Lean In eftir Sheryl Sandberg hjá Facebook, góð bók!

Image

Ég tók nokkrar bækur með mér í frí um daginn.  Mest las ég skáldsögur fyrir utan að lesa alls konar fréttatengt efni. Notaði bæði kindle og ipad – þetta er hvort tveggja að verða mikið þarfaþing fyrir mig.  Mér finnst mjög þægilegt að nota kindle – auðvelt að hlaða niður bókum og skjárinn er þægilegur.  Svo er auðvitað mikill kostur hvað rafhlaðan endist vel og að skjárinn er mjög skýr í glaðasólskini. Ég nota hann mest til að lesa reyfara og þess lags efni sem ég hef enga þörf fyrir að lesa oftar en einu sinni. En ekkert kemur samt í staðinn fyrir að blaða í bók.

Eins og ég sagði, les ég alltaf skáldskap af ýmsum toga en viðurkenni að ég hef stöðugt meiri áhuga á ævisögum.  En ég hef lítið lesið bækur um hetjuframa fólks, bækurnar sem standa í röðum á flugvöllum og segja frá hversu óskaplega miklum árangri “ég” hef náð með hinum og þessum aðferðunum.  Einhvers konar blanda af sjálfshjálparbókum og hetjusögum.

Ég greip þó með mér bókina Lean In, eftir Sheryl Sandberg, sem er einn æðsti stjórnandi Facebook.  Mér hafði verið bent á bókina og hún hefur hvarvetna fengið frábæra dóma. Óþarfi er að taka fram að ferill Sheryl í amerísku atvinnulífi er sérlega glæsilegur.

Við fyrstu sýn gæti maður samt haldið að bók Sheryl Sandberg væri hluti af þessum bókum sem ég var að kvarta undan – en það er víðs fjarri.  Hér er á ferðinni bók um konu sem skrifar hispurslaust um reynslu sína af því að takast á við erfið verkefni í amerísku atvinnulífi, um að ná miklum árangri í karlaheimi, um að vera kona með ung börn og hún er ekkert að mála sjálfa sig í ljósrauðum litum.  Þvert á móti sýnir hún lesandanum að hún, eins og við allar (ég held nefnilega að við konur séum sérstaklega slæmar með þetta) hafi barist við sjálfa sig um hvort hún geti þetta eða hitt.  Hún blandar saman persónulegri reynslu, sögum af sjálfri sér og dregur lærdóm af því sem hún hefur reynt og séð í kringum sig.  Markmiðið er alltaf að hvetja lesandann, sýna fram á að í raun er svo miklu meira hægt að maður sjálfur telur mögulegt.

Ég mæli eindregið með þessari bók, hún á þó ekki bara erindi við okkur konurnar, heldur ekki síður karla, bæði unga og eldri.

Góð og holl lesning!

The ring road…

Financial Time er eitt besta dagblað sem völ er á.  Þar eru allar fréttirnar, pólitík, viðskipti,frábærir dálkahöfundar og svo það sem ég er ekki síður hrifin af, mjög góð umfjöllun um menningu og lífið.  Ég er áskrifandi af því hér á sprengjusvæðinu.  Yfirleitt kemur blaðið undir hádegi en helgarútgáfan kemur eftir helgi.  Sennilega hefur skammtur helgarinnar komið í gær, en ég fór ekki í póstkassann fyrr en í morgun að sækja hann.

Það var mjög fín umfjöllun um Thatcher og vel farið yfir hennar feril og áhrif á bresk stjórnvöld og heiminn allan.  Og ýmislegt fleira áhugavert bar við augu þegar ég fletti blaðinu.

Rakst á þessa mynd og sá strax að þetta hlaut að vera Ísland.  En þegar ég sá fyrirsögnina skellti ég upp úr.  Við Íslendingar tölum um hringveginn.  Ég hef aldrei spáð í hvernig maður þýðir það.  Hann er þjóðvegur nr. 1 er það ekki?  Stendur það ekki á öllum kortum sem ferðalangar fá?  Gæti hann þá ekki verið kallaður Route nr. 1?

Þeir hjá FT eru ekkert að flækja hlutina, auðvitað heitir íslenski hringvegurinn bara the ring road…mér fannst þetta alveg dásamlegt þar sem ég kláraði síðasta sopann af morgunhressingunni…

Image

Maður getur hafið feril sem sjónvarpskokkur á ýmsan hátt…

Við skoðuðum borga Quito sem er höfuðborg Ekvador á ferðalagi okkar um daginn.  Hún er hæsta höfuðborg í heimi, í 2800 metra hæð.  Ég var aðeins vör með það fyrstu dagana í borginni – aðeins móð og þreytt.  Quito er á heimsminjaskrá, fór þar inn fyrst borga ásamt Kraká, árið 1978. Gamli bærinn þykir afar vel varðveittur og ég naut þess mjög að ganga um þröngar götur og torg og dást að þessu samblandi Inka og spænskra róta. Við tókum margar myndir af borginni og ekki síður mannlífinu þar. Margt kom manni spánskt fyrir sjónir og alls konar sögur urðu til í kollinum á mér þegar ég skoðaði það sem fyrir augu bar.  Þessi maður fangaði athygli mína lengi og við tókum margar myndir af honum og fylgdumst með honum af áhuga.

