frönsku…. 

 

Áfram gakk, un, deux, trois…

Ég gleymi aldrei hvað mér þótti merkilegt að byrja í skóla. Ég hlakkaði mikið til. Eldri systurnar voru svo forframaðar að þær kunnu allt, fannst mér. Litla systir var þreytandi, bítandi smákrakki sem ég vildi sem fyrst komast frá – fyrsti bekkur í Laugarnesskóla þýddi að ég var á leiðinni í fullorðinna manna tölu. Mér fannst skólinn óskaplega stór og tilkomumikill. Uppstoppaðir fuglar á neðstu hæðinni og málverk eftir Jóhann Briem á öllum hæðum, ekki amalegt það. Einu vonbrigðin, og þau voru mikil, voru að besta vinkona mín var mér ekki samferða í skólann. Ég var fyrir hádegi og hún eftir hádegi. Það þótti mér sárt enda mátti ég vart af henni sjá.

Á hverjum einasta degi beið ég eftir henni úti á horni. Mig minnir að hún hafi verið búin um þrjú leytið og eflaust hefur hún verið hálftíma á leiðinni heim og ég beið óþreyjufull og spennt. Eflaust hefur minnstur tími hafi farið í að tala um hvað gerðist í skólanum, athyglin beindist fljótt að leikjum dagsins. Við tókum upp á hinu og þessu eins og gengur – en aðalatriðið í okkar huga var að ná systkinum okkar í uppátækjum…en engum sögum fer að því hvort það hafi tekist. Við vinkonurnar settumst svo hlið við hlið í 7 ár bekk og sátum saman þar til í lok 3ja bekkjar í MR. Ég hafði mismikinn áhuga á námsefninu en hvergi annars staðar vildi ég sitja.

Í gær settist ég aftur á skólabekk eftir nokkurt hlé. Mér leið pínulítið eins og þegar ég fór í 6 ára bekk í Laugarnesskóla. Ég hef hlakkað til mánuðum saman. Var með tilbúna skólatösku, penna og stílabók, orðabókin á sínum stað og frönskunámið að hefjast. Ég var mætt klukkan 9 á mánudaginn ásamt 100 öðrum. Flestir voru yngri en ég en nokkrir eldri…konur og karlar…alls staðar að úr heiminum. Mér fannst ég þó heyra spænsku hvað mest. Fyrst fengum við kynningu á því sem framundan er auk þess sem það var myndarleg svissnesk landkynning. Og svo, alveg mér að óvörum, var tilkynnt að framundan væri stöðupróf! Hmhm. Ég veit ekki einu sinni hvernig maður segir próf á frönsku, hvað þá meira. Svitinn spratt fram á enni mér….ekki var þetta gæfuleg byrjun. Þetta lagaðist aðeins, allt í lagi að geta ekkert, allt í lagi að skrifa bara nafnið sitt…þegar ég var í skóla var stundum sagt að hægt væri að fá 1 fyrir að skrifa nafnið, ekki beint í samræmi við þær væntingar sem ég gerði til mín í frönskuskólanum! En, það var ekkert annað að gera en að setja undir sig hausinn og taka við sem að höndum bæri. Ég tók prófið og gat auðvitað lítið í því, skrifaði nafnið mitt og grautaði fram og aftur í því þar til ég stóð upp og fékk mér kaffi frammi með fleiri málleysingjum.

Okkur var sagt að koma daginn eftir og þá væri búið að stilla okkur upp í hópa og alvara lífsins gæti hafist. Og það stóð heima. Ég er í hóp með 7 öðrum sem ekkert kunna nema að krota nafnið sitt. Yndisleg kona sér um að berja í okkur frönskuna og eftir 2 heila daga erum við enn ruglaðri en við vorum fyrir. “Verið róleg” segir hún, “það tekur langan tíma að læra tungumál”. Það er vissulega rétt og ég býst við að ekkert okkar hafi haldið að þetta gengi hratt fyrir sig. Samt er maður sár við sjálfan sig hvað það þarf að stagla sama hlutinn oft – meira að segja að fara með stafrófið tekur á. Við horfum biðjandi á kennarann og hvort annað og vonum svo innilega að eftir nokkrar vikur gætum við sagt nokkrar setningar skammlaust. “Munið taktinn”, segir hún, “hvert tungumál hefur sinn takt, hlustið á frönskuna, hlustið á taktinn, un, deux, trois….”

