Klisjurnar

himininn

 

Ég hef verið að hugleiða klisjur og klisjukennd orð. Mér finnst flest af því sem í huga minn kemur þessa dagana vera frekar klisjukennt, það er ekkert nýtt undir sólinni. Og þegar áföll dynja yfir færa klisjurnar gjarnan sannleikann heim. Það er líka hægt að líta á orðtök og málshætti og segja að boðskapur þeirra sé klisjukenndur. Maður er manns gaman er einn af þeim. Margar hendur vinna létt verk. Hver er sinnar gæfu smiður. Að láta hvern dag nægja sína þjáningu. Í skáldskap finnum við líka alls kyns sannleik, Einar Benediktsson minnti okkur á að aðgát skuli höfð í nærveru sálar og Jónas minn orti varla nokkurn skapaðan hlut án þess að það snerti við manni.   Hér er partur úr broti sem ég held upp á.

 

….

Augun raunar eru þín

upplitsbjarta stúlkan mín

hitagler ef hlýna

 

sólargeislum innan að

ég er búin að reyna það

safna þau, svo brímabað

brennir vini þína

 

Vinátta, hlýja og félagsskapur er nokkuð sem við öll þurfum á að halda. Miklu meira en nokkurt okkar vill viðurkenna, held ég. Eða svo ég tali bara fyrir sjálfa mig af því að það er öruggara, miklu meira en ég hélt. Síðustu vikur hef ég verið umvafin vinum, kunningjum og meira að segja ókunnugu fólki sem hefur veitt mér ómælda hlýju og skemmtilegheit. Gegnum kveðjur, símtöl, vinskap, falleg sendibréf og heimsóknir hef ég safnað mér orku og krafti sem ég nú beiti til að takast á við lyfjameðferðina sem ég nú stend í. Eitrið í lyfjunum læsir sér um líkama minn og bægir í burtu þessum óboðna gesti sem ég ætla að senda út í hafsauga. Og eitrið vinnur sína vinnu hægt og bítandi, losar mig við hárið á höfðinu og veldur tímabundinni þreytu. Dregur mann niður, um stund, svo hægt sé að byggja aftur. Enn ein klisjan, upprunnin í heilögu orði, maður reisir hús sitt á bjargi, en ekki sandi.

 

Í miðju þessu kófi líður manni upp og niður. Verst þykir mér hvað ég er löt að lesa. Það bíða alltaf nokkrar bækur á borðinu en einbeitingin ekki enn alveg eins og hún á að vera. Það hlýtur að lagast hægt og bítandi. Á meðan hlusta ég á Góða dátann Svejk í græjunum,brosi og hlæ. Hann er auðvitað skyldulesning á hvert heimili, reglulega.

Óboðinn gestur – baráttan við óvænt veikindi

himininn

Lífið getur breyst á einu augnabliki. Við vitum það flest en trúum því samt ekki að neitt hendi okkur sjálf. Ég held sem betur fer.

Við vorum á leið í brúðkaup á Íslandi fyrir örfáum vikum og síðan var ætlunin að hefjast handa við flutninga frá Genf til New York. Praktísku atriðin voru komin á gott skrið, skólamál, íbúðarmál…allt hefðbundin verkefni sem fylgir því að flytja milli landa. Alpalandið var kvatt með söknuði í bili og við hlökkuðum til að takast á við nýjar áskoranir.

Þá tóku æðri máttarvöld í taumana. Ég ákvað að fara til læknis við komuna heim af því að ég var orðin svo mikil um mig miðja frekar skyndilega. Á örskotsstundu skiptu fyrri plön engu máli, hversdagslegu verkefnin víkja núna fyrir þeirri stærstu áskorun sem ég hef staðið frammi fyrir. Óboðinn gestur hafði nefnilega sest að innra með mér.

Ég er nýlega komin úr uppskurði þar sem, gesturinn, illkynja æxli, var fjarlægður og nokkurra mánaða lyfjameðferð er hafin. Öll fjölskyldan er sameinuð hér heima á Íslandi og hér verðum við í vetur og tökumst á við afleiðingar þessa óboðna gests sem vonandi verður endanlega skolað niður í lyfjameðferðinni. Ég hef fulla ástæðu til bjartsýni þegar þeim kafla lýkur. Fram að þessu hefur allt gengið á áætlun, meira að segja hárið sem fýkur af mér í þessum töluðu orðum og í fyrramálið ætla ég sjálf að losa mig við afganginn af því – það verður hressandi að láta íslenska síðsumarið leika um kollinn minn.

Manni bregður við svona tíðindi. Enginn á von á því að svona nokkuð hendi sig. Og það er gott. Ég ætla ekki að velta mér upp úr þessum veikindum en ég ætla hins vegar að sigrast á þeim. Ég finn um leið hvað jákvæðni og stilltur hugur skiptir miklu máli þegar áföll ríða yfir. Að reyna að ná stjórn á hugsunum sínum og laða fram það jákvæða í lífinu hjá mér sjálfri og öllum þeim sem eru í kringum mig.
Þannig ætla ég að nálgast þetta stóra verkefni sem mér hefur nú verið falið að glíma við.