Svik og prettir?

Ég veit ekki hversu oft á undanförnum árum ég hef svikið börnin mín um kvöldmat.  Ég tala ekki um hversu oft ég hef ekki komið heim úr vinnunni fyrr en um miðja nótt.  Mér hefur alltaf fundist skipta máli að fjölskyldan borði saman eina máltíð á dag.  Og ég sé um matinn á mínu heimili.  Morgunmanneskja er ég seint enda er ég ekki sú sem stend með svuntuna klukkan 7 og útbý heilnæman morgunmat.  Hjá mér hentar betur algjört hljóð á morgnanna og helst á enginn að tala við mig fyrr en tíu – líklegt að það hafi gengið eftir á stóru heimili…núna sakna ég að heyra ekki litlu fæturna trítla inn í rúm og rífa sængina af mömmu.  Þegar við systurnar vorum stelpur var keppni um það hver væri fljótust á fætur, í sturtu og koma sér út í skólann.  Lengst af var ég sein og eldri systir mín, sem svaf værum blundi þegar ég var að drattast af stað með skólatöskuna á bakinu, hljóp iðulega framhjá mér við sundlaugarnar og endaði með að vera á undan mér í skólann.  Ég náði svo tökum á þessari list með tímanum en litlum sögum fer að því hversu frýnileg ég var og ef svo ber undir er, að morgni dags þegar þessi asi var  á mér.  Nú monta ég mig af því að vera fljótari en hann þegar við eigum að mæta einhvers staðar

En…nú er álagið að minnka og ég ætti að geta skipulagt mig aðeins betur.  Aðeins nokkrir dagar eftir í þinginu og svo er ég rokin á vit nýrra ævintýra.  En í kvöld, þrátt fyrir að hafa talið mig hafa nógan tíma til að kaupa í matinn og elda fyrir mig og strákana – varð lítið um efndir.  Klukkan er rétt að verða níu og þrátt að kvöldmaturinn, sem ég keypti í Melabúðinni hafi verið nánast tilbúinn, er hann fyrst núna að komast á diskana.  Einhverja hluta vegna kvarta þeir ekki, hvort þeir hafa gefist upp á því eða vanist þessu skal ósagt látið.

Ég sit hins vegar við eldhúsborðið – með tölvuna – hóstandi og hnerrandi af því að ónæmiskerfið hefur bara fallið um sjálft sig eftir spennufall helgarinnar.  Það byrjaði með því að ég komst varla á fætur eftir landsfundinn sökum þreytu, svo sögðu fæturnir mér að betra væri að sitja en standa, og loks, þegar allt var komið á sinn stað, kvef og læti.  Eigum við ekki að segja að þetta séu fráhvarfseinkenni?

Úti í útlöndum eru svo tvær stelpur með yndislegri au pair stúlku sem hefur haldið utan um alla þræði þar dögum saman – og á föstudaginn verða þau stórtíðindi að þær koma tvær saman heim – að hitta mömmu sína.

Kveðjuræða á landsfundi

Formaður, fundarstjóri vinir mínir og félagar
Ég er hingað komin til að kveðja.
Ég vil þakka fyrir mig.
Ég vil þakka sjálfstæðismönnum í norðausturkjördæmi sem voru tilbúnir til að veðja á Reykvíking í prófkjörinu 2007 – sjálfstæðismönnum í Reykjavík sem ákváðu að taka á móti mér árið 2009 – og ykkur – landsfundarfulltrúum fyrir að hafa sýnt með það traust að trúa mér fyrir embætti varaformanns í flokknum. Fyrir það er ég þakklát.
Ég ætlaði að vera hér svo miklu, miklu lengur og ganga áfram með ykkur götuna fram að bjartari tímum í sögu þessa lands – sögu sem verður vörðuð bjartsýni og uppbyggingu – þar sem við Íslendingar munum hlúa að nýgræðingnum um leið og við horfum langt fram á veginn til þess þjóðfélags sem við viljum móta hér.
En enginn á nokkru sinni að halda að hann hafi eða eigi að hafa fulla stjórn á elfur lífsins. Það eru fleiri kraftar en minn eða þinn sem stýrir framvindu okkar. Lífið sjálft tekur völdin. Við setjum okkur öll markmið – keppum að þeim og það þarf að vanda sig við öll þau verk sem okkur eru falin. Þegar öllu er á botninn hvolft – alveg sama í hvaða stól hver er – þá er ekkert mikilvægara en hagur fjölskyldunnar – velferð hennar og framtíð – sem er í raun stefna Sjálfstæðisflokksins.
Ég held að það sé okkur öllum hollt að líta aldrei á neitt sem gefið. Við eigum að vera opin fyrir öðru en því sem við er að fást á hverjum tíma. Ég ætla samt að segja við ykkur að það hefur reynst mér í vetur allt að því sársaukafullt að slíta mig í burtu frá ykkur og því sem framundan er á vettvangi stjórnmálanna og Sjálfstæðisflokksins.
Nú er ég farin að skrifa ótæplega um fjölskylduna og um það að flytja með börn og hálffullorðið fólk til útlanda á vefsíðu mína – englunum mínum fjórum til mismikillar ánægju. Ég hef aldrei talað jafnmikið um uppvask og þvottavélar – börnin horfa forviða á – en láta allt yfir sig ganga eins og vant er þegar mamma er annars vegar. Þau bíða róleg eftir að hún komi sér á bólakaf á ný í önnur verkefni.