Eitthvað höfum svo við frétt af því að ef við mætum vel og erum dugleg að læra heima þá fáum við kannski verðlaun…við keppumst öll að því…skiptir engu hvort þú ert sex eða 46….keppnisskapið víkur ekki…

Þetta eru Harry Potter tré!

Vissuð þið að það eru Harry Potter tré í Genf?  Í virðulegri borg, í friðsömu landi, þar sem Rauði krossinn býr og Sameinuðu þjóðirnar reka mikilvæga starfsemi.  Í fallegri lítilli borg – sem eins og aðrar borgir í Sviss er heil og laus við áverka stríðsreksturs eru kynleg tré eftir breiðgötum og almenningsgörðum.  Við komum hingað fyrst 3. janúar 2012.  Við eiginlega hentumst hingað öll sex með jólasteikina enn mallandi í maganum.  Hann var nýbúinn að fá starfið og honum lá á.  Við vildum ekki að hann færi með vitið úr húsinu og fylgdum honum á leiðarenda.  Það var ískalt og Genfarvatnið heldur hráslagalegt að sjá.   Ég veit eiginlega ekki hvað okkur fannst um þetta allt saman fyrst.  Við hin höfðum aldrei komið til Genfar og höfðum ekki haft neinn tíma til að kynna okkur eitt né neitt.  Hvert okkar fann sér sitt uppáhalds…Dóra vildi ekkert frekar en að ferðast í sporvagni allan daginn, ég dáðist að gamla bænum og þau hin horfðu til fjalla og sáu skíðin í hyllingum.

En öllum sáum við tréin.  Furðuverkið.  Í janúar voru þau auðvitað allsber, nánast hvítstofna eða a.m.k. hvítflekkótt og greinarnar stóðu eins og hnefar út úr stofnunum.  Framan á þeim óx eitthvað sem líktist nálum eða títuprjónum úr fjarðlegt.  Á sumum minnti það á ótal fingur sem stóðu í allar áttir.   Við vissum ekki hvort þau voru falleg eða ljót.  Okkur fannst þau fyrst og fremst vera af öðrum heimi og svo heimarík að þau hlytu að hafa verið þarna afar lengi og yrðu örugglega miklu lengur en við öll hin.

photo-6

Þetta eru Harry Potter tré – hrópaði einhver.  Og þá var það ákveðið.  Fyrir þá sem vilja vera í raunveruleikanum má víst líka kalla þau platanus en það er óþarfi.  Það hljóta allir að sjá að þetta eru töfratré.  Ég hef fylgst með þeim síðan – hvernig þau laga sig að hverri árstíð og hvernig innfæddir hér strjúka þeim og klippa.  Í vorin eru “fingurnir” eða “nálarnar” klipptar af svo eftir standa hnefarnir út í loftið.  Það er heilmikil vinna að fara um alla borg og klippa en allt er þetta gert samviskusamlega enda augljóst að um heldri borgara er að ræða.  Þegar voraði fylgdist ég sérstaklega með.  Ég átti bágt með að ímynda mér að þessi furðuverk gætu blóstrað almennilega þegar búið var að klippa af þeim allt saman.  Þau flýta sér ekkert.  Haga sér eins og birkið heima og láta bíða eftir sér.  Fyrst koma óreglulegar grænar flygsur hér og þar – ekki burðugt þótt mér og leist síst á blikuna.  En hægt og hljótt klæðast þau græna kuflinum sínum og standa núna iðagræn og falleg – töfrum líkust og minna mig á álfa og huldufólk.  Og auðvitað ævintýrabækur – Harry Potter býr líka hér.

photo-2

Það munar um einn.

Image

 

Ég fór í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Genf á föstudaginn.  Erindið var áhugavert, kynning á bók um flóttamannabúðirnar Camp Ashraf í Írak.  Bókin heitir the Untold Story of Camp Ashraf og er höfundur bókarinnar  fyrrum yfirmaður SÞ í Írak, Tahar Boumedra.  Í bókinni er sett fram mikil gagnrýni á SÞ og alþjóðasamfélagið fyrir að láta ofbeldisverk á óbreyttum borgurum líðast en eins og kunnugt er voru búðirnar stofnaðar í því skyni að veita íröskum flóttamönnum skjól.  Því miður virðast ofbeldisverk á þeim sem í þarna búa engan endi taka.

