Himnesk Mið-Ameríka!

Ísland, Bandaríkin, Ekvador, Perú, El Salvador, Costa Rica….það er þegar komið efni í heila Tinnabók og margar aðrar ferðasögur og ýmislegt skemmtilegt á ég núna í pokahorninu.

…ég er á faraldsfæti – kvaddi varla nokkurn mann og eflaust eru margir heima undrandi á því að hafa ekki a.m.k. fengið eitt stutt símtal frá konunni áður en hún fór í margra landa sýn. En svona er þetta – tíminn flýgur áfram og þá er ekkert annað að gera en að fljúga með.

Ég tók ákvörðun um að skrifa ekki á bloggið mitt þessa síðustu vikur í þinginu – það er hreint út sagt svo sérstakur tími og alls ekki í stíl við annað sem mig langar að setja á síðuna mína.

Núna er það Kyrrahafið – þvílík fegurð og paradís – maður í hitnar í gegn.

Þar til næst…adios!

Er ekki best að fara fullklæddur út á morgnanna?

Er of vel í lagt að fara að tala um veðrið?  Læt samt vaða.  Mikið annað svo sem að gerast  á vettvangi stjórnmálanna sem ég væri alveg til í að tala heilmikið um en ég ætla ekki að gera það í dag.

Ég þarf að gera játningu.  Ég er nefnilega ein af þeim sem langar voðamikið að vera almennilega til fara og vel greidd á morgnanna og geng oft til hvílu með slík áform efst á listanum.  Það gengur svo misvel að framfylgja því.  Ég er utan við mig.  Lent í ótrúlegum hlutum eins og því að vera komin út á stétt þegar ég áttaði mig á að það var ekki einleikið hvað mér var kalt – en svo kom svarið – ég hafði bara gleymt að fara í pilsið mitt.  Ég gleymi buddunni í frystikistunni í búðinni – eða keyri alla leið á Hvammstanga og fatta svo að ég hafði hent buddunni í ruslið fyrir utan bensínstöðina í Borgarnesi.  Á ég að lýsa því hvernig það gekk svo fyrir sig að hafa – fyrir mörgum árum stigið inn í bíl fyrir utan leikskólann og komist að því að stýrið var í framsætinu en ég í aftursætinu – með barnalæsinguna á og það sjónarspil að fá nærstadda til að hleypa mér út….og það er miklu meira og neyðarlegra sem ég get varla sagt frá.  Enn þarf að kanna hvort ég geti gengið og tuggið tyggjó á sama tíma….

….en ég hafði heitið sjálfri mér að þingmaðurinn í sæti 13 ætlar að vera fín alveg til þingloka og það þýðir í mínum kokkabókum að ganga í pilsi.  Og hælum líka.  Mér fannst tilvalið að byrja á þessum síðasta kafla í morgun.  Í stíl við annað hafði ég tekið mátulega eftir veðurspánni, mér heyrðist vera talað um kólnandi veður en svo hef ég greinilega farið að hugsa um eitthvað annað og náði ekki meiru í veðurfréttunum.  Kólnandi veður – það er aldeilis lítið mál fyrir íslenska kellu að skella utan um sig heitu kápunni og skálma út í fínu skónum og stutta pilsinu í svoleiðis.

Var syfjuð í morgun eins og alla morgna.  Er típískt B.  Sonur minn kom inn og fór að fjasa um að veðrið væri vont að hann þyrfti kannski að gera bílinn kláran fyrir mig og hvort ég vildi ekki klæða mig vel.  Naumast hann er vel upp alinn, hugsaði ég.  Og hélt mér við mitt prógramm.  Svo, eftir mínar 15 mínútur í snyrtihamnum (neita að vera lengur að gera allt klárt á morgnanna) fór ég fram í forstofu og hitti báða synina áhyggjufulla yfir stöðu mála. Stór skafl fyrir utan dyrnar.

Og viti menn.  Litli bíllinn var líka á kafi í snjó hátt í innkeyrslu í Laugardalnum og mamma alveg fráleit til fara.

Ég skammaðist inn og fór í síðan kjól,  enn stærri kápu, sjal og stigvél sem henta best í réttirnar og gaf allt í botn í bakkgír á litla kút niður Laugarásveginn.  Miðað við að ég vissi minnst um færð á vegum borgarinnar komst ég á ótrúlegum hraða niður á Austurvöll þar sem ég hélt til í allan dag.

Og svo….eins og synirnir hefðu haft áhyggjur af mömmu í allan dag…undir kvöld kom ég svo heim og hvað beið mín í brekkunni nema skóflur og tilbehör og sú gamla keyrði eins og fín frú beint að heim að dyrum!

Í fyrramálið hefst aftur átakið að punta sig í vinnunna.  Því verður haldið áfram allt þangað til að nýr verður kjörinn til að setjast í það ágæta sæti 13 á Alþingi.