Verst þeir tala ekki frönsku í New York!

Engum sögum hefur farið af afrekum mínum í bloggskrifum undanfarið. Ég er sennilega lélegasti bloggari sögunnar. Þrátt fyrir það hef ég ekki viljað loka litlu síðunni minni því eins og allir vita er batnandi manni best að lifa.

 

Lengst af skrifaði ég um lífið í Genf, breytingarnar sem urðu hjá mér og fjölskyldunni við að flytja til útlanda og koma sér fyrir á nýjum stað. Það er nú vel á annað ár síðan ég kom hingað, þau komu á undan mér. Í ljósi þess hvað ég er treggáfuð, hef ég alveg fram á þennan dag verið að venjast þessum breytingum og er enn leitandi með hvað ég vil taka mér fyrir hendur í framtíðinni.

Og kannski þess vegna myndaðist bloggstíflan…hvað nennir maður að skrifa mikið um það?

 

En geti stífla brostið skyndilega, þá brast þessi með miklum bravör.  

 

En….ég er sem sagt farin að kunna býsna vel við mig hér í miðri Evrópu og farin að kunna betur á hvernig þeir heimamenn vilja hafa hlutina….og þá er best að flytja!  Nú tekur við næsta vers hjá mér og litla samfélaginu mínu.

 

Flutningur til NY í sumar, nýir skólar fyrir stelpurnar, ný íbúð (vonandi utan sprengjusvæðis) og nýtt samfélag!

 

Nú er það að pakka niður, safna saman yndislegum minningum héðan og setja í box, setja allt dótið í gám og halda á vit ævintýranna.

 

í ljósi þess að þeir tala ensku í NY er eins gott að ég hef verið að læra að tala frönsku…spurning um að halda áfram frönskunáminu þar?