Þegar maður situr á svona fundi og er minntur á hve heimurinn getur verið óskaplega grimmur, vaknar alltaf spurningin, hvað get ég gert?  Hverju get ég breytt?  Hvað getum við, sem sitjum hér og hlustum gert betur? Hjálpað?  Hvað gerum við þegar við stöndum upp og förum út?  Förum við á annan fund og hlustum? Eða taka önnur verkefni við?

Munar um einn?  Í litlum samfélögum er í raun svo auðvelt að hafa áhrif, þar munar svo óskaplega mikið um hverja einustu manneskju.  Það rann ekki upp fyrir mér almennilega fyrr en við fluttum til Egilsstaða í fremur fámennt samfélag hversu miklu munar um hvern og einn.  Þar spratt fram hjá mér þessi þörf að leggja mitt af mörkum til samfélagsins, eitthvað sem eflaust hefur blundað í mér alla ævi en fann farveg í því góða samfélagi.  Lítil samfélög þurfa á öllu sínu að halda og fólkið veit það.  Það sama má í raun segja um Ísland.  Við þurfum á öllu okkar að halda, við verðum  að mennta fólkið okkar og rækta í börnunum okkar skilning á því að hver og einn skiptir máli, hver og einn er hlekkur í því að við getum áfram dafnað í okkar landi.  Um leið verðum við að gera okkur grein fyrir að við erum hluti af stórum heimi og þar getum við líka haft áhrif – hvert og eitt.

Munar líka um einn í Sýrlandi og Írak? Bangladesh?  Í stríðshrjáðum löndum sem eru að sligast undan oki harðstjórnar og mannvonsku?  Í fjölmennum löndum þar sem fjölgunin er svo hröð að manni finnst nánast eins og mannslífið sé vart virt?

Hvernig er þessi eini sem byrjar á því að tala við næsta um það verði að berjast gegn ógnarvaldinu?  Hvers konar kjark hefur hann til að bera?  Litla stúlkan í Pakistan.  Malala Yousufzai byrjaði að skrifa blogg 11 ára gömul þar sem hún lýsti því að búa undir ofríki Talibana.  Þeir skutu hana 15 ára gamla.  Það er ekkert annað en kraftaverk að hún skuli hafa lifað það af og nú býr hún í Englandi og heldur áfram  andófi sínu.  Hvers konar kjarkur er þetta í ungri stúlku.  Það eru sem betur fer mörg dæmi um óbilandi hetjur.  Aung San Suu Kyi í Burma er kannski holdgervingur þessa fólks og lifandi sönnun þess hve miklu munar um einn.

Þessar hugsanir fóru í gegnum huga minn meðan ég sat á þessum fundi, hlustaði á fyrirlesarana og horfði á fólkið sem þarna var.  Flestir voru sennilega á vegum alþjóðasamtaka ýmiss konar sem starfa að mannúðarmálum í heiminum.  Fólk sem hugsar allan daginn um hvernig bæta megi líf almennra borgara í stríðshrjáðum og fátækum löndum.  Samtök sem hjálpa þeim sem rísa upp og berjast gegn óréttlæti og mannvonsku.   Hjálpa þessum eina sem einhvers staðar fór að tala við annan og smátt og smátt varð til hreyfing  sem á þá ósk heitasta að fá að búa í landi þar sem hver og einn fær tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi.

Ég fór heim með bókina.

Að rækta krydd og vökva nágrannana

Ég er ekki með græna fingur, ekki ennþá. Engar frægðarsögur eru til af mér í garðinum og oft hefur mér fundist blómstrandi arfi ljómandi fallegur öðrum til mikillar armæðu. Fyrst eftir að við fengum okkar eigin garð leysti ég þetta með því að nánast taka burtu garðinn og hafa bara iðagrænt gras og stól á palli. En smátt og smátt hef ég fundið hjá mér þörf á að rækta eitthvað sjálf. Er það aldurinn? Er það af því að það ég er hætt að eiga börn? Er það af því að það er eitthvað svo fallegt við að sjá agnarlítinn sprota vaxa og mynda blóm? Er það umhverfið? Að allir eru farnir að rækta krydd, kartöflur og túlípana? Áhrifagjörn?

