Ég er háð sms skilaboðum…sem berast ekki!

Það kemur í ljós að ég er meira en lítið háð síma og tölvu.  Ég þarf núna að horfast í augu við að vera sannkallaður símafíkill og það sem verra er, sms fíkill á háu stigi.

 

Þeir í alpalandi eru með föst tök á sínu daglega lífi.  Og mínu.  Þeir stýra nú interneti heimilisins með harðri hendi og hafa ekki enn afhent mér háhraðatenginguna sem þeir lofuðu þó í desember.  Það er óvenjulegt, af því að yfirleitt stendur allt eins og stafur á bók og rúmlega það.  Skýringin er ágreiningur milli leigusala og alpasímafyrirtækis og mér er sagt að blanda mér ekki í það. 

 

Á meðan bý ég við gamaldagshraða á interneti og hef raunar vanist því ágætlega.  Þegar umferðin er mikil geri ég eitthvað gagnlegra en að góna á fréttir og fylgjast með öðru fólki, hef til að mynda lesið sérstaklega mikið undanfarnar vikur.  Og nú síðast, meðan lætin stigmagnast á Íslandi, hef ég notið mín við lestur á góða dátanum Svejk.  Sem er auðvitað skyldulesning á nokkurra ára fresti.

 

En, hann dugir mér þó ekki alveg, frekar en bækurnar sem bíða á borðinu mínu.  Mig langar að senda sms skilaboð og fá svar við þeim. 

 

Því hefur alpasímafyrirtækið hafnað.  Það sendir mín en segir þvert nei við að senda mér svörin.  Ég hef ekki komið að neinum mótbárum eða komist neitt áfram með að fá skýringar á þessu vandamáli. 

 

Þetta vandamál lét fyrst á sér kræla í sumar, versnaði svo í haust. Undir jól var allt í frosti og ég byrjaði að kvarta.

 

Þú hefur ekki fengið nein skilaboð frá Íslandi, segja þeir.  Öllum skilaboðum sem til þín hefur verið beint, og þau eru öll úr okkar eigin símakerfum, höfum við komið til þín,  með einkar skilmerkilegum hætti.  

 

En ég veit ég fékk skilaboð í morgun, malda ég í móinn, ég skal gefa ykkur upp númerið….

 

En allt kom fyrir ekki.

 

Þá fór sá sem tekur stórar ákvarðanir að blanda sér í málið og varð lítið ágengt.  Og þó…vandamálið virtist óþekkt, líklegast að fólkið á Íslandi kunni ekki að senda sms skilaboð til annarra landa. 

 

Er fólkið með rétt númer? 

 

Ég var við það að gefast upp og sagði við sjálfa mig undanfarnar vikur að ég yrði að hætta að hugsa um sms og ekki síst þau sem ég hafi ekki fengið og allt það sem ég hefði misst af í one liner-um. 

 

Þá hringdi loksins “hotline” alpafyrirtækisins í kvöld og  viðurkenndi loks að þetta væri óskiljanlegt vandamál.  Engar heilbrigðar skýringar væru fyrir hendi og þau væru hreint út sagt ráðþrota.

 

Tæknideildin væri á kafi í málinu og þau vildu allt fyrir mig gera svo ég gæti í framtíðinni fengið öll sms skilaboð undir sólinni…ef því væri að skipta.

 

Á meðan gerist auðvitað ekkert og ábyggilega ekkert án þess að ég fái bréf, símtal og tölvupóst með dagsetningum og líklegum skiladögum…týndra sms skilaboða.

 

Og ég þarf að horfast í augu við að vera að tapa mér yfir tækniundri sem lengst af minnar ævi var mér fullkomlega ókunnugt, en virðist nú ráða svefni mínum og vöku.