Áfram gakk, un, deux, trois…

Ég gleymi aldrei hvað mér þótti merkilegt að byrja í skóla. Ég hlakkaði mikið til. Eldri systurnar voru svo forframaðar að þær kunnu allt, fannst mér. Litla systir var þreytandi, bítandi smákrakki sem ég vildi sem fyrst komast frá – fyrsti bekkur í Laugarnesskóla þýddi að ég var á leiðinni í fullorðinna manna tölu. Mér fannst skólinn óskaplega stór og tilkomumikill. Uppstoppaðir fuglar á neðstu hæðinni og málverk eftir Jóhann Briem á öllum hæðum, ekki amalegt það. Einu vonbrigðin, og þau voru mikil, voru að besta vinkona mín var mér ekki samferða í skólann. Ég var fyrir hádegi og hún eftir hádegi. Það þótti mér sárt enda mátti ég vart af henni sjá.

Á hverjum einasta degi beið ég eftir henni úti á horni. Mig minnir að hún hafi verið búin um þrjú leytið og eflaust hefur hún verið hálftíma á leiðinni heim og ég beið óþreyjufull og spennt. Eflaust hefur minnstur tími hafi farið í að tala um hvað gerðist í skólanum, athyglin beindist fljótt að leikjum dagsins. Við tókum upp á hinu og þessu eins og gengur – en aðalatriðið í okkar huga var að ná systkinum okkar í uppátækjum…en engum sögum fer að því hvort það hafi tekist. Við vinkonurnar settumst svo hlið við hlið í 7 ár bekk og sátum saman þar til í lok 3ja bekkjar í MR. Ég hafði mismikinn áhuga á námsefninu en hvergi annars staðar vildi ég sitja.

Í gær settist ég aftur á skólabekk eftir nokkurt hlé. Mér leið pínulítið eins og þegar ég fór í 6 ára bekk í Laugarnesskóla. Ég hef hlakkað til mánuðum saman. Var með tilbúna skólatösku, penna og stílabók, orðabókin á sínum stað og frönskunámið að hefjast. Ég var mætt klukkan 9 á mánudaginn ásamt 100 öðrum. Flestir voru yngri en ég en nokkrir eldri…konur og karlar…alls staðar að úr heiminum. Mér fannst ég þó heyra spænsku hvað mest. Fyrst fengum við kynningu á því sem framundan er auk þess sem það var myndarleg svissnesk landkynning. Og svo, alveg mér að óvörum, var tilkynnt að framundan væri stöðupróf! Hmhm. Ég veit ekki einu sinni hvernig maður segir próf á frönsku, hvað þá meira. Svitinn spratt fram á enni mér….ekki var þetta gæfuleg byrjun. Þetta lagaðist aðeins, allt í lagi að geta ekkert, allt í lagi að skrifa bara nafnið sitt…þegar ég var í skóla var stundum sagt að hægt væri að fá 1 fyrir að skrifa nafnið, ekki beint í samræmi við þær væntingar sem ég gerði til mín í frönskuskólanum! En, það var ekkert annað að gera en að setja undir sig hausinn og taka við sem að höndum bæri. Ég tók prófið og gat auðvitað lítið í því, skrifaði nafnið mitt og grautaði fram og aftur í því þar til ég stóð upp og fékk mér kaffi frammi með fleiri málleysingjum.

Okkur var sagt að koma daginn eftir og þá væri búið að stilla okkur upp í hópa og alvara lífsins gæti hafist. Og það stóð heima. Ég er í hóp með 7 öðrum sem ekkert kunna nema að krota nafnið sitt. Yndisleg kona sér um að berja í okkur frönskuna og eftir 2 heila daga erum við enn ruglaðri en við vorum fyrir. “Verið róleg” segir hún, “það tekur langan tíma að læra tungumál”. Það er vissulega rétt og ég býst við að ekkert okkar hafi haldið að þetta gengi hratt fyrir sig. Samt er maður sár við sjálfan sig hvað það þarf að stagla sama hlutinn oft – meira að segja að fara með stafrófið tekur á. Við horfum biðjandi á kennarann og hvort annað og vonum svo innilega að eftir nokkrar vikur gætum við sagt nokkrar setningar skammlaust. “Munið taktinn”, segir hún, “hvert tungumál hefur sinn takt, hlustið á frönskuna, hlustið á taktinn, un, deux, trois….”