Góðu vinir
Flokkurinn okkar stendur á tímamótum. Eftir erfitt kjörtímabil horfum við bjartsýn fram að kjördegi og vinnum að því að stefna okkar og hugsjónir fái gott brautargengi. Öllu skiptir að lausnir Sjálfstæðisflokksins verði ráðandi við stjórn landsins á komandi árum. Ég er sannfærð um að með okkar skýru stefnu að leiðarljósi, undir traustri forystu og með okkar breiðfylkingu að baki henni munum við uppskera vel í komandi kosningum. Ef við gætum þess að tala af ábyrgð og festu um hlutina, ef við vörumst gylliboð og skyndilausnir, ef við tölum hreint út um að stundum verði þungt undir fæti, mun smám saman birta til. Fyrirtækin öðlast aftur trú á frekari fjárfestingar, heimilin finna að krónunum fjölgar í buddunni og kaupmáttur eykst, skuldir lækka og nýir vaxtabroddar skjóta rótum um land allt.
Þetta gerist með traustum aðgerðum á sviði efnahagsmála sem snúa að því að byggja undir hagvöxt í landinu, skapa svigrúm fyrir erlenda fjárfestingu og styrkja gjaldeyrisöflun og síðast en ekki síst með því að lækka skatta á fyrirtæki og heimili. Við megum engan tíma missa við að brjótast út úr þeim hörmungar haftabúskap sem hér hefur náð undirtökum í stöðugt hertum reglum Seðlabankans sem bitna mest á venjulegum íslenskum fjölskyldum sem sig hvergi geta hreyft.
Vinir mínir.
Verkefnin sem bíða eru mörg og stór en ekkert þeirra er mikilvægara en að tryggja stöðu heimilanna – Ég ítreka mikilvægi þess að skattar verði lækkaðir á heimilin.
Mikilvægasta aðgerðin til að mæta vanda heimilanna og auka slagkraft þeirra er á sviði atvinnusköpunar og skattalækkana.
Hvað eru almennar aðgerðir? Hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að byggja undir hagvöxt? Hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að auka kaupmátt og hvaða aðgerð getur verið almennari en sú að lækka tekjuskatt á heimili og fyrirtæki.
Við þurfum að lækka skatta.
Ágætu landsfundarfulltrúar,
En það er fleira. Við verðum að huga vel að opinberri umræðu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum undir trumbuslætti og mótmælaöldu. Reiðin var mikil í upphafi árs 2009 og stór orð voru látin falla um menn og málefni. Jóhanna leyfði sér reyndar í stefnuræðu vorið 2009 að setja upp leikrit fáránleikans um að hennar nýja ríkisstjórn væri boðberi nýrra vinnubragða, sátta og samlyndis. Þegar litið er til baka er það allt að því ósvífið að hún skyldi hafa látið slík orð falla enda hefur þetta kjörtímabil litast af harkalegri umræðu, ofstæki og síðast ekki síst ofsóknum eins og við þekkjum af aðförinni að okkar fyrrverandi formanni í Landsdómsmálinu. Þeirra skömm er ævarandi.
Því miður virðist ekkert lát á þessu. Ég hef áhyggjur af vaxandi persónulegum árásum og á köflum heift í opinberri umræðu hér á landi.
Það virðist vera orðið viðurkennt sums staðar að minnsta kosti að það sé sjálfsagt að svara gagnrýni með upphrópunum og oft á tíðum óþarfa árásum á fólk.
Bloggið er á margan hátt merkilegur miðill. Nú er ég að rannsaka það töluvert – ekki síst eftir að ég byrjaði að skrifa þar sjálf og um aðra hluti en stjórnmál. Áberandi er að orðfærið sem viðgengst á sumum bloggmiðlum virðist einskorðað við stjórnmálamenn og opinberar persónur.
Það er vissulega rétt að þeir sem eru í kastljósi fjölmiðla eiga svo sannarlega von á því að fá á sig gagnrýni af ýmsum toga og þeir eiga ekki að veigra sér undan því. Það er hluti af starfi stjórnmálamannsins. En þegar það er nánast stanslaust ráðist á nafngreinda einstaklinga með ljótu orðfæri og meiðandi ummælum er of langt gengið. Við eigum ekki og getum aldrei sætt okkur við þann sóðaskap sem viðgengst og við eigum að grípa til varna – og segja hingað og ekki lengra. Við höfum séð hvernig ítrekað hefur verið ráðist með svívirðingum að félögum okkar. Við höfum séð hvernig látlaust er barið á formanni okkar, Bjarna Benediktssyni í ákveðnum fjölmiðlum með óvægnum og ósanngjörnum hætti. Við eigum öll að andæfa og fylkja okkur að baki formanni okkar sem hefur það vandasama verk ásamt öðrum í forystu flokksins að leiða hann í gegnum kosningar. Við skulum átta okkur á því að árásir á hann – eru árásir á okkur – árásir á Sjálfstæðisflokkinn.