Ég veit það ekki. En þetta gerðist svona. Í bókabúðinni endaði ég iðulega í náttúrudeildinni að skoða bækur um að rækta garða og blóm í gluggum og svölum. Ég fór að lesa um fólk með græna fingur. Bókin hennar Hildar Hákonardóttur varð fyrir mig eins og þerapía, róandi lesning þótt ég skildi minnst af því sem hún var að tala um. Ég gerðist áskrifandi af riti garðyrkjufélagsins og fór að lesa það mér til ánægju fyrir svefninn. Maðurinn minn skildi ekkert. Ekki í fyrsta sinn sem hann horfir á þessa og veltir eflaust fyrir sér hve margar hliðar séu til á henni.

Og nú í vor ákvað ég að láta til skarar skríða og kaupa kryddjurtir í pottum og setja á svalirnar mínar á sprengjusvæðinu. Hér er fólk með blómapotta utan og innan á svölum og þetta er svo óstjórnlega búsældarlegt að ég verð að taka þátt.

Drap fyrstu tvær tilraunir. Bæði kryddin og hortenseurnar sem fóru allt of fljótt út og króknuðu. Drekkti sumum og svelti aðrar.

Byrjaði aftur. Ég ákvað að kaupa ekki hortenseur (hvernig á eiginlega að skrifa þetta?) en hélt mér við kryddin og blóm sem heita eitthvað óskiljanlegt. Þetta hangir enn uppi, ég held meira að segja að flest muni lifa af. Ég vökva og vökva og bæti blómalýsi út í vatnið.

En auðvitað gat þetta ekki gengið svona snuðrulaust fyrir sig að ég fengi að vera í friði hér á 6. hæð með blómin mín. Um daginn lá nefnilega umslag við útidyrnar. Konan á neðri hæðinni. Hún segir að ég sé alltaf að hella vatni yfir eldhúsgluggann hennar og biður mig vinsamlega um að hætta því. Ég fékk í magann. Mér finnst mjög óþægilegt að það sé kvartað undan mér og er eins og vinir mínir vita hrædd við skammir og yfirvald, dauðhrædd við lögguna. Ég fór strax að eldhúsglugganum og teygði mig langt út. Mínar rannsóknir sýna að konan á neðri hæðinni er sérstaklega viðkvæm ef ég hef með þessum dropum mínum truflað hjá henni eldhúsgluggann. En…auðvitað skrifaði ég henni strax til baka og lofaði bót og betrun. Hætti samstundis með blómin þar og fór með allan garðinn út á stofuvalirnar. Þar hef ég hafið mikla starfsemi við vökvun og alls kyns.

Í morgun vökvaði ég sérlega vel. Fór nákvæmlega yfir hvern pott og hellti vel af vatni. Í gólfi svalanna er sérstakur stútur til að allt vatn renni haganlega þar út svo ég taldi mig aldeilis í góðum málum. Til öryggis teygði ég mig út yfir svalirnar og leit niður. Svalirnar á 5 hæð eru bónaðar og slípaðar og þar eru tveir óþolandi fallegir blómapottar. Ég brosti. Þetta verður í lagi.

Þegar ég hafði gert mig til leit ég aftur út á svalir og niður. Mér til mikillar skelfingar sá ég að á svölum 5 hæðar er blautt svæði þar sem vatn að ofan hefur sullast inn. Hjálpi mér. Ég á von á öðru bréfi.

Ég vona að ég sleppi þó. Er á leiðinni út í búð að kaupa vaskaföt. Framvegis verður gerð framleiðslulína vökvunar í vaskafötum og þeim hellt í eldhúsvaskinn….fyrir tíu á kvöldin.

Ég sé fram á að vera mjög upptekin við þetta á næstunni. Spurning hverju fleiru ég get komið í verk.

