Heilinn eins og skrældur laukur…

Mér finnst sem ég hafi verið í hýði undanfarin mánuð.  Það hefur fátt komist að hjá mér annað en að vakna í býtið og mæta í skólann.  Þar er ég svo allan daginn með krökkum sem flest eru jafngömul eða yngri en elstu börnin mín.  Og verið er að troða í okkur frönsku.  Við byrjuðum alveg á byrjuninni og nú erum við farin að geta myndað setningar.  Þetta er gaman en ég verð að viðurkenna að það tekur á.   Mér finnst ég stundum ægilega treg og var á tímabili hrædd um að ég það væri farið að slá í hausinn á mér, ég væri kannski orðin of gömul til að læra nýtt mál….?  Sem betur fer ýtti ég þeim hugsunum frá mér og bekkjarsystkini mín sögðu mér hughreystandi að þau væru í sömu sporum og ég.  En, ég hef ekki haft nokkra orku í að sinna skrifum á heimasíðu eða koma öðrum hlutum í verk. 

 

Það var eiginlega fyrst í dag, eftir skóla, að ég nuddaði saman höndunum og fann að skólinn er að verða að rútinu og ég get bætt öðru við og aðeins lagað samviskubitið á curiosus.

 

Núna erum við sem sagt að klára fjórðu viku, komin í aðra  lotu af þremur.   Mér finnst framburðurinn enn erfiðastur, ég er auðvitað með lítinn orðaforða og það tekur langan tíma ná sæmilegum árangri þar.  Málfræðin er utanbókarlærdómur enn sem komið er a.m.k. og með því að vera dugleg að læra kemur hún.  En framburðurinn, oh, mon dieu!  Annað hvort er ég að bisa fremst í munninum eða alveg ofan í koki.  Ég hlusta á Edith Piaf og franska kaffihúsamúsík í gríð og erg…og vona það besta.

 

Ég útskrifast vonandi úr sumarskólanum seinni partinn í ágúst, núna óttast ég mest að við verðum sett í próf til að athuga hvernig sumarið hafi nýst í náminu og útkoman verði einhver hryllingur. Spurning hvað verður gert við svoleiðis fólk?

Ég held í vonina og trúi því að í haust geti ég lesið Tinna á frönsku….