Mér ofbýður þetta og ég vil ekki – og neita – að sætta mig við að svona eigi hlutirnir að vera.
Það er eðlilegt og raunar nauðsynlegt að setja fram gagnrýni á fólk út frá málefnalegum rökum og með siðuðum hætti. En við sjálfstæðismenn skulum aldrei láta það viðgangast að umræðan sé færð niður á plan persónuleg árása og rógs. Við verðum að vera yfir slíkt hafin og við skulum svara þessu með því að gera nákvæmlega það, beita rökum og halda okkur við efni máls.
Það er mikil hætta fólgin í því að hleypa opinberri umræðu ofan í slíkar skotgrafir sem við höfum hér orðið vitni að. Og já, þótt að mörgum ykkar finnst eflaust að ég eigi ekki að tala um kommentakerfi, samskiptamiðla og bloggsíður þá vil ég gera það af því að þetta hefur áhrif á hvernig umræðan hér þróast. Hættan er nefnilega sú að þessi þróun dragi úr vilja fólks til að setja skoðanir sínar fram og standa fyrir þeim á opinberum vettvangi. Að fólk hreinlega veigri sér við því að blanda sér í opinbera umræðu. Við kjörnir fulltrúar á Alþingi erum ýmsu vanir og ekki síst undir lok þessa kjörtímabils. En við þurfum miklu breiðari umræðu hér um einstök mál og sú umræða má ekki einskorðast við kjörna fulltrúa Alþingis og sveitarstjórna. Við þurfum breiða þjóðfélagslega umræðu um þjóðfélagsmál og það má ekki verða þannig að venjulegu fólki finnist hreinlega ekki borga sig að taka þátt í henni.
Þess vegna segi ég við ykkur góðu félagar að við skulum öll gæta að okkur og tala skynsamlega við og um andstæðinga okkar og berjast á móti þeim sem telja hag sinn felast í því að ráðast á náungann með árásum og dylgjum..
Landsfundargestir
Í árdaga íslenska lýðveldisins sagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins Ólafur Thors:
„Okkur er vel ljóst, að aldrei hefur meiri vandi beðið okkar né jafn mikið í húfi. – En við kvíðum þó engu. Við vitum vel, að saga okkar er ekki fyrst og fremst sigrar heldur barátta og þrautir. Með festu og alvöru viljum við enn takast á hendur ábyrgðina og þar með erfiðið, sem fram undan er. – Við minnumst þess, að með hverjum nýjum sigri í sjálfstæðisbaráttunni hefur þjóðinni vaxið þrek og djörfung og treystum því að sú muni raunin enn verða. Og við vonum að bera gæfu til að eyða misklíðinni og skipa okkur sem allra flestir í lífvarðarsveit hins unga íslenska lýðveldis.”
Það er hlutverk Sjálfstæðisflokksins, að eyða misklíðinni, sýna Íslendingum að saman getum við aukið hagsæld, að standa saman í þágu allra Íslendinga og í þágu allra heimila. Við sjálfstæðismenn treystum fólkinu í landinu en andstæðingar okkar byggja allt sitt á tortryggni, sundurþykkju og vantrausti. Við höfnum sundurslyndisfjandanum en trúum á samstöðu þjóðarinnar. Við sjálfstæðismenn vitum að þjóð sem reynir að skattleggja sjálfa sig út úr efnahagslegum þrengingum nær ekki árangri frekar en maðurinn sem stendur í fötunni og reynir að lyfta sjálfum sér upp með því að toga í handfangið.
En fyrst og fremst erum við sjálfstæðismenn fullir bjartsýni enda sjáum tækifærin í hverju horni, ólíkt vinstri mönnum sem fullir svartsýni sjá hættur í öllum tækifærum.
Við sjálfstæðismenn þekkjum styrkleikann í því að sameinast sem eitt – jafnvel þótt ekki séu allir sammála. Þannig höfum við haft það hér í okkar flokki. Við erum ekki endilega sammála um allt – og þurfum alls ekki að vera það – en við deilum grundvallarlífsskoðunum og í krafti þeirra sækjum við fram. Þar liggur styrkleiki og breidd Sjálfstæðisflokksins – því skulum við aldrei gleyma.
Við sem hér erum, og þúsundir sjálfstæðismanna út um land allt, höldum áfram að sækja fram, við berjumst fyrir réttlátu samfélagi og við vitum að framundan er betri tíð með blóm í haga. Við ætlum að horfa fram á veginn, vinna þjóðinni gagn og búa þannig í haginn að unga fólkið í landinu geti gert markvissar áætlanir með framtíð sína hér á landi.