Eitthvað höfum svo við frétt af því að ef við mætum vel og erum dugleg að læra heima þá fáum við kannski verðlaun…við keppumst öll að því…skiptir engu hvort þú ert sex eða 46….keppnisskapið víkur ekki…

Þetta eru Harry Potter tré!

Vissuð þið að það eru Harry Potter tré í Genf?  Í virðulegri borg, í friðsömu landi, þar sem Rauði krossinn býr og Sameinuðu þjóðirnar reka mikilvæga starfsemi.  Í fallegri lítilli borg – sem eins og aðrar borgir í Sviss er heil og laus við áverka stríðsreksturs eru kynleg tré eftir breiðgötum og almenningsgörðum.  Við komum hingað fyrst 3. janúar 2012.  Við eiginlega hentumst hingað öll sex með jólasteikina enn mallandi í maganum.  Hann var nýbúinn að fá starfið og honum lá á.  Við vildum ekki að hann færi með vitið úr húsinu og fylgdum honum á leiðarenda.  Það var ískalt og Genfarvatnið heldur hráslagalegt að sjá.   Ég veit eiginlega ekki hvað okkur fannst um þetta allt saman fyrst.  Við hin höfðum aldrei komið til Genfar og höfðum ekki haft neinn tíma til að kynna okkur eitt né neitt.  Hvert okkar fann sér sitt uppáhalds…Dóra vildi ekkert frekar en að ferðast í sporvagni allan daginn, ég dáðist að gamla bænum og þau hin horfðu til fjalla og sáu skíðin í hyllingum.

En öllum sáum við tréin.  Furðuverkið.  Í janúar voru þau auðvitað allsber, nánast hvítstofna eða a.m.k. hvítflekkótt og greinarnar stóðu eins og hnefar út úr stofnunum.  Framan á þeim óx eitthvað sem líktist nálum eða títuprjónum úr fjarðlegt.  Á sumum minnti það á ótal fingur sem stóðu í allar áttir.   Við vissum ekki hvort þau voru falleg eða ljót.  Okkur fannst þau fyrst og fremst vera af öðrum heimi og svo heimarík að þau hlytu að hafa verið þarna afar lengi og yrðu örugglega miklu lengur en við öll hin.

photo-6

Þetta eru Harry Potter tré – hrópaði einhver.  Og þá var það ákveðið.  Fyrir þá sem vilja vera í raunveruleikanum má víst líka kalla þau platanus en það er óþarfi.  Það hljóta allir að sjá að þetta eru töfratré.  Ég hef fylgst með þeim síðan – hvernig þau laga sig að hverri árstíð og hvernig innfæddir hér strjúka þeim og klippa.  Í vorin eru “fingurnir” eða “nálarnar” klipptar af svo eftir standa hnefarnir út í loftið.  Það er heilmikil vinna að fara um alla borg og klippa en allt er þetta gert samviskusamlega enda augljóst að um heldri borgara er að ræða.  Þegar voraði fylgdist ég sérstaklega með.  Ég átti bágt með að ímynda mér að þessi furðuverk gætu blóstrað almennilega þegar búið var að klippa af þeim allt saman.  Þau flýta sér ekkert.  Haga sér eins og birkið heima og láta bíða eftir sér.  Fyrst koma óreglulegar grænar flygsur hér og þar – ekki burðugt þótt mér og leist síst á blikuna.  En hægt og hljótt klæðast þau græna kuflinum sínum og standa núna iðagræn og falleg – töfrum líkust og minna mig á álfa og huldufólk.  Og auðvitað ævintýrabækur – Harry Potter býr líka hér.

photo-2

Það munar um einn.