Hvað er að verða eitt vinsælasta efni í sjónvarpi?  Jói Fel allra landa, Jamie Oliver, Barefood Contessa, alls konar keppni í matgæðinga og amatöra, meira að segja spennuþættir um matreiðslu…yfirleitt eru þessir þættir teknir upp í fínum stúdíum og með lúxusgræjum.  Við þetta bætist svo áhuginn á heilsudrykkjum, heilu vefsíðurnar eru um holla drykki, reglulega les maður um uppáhaldsheilsudrykk þessa og hins í blöðunum…og maður smitast auðvitað sjálfur…fæ mér minn græna drykk á hverjum morgni!

Þessi maður hafði heyrt um þetta eins og aðrir.  Ákvað að skella sér með í hæpið og sýna borgarbúum hvernig ætti að gera almennilegan grænan drykk í sjónvarpinu.  Eða stendur ekki að þarna fari fram sala í sjónvarpi?

Reyndar var hann ekkert í stúdíoi heldur í glugganum á fornfálegri útvarpsbúð og hélt magnaða sýningu með hljóðnema og allt saman um hvernig ætti að gera þetta.  Stór hópur fylgdist með af áhuga.  Þar á meðal ég sem gat ekki slitið mig frá þessu sjónarspili.

Ég get ekki endurtekið öll þau ósköp hann setti í litla blandarann sinn en þar var ekkert óviðkomandi og hann hélt miklar ræður um hollustu hvers hráefni fyrir sig.  Ég var orðin viss um að það væri ógerningur fyrir hann að fá drykkjarhæfan safa út úr þessu og beið eftir því að blandarinn spryngi hreinlega í loft upp!

En það gerðist ekki. Þetta var greinilega maður sem kunni að bjarga sér og ætlaði sér stóra hluti í sjónvarpinu.

Við gengum brosandi á braut.

ImageImage

Ég er að reyna að elska stigann…

Frábær ferð til Ekvador og Costa Rica að baki Við stoppuðum einn dag á Íslandi og svo rakleiðis til Genfar. Við vorum klifjuð farangri að heiman enda frúin loksins formlega að flytja út. Þetta hefur svo sannarlega tekið tímann sinn. Við flugum í tvennu lagi, við kvenfólkið í gegnum Amsterdam, en hann um París. Og auðvitað vantaði eina tösku, skórnir mínir ákváðu að stoppa aðeins í París…en allt kom þetta á endanum. Það er vor í lofti hér og skammt í að hitinn hækki og sumarið láti á sér klæra. Öll borð og stólar komin út á torgum bæjarins og bíða eftir sumrinu. Sé á fréttum að það lætur á sér standa heima á Íslandi en það breytist vonandi brátt með hækkandi sól. Nú er að setja sér ný markmið. Ég þarf að taka mig hressilega taki eftir óreglulegan vinnutíma í mörg ár…og auðvitað fyrir manneskju sem vill frekar sitja og lesa, lét ég það þvælast verulega fyrir mér að fara í sund hvað þá að mæta í ræktina. Ég skal bara segja þetta eins og það er, það er átak fyrir mig að byrja. Og í stíl við annað byrjaði ég á að lesa um alls konar líkamsrækt, skoðaði vefsíður og pantaði mér bækur um jóga, pílates og hvað eina. En hélt áfram með ósiðina, tók bílinn í stað þess að ganga og núna strætó, beygi mig vitlaust og sit í keng. Og auðvitað tek ég lyftina ef hún er í boði. Ég var með skrifstofu á 4. hæð í Alþingi og tók eiginlega alltaf lyftuna. Það var helst ef einhver félagi minn var með mér að ég druslaðist eftir honum niður og upp stigann. Nú bý ég á 6. hæð og þessi fína lyftan niðri. Ég tek hana….og þó…ég skal upp stigann. Hef þegar farið nokkrar ferðir upp stigann hér. Hélt ég mundi deyja á 5. hæð. Fæturnir sögðu nei. Hvað ertu að gera hér gamla? Af hverju notarðu ekki nútímaþægindi og lætur okkur í friði. Ég hata stigann. Mér er hins vegar sagt að ég eigi að elska hann. Einmitt. Það eru alls konar aðrir hlutir sem ég elska framar bévítans stiganum sem drepur mig á leiðinni upp á 5. og ég þarf upp á 6. Hvað erum við að gera svona hátt uppi? Það er ekki nóg með að maður búi á sprengjusvæði lestarstöðvabyggingar heldur þarf maður nú að drattast upp stigann á 6. hæð! Þetta skal lagast. Ég held áfram að þjösnast upp stigann og einn daginn verður þetta ábyggilega allt miklu betra. Læt ykkur vita hvernig gengur…. Ég fer ekki upp stigann þegar ég er með rauðu rúllutöskuna mína, ekki enn að minnsta kosti, og ég er ekki nálægt því að elska stigann…enn.