Er komin á nýtt sprengjusvæði…

Ekki gat ég ímyndað mér að sprengjusvæðið elti mig burt úr Genf. En ótrúlegir hlutir gerast. Í gær keyrðum við af stað áleiðis frá Avenue de Champel í fínasta veðri. Áfangastaðurinn ítalska ríverían. Eða öllu heldur, höfuðstaðurinn Genúa. Ég lét ekki mitt eftir liggja og lét bílstjórann ekki einan um stjórnina enda lætur mér betur að keyra bílinn….finnst mér. Undir kvöld blasti Genúa við, falleg í kvöldroðanum. Ég hafði einsett mér að finna hagstæða gistingu í gamla bænum og taldi mig hafa fundið spennandi gistingu í Palazzo Cicolo. Og svo varð raunin. 200 evrur nóttin fyrir 5 er vel sloppið! Þetta er yndislegt “húsahótel” þar sem er að finna íbúðir og herbergi í nokkrum húsaþyrpingum. Í þessu tilviki eru íbúðirnar í gömlum palazzo í frábærum hluta Genóa. Það gæti ekki verið yndislegra. Okkar íbúð er í raun þrjár stofur, hver inn af annarri, sú fremsta er hugsuð sem dagstofa, svo koma tvö herbergi hvert innan af öðru. Við erum í öðru og stelpurnar í hinu. Fremst í íbúðinni er brattur stigi niður og þar er sturtan. Hátt til lofts, vítt til veggja. Húsagarður innaf. Kaffihús fyrir utan. En bíddu við….það standa framkvæmdir fyrir dyrum í Genúa, þeim finnst kominn tími til að endurnýja lagnirnar….fyrir utan herbergisgluggann hjá mér 9. maí er í þeirra huga gráupplögð byrjun….ég brosi út í annað og hlakka til að ganga með fram strandlengjunni á morgun. Manneskja sem kemur af sprengjusvæði lætur ekki slá sig út af laginu. Læt fylgja með hér mynd af bakgarðinum!

20130509-224011.jpg

Hverjir stjórna landinu – hér eða þar?

Ég hef ekki hugmynd um hvað borgarstjórinn í Genf heitir. Raunar veit ég ekki almennilega hvað þeir heita sem stjórna landinu. Um daginn var mikil mótmælaganga í bænum – út af hverju? – ég veit það ekki. Við litum hvort á annað þegar við heyrðum óminn af hrópum og köllum í áttina til okkar. Okkur datt ýmislegt í hug sem hugsanleg efni til mótmæla en vorum hvergi nær. Nokkrum dögum síðar þegar við gengum um miðbæinn datt okkur helst í hug að mótmælin hefðu að gera með framkvæmdir við hús og torg þar. Þeir hafa nefnilega verið allt of duglegir við það í Genf að rífa gömul hús og byggja önnur, því miður ljót, í staðinn. Ég er aðdáandi góðra arkitekta og vil sjá nýtt þrífast með gömlu, en þá þarf það líka að vera gott að standast samanburð við umhverfið. Ef menn vilja bara byggja ljót hús þar sem hægt er að troða sem flestum inn – ættu þeir kannski að líta á fasatómí tískuna í Paris. Halda götumyndinni en endurnýja allt að innan.

En þetta var útúrdúr. Ég veit um einn og einn sem mundi nú halda því fram að ég ætti að hætta að tala um það sem ég veit ekkert um og tala um eitthvað sem ég hefði a.m.k. lágmarksvit á.

Og miðað við óþrjótandi áhuga að fólki og umhverfi ætti ég nú að vera betur inni í því hverjir stjórna landinu – en ég er það ekki. Ég fylgist hins vegar með því hvernig gengur að baka á Íslandi í stjórnarmyndunarviðræðum. Hlakka til að heyra hvað kemur út úr þessum bakstri öllum saman. En lofa bót og betrun og mun nú fara rakleiðis í það að rannsaka hverjir stjórna hér í alpalandi.

Annars er það að frétta af sprengjusvæðinu að tveimur steypusílóum hefur verið bætt við. Nú er svo sannarlega hægt að tala um alvöru steypustöðvar. Og ég er komin með svissneskt ökuskírteini. Mitt fína íslenska var gert upptækt og mér skilst að sé nú á leið heim í landið fagra og mun eflaust vera geymt í góðri skúffu hjá sýslumanni þar til ég vitja þess næst!Image