Ég þakka aftur fyrir þann stuðning sem þið hafið sýnt mér síðustu ár og um leið vil ég óska nýrri forystu flokksins velfarnaðar og alls hins besta. Við skulum öll fylkja okkur að baki þeim og við skulum öll taka upp kyndilinn og lýsa veginn fyrir þjóðina.
Takk fyrir allt, kæru vinir. Ég færi mig yfir í bakvarðasveitina.

20130225-143227.jpg

Tíkin og kynslóðirnar.

Fyrir löngu síðan skrifaði ég pistil á vefsíðu sem hét tikin.is. Það voru flottar ungar hægri konur sem héldu henni úti. Þær eru reyndar enn ansi flottar! Þá var ég enn róleg á hliðarlínunni í Sjálfstæðisflokknum þrátt fyrir að hafa verið í honum frá 18 ára aldri og lengi verið í bakvarðasveit vina minna þar. Mér þótti vænt um að þær skyldu bjóða mér að vera gestapenni og ég vandaði mig við að skrifa um það sem mér fannst þá ansi merkilegt – og finnst enn dálítið spennandi þótt með öðrum formerkjum sé. Mig minnir að ég hafi kallað pistilinn aðalkynslóðina. Og tilvísunin var í að ég var þá rúmlega 35…sennilega aðeins meira…og vinir mínir úr skóla voru komnir út um allt þjóðfélag. Við vorum ekki lengur krakkabjálfar. Við vorum foreldrar – ráðsett – og bráðum yrði okkur treyst til að bera upp landið og leyfa foreldrum okkar að setjast í helgan stein. Fyrir fólk eins og okkur sem ung fórum að eiga börn, kaupa bleyjur og bæta við fleiri börnum, hamast í námi og fara svo til útlanda með ungabörn til að læra enn meira…var notarlegt að finna að einn daginn voru vinir okkar líka komnir heim og sestir að á skrifstofu til að taka að sér það hlutverk að bera burðarvirkið uppi svo yngri kynslóðir gætu síðar komið og tekið við. Það er nefnilega svo merkilegt; hjá mér var það einhvern veginn þannig að einn daginn varð ég fullorðinn. Vandinn er samt sá að ég hef eiginlega aldrei alveg getað tekið það alvarlega!

