Álfadrottningin og matskeiðin

Ég syng ennþá öðru hvoru fyrir dóttur mína þótt hún sé orðin 9 ára og satt að segja finnst mér það ekki síður gott en henni.  Ég syng alltaf það sama, flest eitthvað sem ég man eftir að raulað var fyrir mig þegar ég var lítil.  Ég held mest upp á Álfareiðina og syng það jafnvel oftar en einu sinni, þótt ég sé ekki viss um að þeirri stuttu finnist það bæta nokkru við.  Sem krakki vissi ég auðvitað ekki Jónas hefði snúið því úr þýsku heldur sá ég fyrir mér huldufólk og álfakirkjur, glæsilegar svífandi álftadrottningar í íslenskri sveit. Og svo þennan mann sem ég ruglaði stundum saman við Ólaf sem reið með björgum fram og sá hann fyrir mér í Álfareiðinni hans Jónasar.  Mér fannst álfadrottningin mögnuðust allra, áreiðanlega fegurst allra hélt ég, bjó í glæstum álfaborgum og virtist geta allt.  Meira að segja gat hún fært manninn upp á skeið.  Það fannst mér merkilegt.

 

Lengi fram eftir öllum aldri sá ég fyrir mér mann á prjónandi hesti, á matskeið, í höndum drottningarinnar.  

 

Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,

hló að mér og hleypti hestinum á skeið.

Var það út af ástinni ungu sem ég ber?

eða var það feigðin sem kallar að mér?

 

Hugsaði lítið um það sem á eftir kom enda skildi ég ekkert hvernig ást og dauði gæti verið sagt í sömu andrá.  Það voru töfrar drottningarinnar sem áttu hug minn allan.  Og eiga enn. 

 

Þess vegna fannst mér yndislegt um daginn þegar dóttir mín sagðist ekkert skilja í því hvað þessi skeið væri að gera í þessu lagi og hvernig hún færi að þessu, drottningin.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s