Image

 

Ég fór í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Genf á föstudaginn.  Erindið var áhugavert, kynning á bók um flóttamannabúðirnar Camp Ashraf í Írak.  Bókin heitir the Untold Story of Camp Ashraf og er höfundur bókarinnar  fyrrum yfirmaður SÞ í Írak, Tahar Boumedra.  Í bókinni er sett fram mikil gagnrýni á SÞ og alþjóðasamfélagið fyrir að láta ofbeldisverk á óbreyttum borgurum líðast en eins og kunnugt er voru búðirnar stofnaðar í því skyni að veita íröskum flóttamönnum skjól.  Því miður virðast ofbeldisverk á þeim sem í þarna búa engan endi taka.

Þegar maður situr á svona fundi og er minntur á hve heimurinn getur verið óskaplega grimmur, vaknar alltaf spurningin, hvað get ég gert?  Hverju get ég breytt?  Hvað getum við, sem sitjum hér og hlustum gert betur? Hjálpað?  Hvað gerum við þegar við stöndum upp og förum út?  Förum við á annan fund og hlustum? Eða taka önnur verkefni við?

Munar um einn?  Í litlum samfélögum er í raun svo auðvelt að hafa áhrif, þar munar svo óskaplega mikið um hverja einustu manneskju.  Það rann ekki upp fyrir mér almennilega fyrr en við fluttum til Egilsstaða í fremur fámennt samfélag hversu miklu munar um hvern og einn.  Þar spratt fram hjá mér þessi þörf að leggja mitt af mörkum til samfélagsins, eitthvað sem eflaust hefur blundað í mér alla ævi en fann farveg í því góða samfélagi.  Lítil samfélög þurfa á öllu sínu að halda og fólkið veit það.  Það sama má í raun segja um Ísland.  Við þurfum á öllu okkar að halda, við verðum  að mennta fólkið okkar og rækta í börnunum okkar skilning á því að hver og einn skiptir máli, hver og einn er hlekkur í því að við getum áfram dafnað í okkar landi.  Um leið verðum við að gera okkur grein fyrir að við erum hluti af stórum heimi og þar getum við líka haft áhrif – hvert og eitt.

Munar líka um einn í Sýrlandi og Írak? Bangladesh?  Í stríðshrjáðum löndum sem eru að sligast undan oki harðstjórnar og mannvonsku?  Í fjölmennum löndum þar sem fjölgunin er svo hröð að manni finnst nánast eins og mannslífið sé vart virt?

Hvernig er þessi eini sem byrjar á því að tala við næsta um það verði að berjast gegn ógnarvaldinu?  Hvers konar kjark hefur hann til að bera?  Litla stúlkan í Pakistan.  Malala Yousufzai byrjaði að skrifa blogg 11 ára gömul þar sem hún lýsti því að búa undir ofríki Talibana.  Þeir skutu hana 15 ára gamla.  Það er ekkert annað en kraftaverk að hún skuli hafa lifað það af og nú býr hún í Englandi og heldur áfram  andófi sínu.  Hvers konar kjarkur er þetta í ungri stúlku.  Það eru sem betur fer mörg dæmi um óbilandi hetjur.  Aung San Suu Kyi í Burma er kannski holdgervingur þessa fólks og lifandi sönnun þess hve miklu munar um einn.

Þessar hugsanir fóru í gegnum huga minn meðan ég sat á þessum fundi, hlustaði á fyrirlesarana og horfði á fólkið sem þarna var.  Flestir voru sennilega á vegum alþjóðasamtaka ýmiss konar sem starfa að mannúðarmálum í heiminum.  Fólk sem hugsar allan daginn um hvernig bæta megi líf almennra borgara í stríðshrjáðum og fátækum löndum.  Samtök sem hjálpa þeim sem rísa upp og berjast gegn óréttlæti og mannvonsku.   Hjálpa þessum eina sem einhvers staðar fór að tala við annan og smátt og smátt varð til hreyfing  sem á þá ósk heitasta að fá að búa í landi þar sem hver og einn fær tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi.

Ég fór heim með bókina.

Að rækta krydd og vökva nágrannana

Ég er ekki með græna fingur, ekki ennþá. Engar frægðarsögur eru til af mér í garðinum og oft hefur mér fundist blómstrandi arfi ljómandi fallegur öðrum til mikillar armæðu. Fyrst eftir að við fengum okkar eigin garð leysti ég þetta með því að nánast taka burtu garðinn og hafa bara iðagrænt gras og stól á palli. En smátt og smátt hef ég fundið hjá mér þörf á að rækta eitthvað sjálf. Er það aldurinn? Er það af því að það ég er hætt að eiga börn? Er það af því að það er eitthvað svo fallegt við að sjá agnarlítinn sprota vaxa og mynda blóm? Er það umhverfið? Að allir eru farnir að rækta krydd, kartöflur og túlípana? Áhrifagjörn?