Ég hugsa oft um þetta. Ekki bara út frá þessum vinkli, þótt mín kynslóð sé enn með kyndilinn að hluta með þeim sem á undan og eftir koma og við þekkjumst hingað og þangað eins og við öll Íslendingar gerum. Heldur einmitt út frá því – að við þekkjumst öll einhvern veginn. Og það er dásamlegt.

Í kvöld var ég í skemmtilegu afmælisboði. Þar var fólk af ýmsum kynslóðum en klárt mál er að þau sem stóðu afmælisbarninu næst, hvort sem litið er rétt ofan við eða neðan, þekktust vel. Mér líkaði það stórvel og þá datt mér þessi litli pistill minn í hug.

Það sem stóð upp úr er hvað það er gott að koma inn í hóp fólks sem þykir gott að vera saman jafnvel þótt maður sjálfur sé af annarri kynslóð…á Íslandi.

við hin sitjum á Horninu….

Image

Nei, þetta er ekki matarblogg og nei, ég var ekki að elda lasagna.  En…ég fór á Hornið í kvöld með fólkinu mínu sem verður skilið eftir hér heima á Íslandi.  Sem skammar hann fyrir að taka mömmu frá sér.

Ég hef verið löt að skrifa á síðuna mína undanfarna daga af því að það hefur verið stanslaus gestagangur og fjölskylduboð alla vikuna enda þau í Svissi öll heima.  Þær nutu svo sannarlega að vera hér í vetrarfríinu og sú stutta var ánægð með að vinkonurnar mundu enn eftir henni – í huga barnsins eru 6 mánuðir eins og eilífð og allt eins líklegt að allt væri gleymt og grafið.  Svo þrátt fyrir allt fór hún með sólskinsbrosið sitt út aftur og hlakkar til að hitta vinkonur sínar þar – vitandi að hér heima verður allt í lagi á þeim vígstöðvum.

Okkur hinum datt sem sagt í hug að hittast á Horninu í kvöld og borða pizzu og lasagna.  Þetta er einn af okkar uppáhaldsstöðum og við höfum borðað þar allt frá því að við vorum bara á tveggja manna borði.  Svo höfum við smátt og smátt fært okkur á stærra borð og ef allt er með eðlilegum hætti sitjum við á stóra borðinu en það þurfti ekki núna.  Þessir blámáluðu gluggakarmar og miðevrópskir kaffihúsastólar eru svo notarlegir og ekki síst að ganga að því vísu að ákveðnir hlutir eru alltaf á matseðlinum.

Það er svo notarlegt að koma á kunnuglega staði þegar lífið er á fleygiferð breytinga og nýrra tækifæra.  Þessi vika er nefnilega svokölluð landsfundarvika hjá okkur og um næstu helgi lýkur formlega þessum kafla og nýr fer óðum að hefjast.  Núna sit ég við eldhúsborðið og spekúlera í ræðuhöldum því þótt manni hafi stundum þótt nóg um ræðuhöldin hef ég óhemjulega gaman að því að semja og hugsa ræður….

að osta brauðið

Við erum í nýorðasmíð.

Fyrir margt löngu þótti það skemmtilegt að ég – þá smábarnið – vildi sveigja tungumálið – talaði ég til dæmis um að smjöra brauð en ekki smyrja. Sumum fannst þetta rökrétt og um þetta var rætt. Ég skildi ekkert í þeim lærðu samræðum. Það var hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem mér finnst ég varla fylgjast með þegar fólk talar saman. Hvort það er athyglisbrestur, áhugaleysi eða hreinlega eitthvað enn alvarlega læt ég liggja á milli hluta.

En þessar áratugagömlu samræður komu í huga mér í morgun.

Dóra, sem reyndar er að læra ensku núna sem sitt námsmál, og svo frönsku til viðbótar – við höldum íslenskunni hátt á lofti heima og í bókum fyrir svefn á kvöldin – ákvað að hún væri orðin svo stór að hún gæti sjálf útbúið dýrindis morgunmat.

Það var brauð með smjöri og osti.

