Image

Símalaus í alpalandi

Símalaus í alpalandi

Nýjustu tölur:
sunnudagur: 11500 skref
mánudagur: 7200 skref
þriðjudagur 8100 skref
miðvikudagur 3200 skref

Þetta verður barátta – en hún verður þess virði.

Annars var ég að hugsa um jólakort. Ég hef sent mörg jólakort til vina og samstarfsmanna undanfarin ár og mér hefur þótt gaman af þeim undirbúningi. Það tekur tíma að velja myndina og velta fyrir sér hvort það sé rétt að hafa hana úr fjölskyldualbúminu eða ekki. Svo þarf að ákveða textann og ekki vill maður verða of væminn en þó er það þannig að slatti af væmni er bara uppskrift af manni sjálfum. Þá er það hitt, er hægt að setja sama textann alls staðar? Eflaust ekki, en ef kortin skipta hundruðum og kannski meira, er erfitt að skrifa á hvert einasta kort…svo þá vill maður hugsa fallega kveðju.

Undanfarin ár hefur sú rödd verið háværari að það eigi að sleppa kortunum og senda frekar rafræna kveðju og gefa það sem ella hefði farið í kortakaup til góðs málefnis. Það er auðvitað mjög góður kostur. Það var þó áður og er enn hægt að kaupa kort hjá þeim sem lögðu sitt til góðra mála, en gott og vel, kannski er kominn tími til að hætta þessu, spara pappír, hlífa fólki við pósti og leggja fé strax til góðra verka.

Ég ákvað að nú væri tími fyrir mig að prófa. Morgun rann upp og ég settist glöð í bragði við tölvuna og klukkan ekki orðin átta. Nú skyldi taka til óspilltra málana við að sauma saman fjölskyldumyndir, semja hnyttna frásögn og senda um víða veröld.

Ekkert svar.

Fjarskiptasambandið hér á sprengjusvæðinu sem hefur verið frekar brotakennt um hríð….gafst upp.

Ekkert svar – engar myndir – ekki neitt.

Símatólið var meira að segja utan sambands og sjónvarpið, jú, það var líka á bak og burt. Eina sem eftir stóð var nýi samsung síminn minn sem leysti eplasímann nýlega af hólmi. Ég reif hann upp og leitaði lengi vel eftir hringiskífu þar til ég náði sambandi við símafyrirtæki þeirra Svisslendinga sem sögðust mundu koma eins og skot eftir þrjá daga. En þeir myndu vissulega gera boð á undan sér með skilaboðum.

hm.

Eins gott að þessi nýi sími sýni mér skilaboðin án þess að ég þurfi að fara á netið á kaffihúsinu og leita svara!

Ekki þurfti að spyrja að því, að kveldi var mér tilkynnt að símamaður kæmi kl. 8 næsta dag og klukkan var vart orðin tvær mínútur yfir þegar maður stóð við dyrnar hjá mér. Hann byrjaði að grauta í snúrum um allt hús þar til hann kom áhyggjufullur á brún og bað mig að koma að líta á afraksturinn. Þar stóð hann með það sem ég kalla venjulega snúru, kannski dálítið roskna þó, og sagðist aldrei hafa séð annað eins. Þessi snúra hlyti að vera a.m.k. 50 ára. Nú ekki meira, hugaði ég, ég á systur sem eru meira að segja eldri en það. Og fyrir utan það, sagði hann og gat vart náð andanum, þá eru hér fleiri símasnúrur, það voru mörg tól hér, menn hafa verið með starfsemi hér í þessu herbergi. Jæja, hugsaði ég, símalína símalandi í símalandi. Kannski kom Hercule Poirot við hér á leið sinni til London…og leist bara þokkalega á mig.

Niðurstaðan var þó því miður sú að mínu netsambandi var ekki viðbjargandi og ég verð að bíða fram í janúar til að fá bót á. Ég tók þessu af mikilli ró miðað við að netið er orðið mitt helsta samband við umheiminn, kannski fann ég innra með mér að því þyrfti að breyta. Hitt var verra að ég gleymdi að spyrja manninn að því hvers vegna þeir hjá símalandi í Sviss hafi ákveðið að ég megi nánast engin sms skilaboð fá heiman frá Íslandi og að það sé alls ekki einboðið að allir þaðan geti hringt í mig? En þannig hefur það verið nú um nokkra hríð. Það er að minnsta kosti ekki hætta á að sms eða símtöl verði hleruð– þegar engin berast. Er þetta ekki augnablikið sem maður á að hrópa samsæri?

Niðurstaðan er þó sú að ég læt því jólakortin lönd og leið, sleppi símanum en sendi öllum þess í stað kærar jólakveðjur – í huganum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s