Ég er kelirófa…um kossa, faðmlög og hvíta víkinga.

2014-10-01 10.55.13

Nú er brátt komið vel á þriðja mánuð frá því að líf mitt umturnaðist svo eftirminnanlega. Og fram til þessa hefur þetta gengið að óskum og mér líður bara vel. Það eru þrjár lyfjameðferðir, eða dælingar eins og ég kalla þær, að baki og þrjár eftir. Þau vandkvæði sem ég hef orðið fyrir eru þau helst að víkingarnir í hvítu blóðkornunum og blóðkornin sjálf hafa fallið um of og það hefur þýtt að ég hef nánast verið í einangrun hér í húsinu mínu í Laugardalnum.

Víkingarnir eru fyrstir á vettvang ef pest er yfirvofandi svo án þeirra er ég viðkvæm fyrir og verð að pakka mér í verndarhjúp. Ég lít á þessa árás lyfjanna sem jákvæðan hlut, lyfin eru svo sannarlega að ráðast á frumur líkamans!

Í stað þess að þeytast út um allan bæ og gæta þess að missa ekki af neinu, er ég heima. Og í stað þess að leggjast í lestur…einbeitingin ekki alveg upp á það besta…fór ég að hekla. Í stað þess að spekúlera hvað væri að frétta um víða veröld og hér heima….fór ég að hugsa um allt milli himins og jarðar öllu hversdagsamstri óviðkomandi. Í stað þess að skipuleggja lífið út í ystur æsar, læri ég að njóta.

Það sem ég geri ekki, hins vegar, er að faðmast og kyssast. Til þess eru hvítu vikingarnir og fáir og pestirnar of margar.  Mér finnst það samt eiginlega verst.  Ég er nefnilega kelirófa. Ég vil helst hlaupa upp um hálsinn á vinum mínum og kyssa þá rembingskoss þegar ég sé þá. Mér finnst gott að halda í höndina á þeim sem mér þykir vænt um. Mér finnst mannleg snert, hlý, gefandi og góð. Alltaf verið svona.

Ég finn samt hlýjuna gegnum rokið sem bylur núna á húsinu mínu, gegnum ólýsanlega strauma frá fólki allt í kringum mig, bréf kveðjur, og gegnum tæknina sem okkur finnst stundum ósköp tímafrek og þreytandi en er núna eins og lítill farvegur héðan út.

En ég hlakka til að taka utan góðan vin einhvers staðar á Laugaveginum á aðventunni…og smella honum rembingskoss.