Er komin á nýtt sprengjusvæði…

Ekki gat ég ímyndað mér að sprengjusvæðið elti mig burt úr Genf. En ótrúlegir hlutir gerast. Í gær keyrðum við af stað áleiðis frá Avenue de Champel í fínasta veðri. Áfangastaðurinn ítalska ríverían. Eða öllu heldur, höfuðstaðurinn Genúa. Ég lét ekki mitt eftir liggja og lét bílstjórann ekki einan um stjórnina enda lætur mér betur að keyra bílinn….finnst mér. Undir kvöld blasti Genúa við, falleg í kvöldroðanum. Ég hafði einsett mér að finna hagstæða gistingu í gamla bænum og taldi mig hafa fundið spennandi gistingu í Palazzo Cicolo. Og svo varð raunin. 200 evrur nóttin fyrir 5 er vel sloppið! Þetta er yndislegt “húsahótel” þar sem er að finna íbúðir og herbergi í nokkrum húsaþyrpingum. Í þessu tilviki eru íbúðirnar í gömlum palazzo í frábærum hluta Genóa. Það gæti ekki verið yndislegra. Okkar íbúð er í raun þrjár stofur, hver inn af annarri, sú fremsta er hugsuð sem dagstofa, svo koma tvö herbergi hvert innan af öðru. Við erum í öðru og stelpurnar í hinu. Fremst í íbúðinni er brattur stigi niður og þar er sturtan. Hátt til lofts, vítt til veggja. Húsagarður innaf. Kaffihús fyrir utan. En bíddu við….það standa framkvæmdir fyrir dyrum í Genúa, þeim finnst kominn tími til að endurnýja lagnirnar….fyrir utan herbergisgluggann hjá mér 9. maí er í þeirra huga gráupplögð byrjun….ég brosi út í annað og hlakka til að ganga með fram strandlengjunni á morgun. Manneskja sem kemur af sprengjusvæði lætur ekki slá sig út af laginu. Læt fylgja með hér mynd af bakgarðinum!

20130509-224011.jpg

Hverjir stjórna landinu – hér eða þar?

Ég hef ekki hugmynd um hvað borgarstjórinn í Genf heitir. Raunar veit ég ekki almennilega hvað þeir heita sem stjórna landinu. Um daginn var mikil mótmælaganga í bænum – út af hverju? – ég veit það ekki. Við litum hvort á annað þegar við heyrðum óminn af hrópum og köllum í áttina til okkar. Okkur datt ýmislegt í hug sem hugsanleg efni til mótmæla en vorum hvergi nær. Nokkrum dögum síðar þegar við gengum um miðbæinn datt okkur helst í hug að mótmælin hefðu að gera með framkvæmdir við hús og torg þar. Þeir hafa nefnilega verið allt of duglegir við það í Genf að rífa gömul hús og byggja önnur, því miður ljót, í staðinn. Ég er aðdáandi góðra arkitekta og vil sjá nýtt þrífast með gömlu, en þá þarf það líka að vera gott að standast samanburð við umhverfið. Ef menn vilja bara byggja ljót hús þar sem hægt er að troða sem flestum inn – ættu þeir kannski að líta á fasatómí tískuna í Paris. Halda götumyndinni en endurnýja allt að innan.

En þetta var útúrdúr. Ég veit um einn og einn sem mundi nú halda því fram að ég ætti að hætta að tala um það sem ég veit ekkert um og tala um eitthvað sem ég hefði a.m.k. lágmarksvit á.

Og miðað við óþrjótandi áhuga að fólki og umhverfi ætti ég nú að vera betur inni í því hverjir stjórna landinu – en ég er það ekki. Ég fylgist hins vegar með því hvernig gengur að baka á Íslandi í stjórnarmyndunarviðræðum. Hlakka til að heyra hvað kemur út úr þessum bakstri öllum saman. En lofa bót og betrun og mun nú fara rakleiðis í það að rannsaka hverjir stjórna hér í alpalandi.

Annars er það að frétta af sprengjusvæðinu að tveimur steypusílóum hefur verið bætt við. Nú er svo sannarlega hægt að tala um alvöru steypustöðvar. Og ég er komin með svissneskt ökuskírteini. Mitt fína íslenska var gert upptækt og mér skilst að sé nú á leið heim í landið fagra og mun eflaust vera geymt í góðri skúffu hjá sýslumanni þar til ég vitja þess næst!Image