Ég veit það ekki. En þetta gerðist svona. Í bókabúðinni endaði ég iðulega í náttúrudeildinni að skoða bækur um að rækta garða og blóm í gluggum og svölum. Ég fór að lesa um fólk með græna fingur. Bókin hennar Hildar Hákonardóttur varð fyrir mig eins og þerapía, róandi lesning þótt ég skildi minnst af því sem hún var að tala um. Ég gerðist áskrifandi af riti garðyrkjufélagsins og fór að lesa það mér til ánægju fyrir svefninn. Maðurinn minn skildi ekkert. Ekki í fyrsta sinn sem hann horfir á þessa og veltir eflaust fyrir sér hve margar hliðar séu til á henni.

Og nú í vor ákvað ég að láta til skarar skríða og kaupa kryddjurtir í pottum og setja á svalirnar mínar á sprengjusvæðinu. Hér er fólk með blómapotta utan og innan á svölum og þetta er svo óstjórnlega búsældarlegt að ég verð að taka þátt.

Drap fyrstu tvær tilraunir. Bæði kryddin og hortenseurnar sem fóru allt of fljótt út og króknuðu. Drekkti sumum og svelti aðrar.

Byrjaði aftur. Ég ákvað að kaupa ekki hortenseur (hvernig á eiginlega að skrifa þetta?) en hélt mér við kryddin og blóm sem heita eitthvað óskiljanlegt. Þetta hangir enn uppi, ég held meira að segja að flest muni lifa af. Ég vökva og vökva og bæti blómalýsi út í vatnið.

En auðvitað gat þetta ekki gengið svona snuðrulaust fyrir sig að ég fengi að vera í friði hér á 6. hæð með blómin mín. Um daginn lá nefnilega umslag við útidyrnar. Konan á neðri hæðinni. Hún segir að ég sé alltaf að hella vatni yfir eldhúsgluggann hennar og biður mig vinsamlega um að hætta því. Ég fékk í magann. Mér finnst mjög óþægilegt að það sé kvartað undan mér og er eins og vinir mínir vita hrædd við skammir og yfirvald, dauðhrædd við lögguna. Ég fór strax að eldhúsglugganum og teygði mig langt út. Mínar rannsóknir sýna að konan á neðri hæðinni er sérstaklega viðkvæm ef ég hef með þessum dropum mínum truflað hjá henni eldhúsgluggann. En…auðvitað skrifaði ég henni strax til baka og lofaði bót og betrun. Hætti samstundis með blómin þar og fór með allan garðinn út á stofuvalirnar. Þar hef ég hafið mikla starfsemi við vökvun og alls kyns.

Í morgun vökvaði ég sérlega vel. Fór nákvæmlega yfir hvern pott og hellti vel af vatni. Í gólfi svalanna er sérstakur stútur til að allt vatn renni haganlega þar út svo ég taldi mig aldeilis í góðum málum. Til öryggis teygði ég mig út yfir svalirnar og leit niður. Svalirnar á 5 hæð eru bónaðar og slípaðar og þar eru tveir óþolandi fallegir blómapottar. Ég brosti. Þetta verður í lagi.

Þegar ég hafði gert mig til leit ég aftur út á svalir og niður. Mér til mikillar skelfingar sá ég að á svölum 5 hæðar er blautt svæði þar sem vatn að ofan hefur sullast inn. Hjálpi mér. Ég á von á öðru bréfi.

Ég vona að ég sleppi þó. Er á leiðinni út í búð að kaupa vaskaföt. Framvegis verður gerð framleiðslulína vökvunar í vaskafötum og þeim hellt í eldhúsvaskinn….fyrir tíu á kvöldin.

Ég sé fram á að vera mjög upptekin við þetta á næstunni. Spurning hverju fleiru ég get komið í verk.