Þegar ég kom inn í eldhús var hún að leggja lokahönd á morgunverðinn sinn.

Sjáðu mamma, ég gerði allt sjálf, ég meira að segja ostaði brauðið!

Dóttir mín?

Bolla bolla….

Bolludagur að kveldi kominn. Ég vaknaði í morgun og fann mikla pressu….bollur í öll mál….vatnsdeigsbollur, fiskibollur, kjötbollur…

Hann tilkynnti að það væri langbest að hafa fiskibollur í kvöldmat. Vinkonur mínar í mötuneytinu í vinnunni voru á sömu skoðun, fiskibollur í hádeginu.

Ég hugsaði með mér hvenær það væri rétti tíminn fyrir mig að segja heimilisfólki frá því – eins og ég geri árlega – að mér er illa við þetta bolluát. Kannski er það orðið bolla sem hefur þessi áhrif á mig. Ég kann bara ekki að meta þetta og nenni ekki að taka þátt í lærðum samræðum um vatnsdeigsbollur og gerbollur. Ekki heldur ufsabollur vs ýsubollur.

úff.

Það voru vatnsdeigsbollur á öllum fundum í dag. Ég fékk mér enga. Það er reyndar í fyrsta skipti sem það gerist, fram til þessa hef ég leikið hópsál og troðið í mig hálfri bollu en núna bara sagði ég pass. Var nokkuð ánægð með mig.

Fiskibollurnar tóku yfir hugsanirnar á leiðinni heim í kvöld. Ég hreinlega kveið fyrir að steikja fiskibollur og háma í mig. Hvað ég gladdist óumræðanlega að sjá kjúkling á borðinu þegar ég gekk í eldhúsið. Einhvern veginn hafði hann áttað sig á gömlu sinni og 20 ára hjónaband skilar sér í hús. Við vorum með dýrindis kjúklingarétt og brauðbollur með!!!!

Nú er það Sprengidagur á morgun. Ég kvíði fyrir því líka. Saltkjötið er bragðgott en hvað það hlammar sér í mallakút!

Ég held mest uppá Öskudaginn. Sakna þess samt ægilega að sjá enga krakka niðri í bæ laumast með öskupoka….

Engar reglur – allt í gangi!

Ég kom heim til Íslands í gærkveldi.  Þau komu á undan mér – skólafrí hjá stelpunum svo við verðum öll heima saman næstu vikuna.  Mikil gleði í kotinu í Laugardalnum.  Ákvað að láta renna í bað eftir miðnætti, setja uppþvottavélina í gang og þvottavélina líka.  Ekki það að mér finnist sérstaklega gaman að þvo þvott á nóttinni um helgar – það var frekar það að mega setja vél í gang….

….það er  búið að kvarta undan okkur á sprengjusvæðinu.  Ekki einu sinni, heldur tvisvar.  Við vorum nefnilega lengi að læra að það er ekki ætlast til þess að setja þvottavélar í gang eftir 10 á kvöldin.  Ég er frekar lengi að ganga frá í eldhúsinu svo það er frekar regla en undantekning að vatnið fari að renna í vélinni seint á kvöldin.

En ekki í Genf.  Þeim á neðri hæðinni er illa við það.  Ekki heldur í bað.  Hvað þá að setja Ellu í fóninn og stilla hátt….ég þurfti að reka mig á.

Eftir að kvartanirnar bárust hef ég verið alveg á iði að klára öll húsverk snemma og negla enga nagla um helgar.  Hleyp eftir heimilisfólkinu og fer öll af taugum ef allt er ekki í ró og spekt á 5. hæðinni okkar.  Enda ástæða til.  Þau niðri héldu boð um daginn – nokkrir gestir milli 6 og 8 – og það var settur miði í alla póstkassa þar sem við vorum beðin um að afsaka þetta umstang.  Aumingja fólkið að búa undir okkur, hugsaði ég, ef þeim finnst nauðsynlegt að vara við smávegis umgangi í tvo tíma.  Og fór að hafa enn meiri áhyggjur af hávaðanum í okkur.

Ég hef alltaf verið hrædd að gera eitthvað af mér og fá fyrir  skammir.  Ég er hrædd við lögguna og yfirvaldið.  Ég var hrædd við skólastjórann þegar ég var krakki og gleymi aldrei þegar ég gekk alltof langt í tíma í Laugarlækjarskóla og var dregin á stóru eyrunum til skólastjórans.

