Að ná markmiðum sínum…

Hvernig stendur á því að það er erfiðara að ná markmiðum sem maður setur sér prívat, þá á ég við um borða hollari mat, hreyfa sig meira og sofa betur, heldur en þeim sem sett eru í vinnunni?

 

Hvernig stendur á því að það er erfiðara að setja líkamann og sálina í fyrsta sæti heldur en verkefnin sem eru á skrifborðinu?

 

Þetta hefur verið sú áskorun sem ég hef barist við frá því ég stóð upp frá skrifborðinu í vinnunni og settist við borðið mitt hér heima í alpalandi.  Að gera það að fullu starfi að takast á við sjálfa mig og verða líkamlega sterkari á eftir.  Og þá um leið fá enn meiri orku til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

 

Ég hef vanið mig á gönguferðir og hollan morgunmat.  Ég reyni að fara að sofa á skikkanlegum tíma.  Ég er komin með mjög heilsusamlegt tæki hér heim, cross trainer og reyni að nota það reglulega.  Fyrst gat ég bara ekkert, gafst upp eftir nokkrar mínútur en nú er ég komin upp í 20 mínútur og held áfram. 

 

10000 skref á dag er markmiðið, þá með því að nota tækið og ganga úti.  Það gengur upp og niður að ná því.  Gekk ekkert heima um jólin enda annað á dagskrá heldur en að hreyfa sig! 

 

En ég er ekki orðin betri en svo, að ég þarf endalaust að minna mig á að hreyfa mig.  Segja við sjálfa mig á morgnana, jú, Ólöf, morgunmatur er mikilvægur.  Nú er þó a.m.k. svo komið að ég er að verða háð græna spínatdrykknum og eplaedikið er að verða skikkanlegra, en ég á enn nokkuð í land með að tileinka mér morgunmat.  Lengst af borðaði ég ekkert á morgnanna og það tekur tíma að kenna gömlum hund að sitja.  Nú eru það 2 msk af eplaediki í vatni á fastandi maga.  Þeytingur úr spínati, grænum eplum, agúrkum og engifer og heilmikið að vatni fram að hádegi.  Svo versnar í því. Hafragrauturinn kemst ekki að enn…

 

Ég finn þó að þetta hefur allt gert mér gott og þrekið eykst dag frá degi.  Það er nefnilega ekki endalaust hægt að keyra sig áfram á viljastyrknum, sama hversu mikill hann kann að vera.

 

Ég hef eins og við öll, sett mér alls kyns markmið í lífinu og reynt að ná þeim eftir fremsta megni.  En þetta, baráttan við sjálfa mig  og vöðvana í líkamanum ætlar að verða það erfiðasta sem ég hef átt við!

 

 

Álfadrottningin og matskeiðin

Ég syng ennþá öðru hvoru fyrir dóttur mína þótt hún sé orðin 9 ára og satt að segja finnst mér það ekki síður gott en henni.  Ég syng alltaf það sama, flest eitthvað sem ég man eftir að raulað var fyrir mig þegar ég var lítil.  Ég held mest upp á Álfareiðina og syng það jafnvel oftar en einu sinni, þótt ég sé ekki viss um að þeirri stuttu finnist það bæta nokkru við.  Sem krakki vissi ég auðvitað ekki Jónas hefði snúið því úr þýsku heldur sá ég fyrir mér huldufólk og álfakirkjur, glæsilegar svífandi álftadrottningar í íslenskri sveit. Og svo þennan mann sem ég ruglaði stundum saman við Ólaf sem reið með björgum fram og sá hann fyrir mér í Álfareiðinni hans Jónasar.  Mér fannst álfadrottningin mögnuðust allra, áreiðanlega fegurst allra hélt ég, bjó í glæstum álfaborgum og virtist geta allt.  Meira að segja gat hún fært manninn upp á skeið.  Það fannst mér merkilegt.

 

Lengi fram eftir öllum aldri sá ég fyrir mér mann á prjónandi hesti, á matskeið, í höndum drottningarinnar.  

 

Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,

hló að mér og hleypti hestinum á skeið.

Var það út af ástinni ungu sem ég ber?

eða var það feigðin sem kallar að mér?

 

Hugsaði lítið um það sem á eftir kom enda skildi ég ekkert hvernig ást og dauði gæti verið sagt í sömu andrá.  Það voru töfrar drottningarinnar sem áttu hug minn allan.  Og eiga enn. 

 

Þess vegna fannst mér yndislegt um daginn þegar dóttir mín sagðist ekkert skilja í því hvað þessi skeið væri að gera í þessu lagi og hvernig hún færi að þessu, drottningin.

Um 8370 klukkutímar eftir af árinu – nota tímann vel!

Um 8370 klukkutímar eftir af árinu – nota tímann vel!

Svona lítur dagbókin mín út núna, ansi hrein og fín. Áður var hún í miklu kaosi og stundum gleymdi ég að bóka verkefni í hana, eða setti þau á vitlausan stað og þá lenti ég í klípu. Ég hef þó aldrei verið dugleg að nota dagbók á annan hátt en að minna mig á það sem þarf að gera. Ég býst við að flestir hafi sama háttinn á, hvort það notuð er svona venjuleg dagbók eða rafræn í símanum. Ég horfi fram á árið 2014 eins og við öll og set mér markmið um hitt og þetta, hugsa betur um heilsuna, fjölskylduna, lesa og ákveða hvað ég ætla að gera næst. Og ég blaða í dagbókinni og set inn þau verkefni sem þegar eru ákveðin og þá fundi sem eru bókaðir. En það er enn ansi gott pláss.

Hvers vegna nota ég bókina bara í svona? Af hverju ekki að bæta í hana öðrum verkefnum, t.d. því að fara út að ganga kl. þetta, vera búin að lesa þessar bækur á vormánuðum, vera tilbúin með þetta verkefni á þessum degi?

Pældi í þessu í nokkra daga. Væri gaman að fá aftur “busy” dagbókina, hugsaði ég með mér. Ekki síst vegna þess að venjulega geri ég það sem mér er sagt og ef bókin segir mér að gera eitthvað, geri ég það. En ef ég sjálf ætla að gera eitthvað…svík ég það ansi oft og tek það fram yfir sem aðrir segja mér að gera.

En það er hængur á þessu öllu. Markmiðin fyrir árið 2014 má skrifa upp í stílabókina mína sem ég hef alltaf með mér og sting inn alls konar hlutum sem ég sé, póstkortum, miðum, ljósmyndum og svo pára ég hitt og þetta sem mér dettur í hug. Ég þarf ekki þessa bók í það. Og svo auðvitað aðalatriðið, er það markmið í sjálfu sér að vera með útkrotaða dagskrá? Er hægt að leggja það til hliðar í bili og hugsa eftir nýjum brautum? Að það eru nú um 8370 klukkustundir eftir af árinu og ég á enn fullt af lausum klukkustundum – sem ég ætla að nota vel.

Og NB, ég var ansi langt frá 10000 skrefa markinu mínu í hálkunni heima – svo það er nóg að gera í göngutúrunum á næstunni!