Ég lét það ekki gerast aftur.

Beckham stingur mig af!

Beckham stingur mig af!

Mér hreinlega brá að lesa þessa frétt. Maðurinn er ekki fyrr búinn að skrifa undir fótboltasamning í París og gefa frá sér launin sín að hann er farinn að læra frönsku!

Og Viktoría, hún er ekki í vandræðum hinu megin sundsins – elur upp 4 börn og byggir tískuveldi í leiðinni….las líka um Stellu McCartney sem segir hætt að eiga börn – 4 séu nóg á milli þess sem hún stýrir stórveldi sínu á sviði tískunnar….úff. Það er bara óhollt að lesa um þetta ofurfólk.

Ég verð grenilega að athuga minn gang. Enn með annan fótinn á Íslandi, enn hálf í vinnunni þar, enn mállaus og ekkert að frétta og enn alveg týnd í því hvað ég eigi að gera hér í Genf.

Ja, svei mér þá. Ég þarf að taka til hendinni….

C’est une catastrophe!

bygg

Dóttur minni finnst ég brosa allt of mikið í allar áttir…og tala of hátt.  Hún er alveg á móti því að ég rembist við að segja nokkuð orð á frönsku.  Merci finnst henni meira að segja of mikið.

“Þú kannt ekkert mamma – segir þetta alveg vitlaust”

Ég skipti mér ekkert af því og held áfram að æfa mig í merci.

Nú segir hún mér að fólk tali bara ekki svona út á götu við ókunnugt fólk og dregur í efa að konan talað við mig að fyrra bragði um lestarstöðinna um daginn.  Hér vill fólk vera í friði mamma, segir hún.  Rétti mér meira að segja sönnunargagn, Everything you need to know about Swiss people.

Þar stendur:

“It is quite possible to spend two hours in a Swiss train in front of somebody your age and he or she will not dare strike up a conversation. It is not that your traveling companion wouldn’t enjoy talking with you, but the idea of starting a conversation with a stranger seems unnatural….”

Svo mörg voru þau orð og ef svip dótturinnar að dæma á ég framvegis að sitja í strætó hreyfingarlaus og líta hvorki til hægri né vinstri og hreint ekki brosa til fólks sem ég mæti á götu.  Hætta líka að æpa í símann á íslensku….  Og þetta með konuna sem óð á mig hefur sem sagt verið algjör undantekning.

En aha! Í morgun hitti ég aðra konu.

Ég ákvað að það væri rétt að rannsaka sprengjusvæðið.  Og taka myndir.  Ég tók nefnilega eftir því út um gluggann hjá mér að það var risinn turn á byggingasvæðinu.  Þetta þurfti að rannsaka.  Skoðaði turninn frá nokkrum hliðum og ákvað að þetta væri steypustöð.  Hún hefði sómt sér vel í höfuðstöðvum BM Vallár þótti mér.

photo

Augljóst að hér eru miklar stórframkvæmdir á ferð.  Í stíl við innfædda – skipulagshæfileika or röð og reglu sbr. Everything you need to know about Swiss people, er steypuapparatið hreint og fínt og vinnusvæðið vel afmarkað.  Ég mundaði símann minn, tók ekki myndavélina með í þetta sinn, og byrjaði að taka myndir.

Þá heyri ég á bak við mig orðaflaum á frönsku.  Ég leit við og þar stóð kona – eldri kona með hlýlegt augnaráð – og baðaði út höndunum.  Ég sagði bara oui, benti sjálf á byggingasvæðið og hristi höfuðið með miklum leikrænum tilburðum.  Taldi mig hafa afgreitt þetta samtal og snéri mér aftur að myndasmíðinni.  En hún hélt áfram og við blasti að ég varð að viðurkenna fyrir henni að ég skildi ekki hvað hún sagði og baðst vægðar á ensku.

Þessi kona reyndist ekki hafa minni áhyggjur af stöðu mála en hin.  Þessari leist ekkert á þetta brambolt í borgaryfirvöldum. Hún sagði að hægt væri að lýsa þessum ósköpum í einu orði – og einu gildi hvort það væri á ensku eða frönsku.

It is a catastrophe!

Oh, well….