Ég er kelirófa…um kossa, faðmlög og hvíta víkinga.

2014-10-01 10.55.13

Nú er brátt komið vel á þriðja mánuð frá því að líf mitt umturnaðist svo eftirminnanlega. Og fram til þessa hefur þetta gengið að óskum og mér líður bara vel. Það eru þrjár lyfjameðferðir, eða dælingar eins og ég kalla þær, að baki og þrjár eftir. Þau vandkvæði sem ég hef orðið fyrir eru þau helst að víkingarnir í hvítu blóðkornunum og blóðkornin sjálf hafa fallið um of og það hefur þýtt að ég hef nánast verið í einangrun hér í húsinu mínu í Laugardalnum.

Víkingarnir eru fyrstir á vettvang ef pest er yfirvofandi svo án þeirra er ég viðkvæm fyrir og verð að pakka mér í verndarhjúp. Ég lít á þessa árás lyfjanna sem jákvæðan hlut, lyfin eru svo sannarlega að ráðast á frumur líkamans!

Í stað þess að þeytast út um allan bæ og gæta þess að missa ekki af neinu, er ég heima. Og í stað þess að leggjast í lestur…einbeitingin ekki alveg upp á það besta…fór ég að hekla. Í stað þess að spekúlera hvað væri að frétta um víða veröld og hér heima….fór ég að hugsa um allt milli himins og jarðar öllu hversdagsamstri óviðkomandi. Í stað þess að skipuleggja lífið út í ystur æsar, læri ég að njóta.

Það sem ég geri ekki, hins vegar, er að faðmast og kyssast. Til þess eru hvítu vikingarnir og fáir og pestirnar of margar.  Mér finnst það samt eiginlega verst.  Ég er nefnilega kelirófa. Ég vil helst hlaupa upp um hálsinn á vinum mínum og kyssa þá rembingskoss þegar ég sé þá. Mér finnst gott að halda í höndina á þeim sem mér þykir vænt um. Mér finnst mannleg snert, hlý, gefandi og góð. Alltaf verið svona.

Ég finn samt hlýjuna gegnum rokið sem bylur núna á húsinu mínu, gegnum ólýsanlega strauma frá fólki allt í kringum mig, bréf kveðjur, og gegnum tæknina sem okkur finnst stundum ósköp tímafrek og þreytandi en er núna eins og lítill farvegur héðan út.

En ég hlakka til að taka utan góðan vin einhvers staðar á Laugaveginum á aðventunni…og smella honum rembingskoss.

Frú eyrnastór er mætt!

2014-09-10 20.11.16

 

Það var fjöldamargt sem mér þótti athugavert við sjálfa mig þegar ég var stelpa. Allt of mjó, allt of lítil, allt of ljót, allt of feimin, þykk, þung og ljót gleraugu…og það sem mér þótti verst af öllu, með ALLT of stór eyru. Á tímabili vildi ég, ekki orðin 12 ára, fara í aðgerð og láta laga svo hitt og þetta, en númer eitt, tvö og þrú, laga á mér eyrum, líma þau aftur. Svo ég mundi aldrei aftur þurfa að svara stríðnisröddunum því að jú, ég get flogið á eyrunum, en því miður, tek ekki farþega!

 

Smátt og smátt sættist maður svo við allar misfellurnar, a.m.k. hvað útlitið varðar og vandræði bernskunnar víkja fyrir annars konar áhyggjum og við tekur ævilöng barátta við innri vankanta.

 

Eitt það fyrsta sem ég hugsaði um þegar í ljós kæmi að hárið á mér væri í þann mund að yfirgefa mig, var hvernig þetta yrði með eyrun. Það var þá ekki farið fjær huga mínum en svo, að 47 ára gömul konan fór að hugsa um eyrun sín og þau færu að standa út í loftið henni til mismikillar ánægju. Álfar og huldufólk, kynjaverur, þjóðsagnapersónur alls konar fóru að sækja á mig, alveg tilviljunarkennt en samt alltaf kringum þetta sama stef. Eyrun. Ekki þar fyrir að þjóðsögurnar eru mér alltaf kærar en í þessu tilviki það miklu frekar að þessi tenging sem er í huga okkar milli álfa og eyrna svo ekki sé talað um álfana í Hringadrottinssögu.

 

Nú er sem sagt álfurinn ég kominn í ljós. Eftir að hafa lokið þriðjungi af lyfjameðferðinni birtist hann. Og þótt að mér hafi lítið þótt til um þetta þegar ég var lítil stelpa, kann ég ljómandi vel við stóru eyrun núna.

Klisjurnar

himininn

 

Ég hef verið að hugleiða klisjur og klisjukennd orð. Mér finnst flest af því sem í huga minn kemur þessa dagana vera frekar klisjukennt, það er ekkert nýtt undir sólinni. Og þegar áföll dynja yfir færa klisjurnar gjarnan sannleikann heim. Það er líka hægt að líta á orðtök og málshætti og segja að boðskapur þeirra sé klisjukenndur. Maður er manns gaman er einn af þeim. Margar hendur vinna létt verk. Hver er sinnar gæfu smiður. Að láta hvern dag nægja sína þjáningu. Í skáldskap finnum við líka alls kyns sannleik, Einar Benediktsson minnti okkur á að aðgát skuli höfð í nærveru sálar og Jónas minn orti varla nokkurn skapaðan hlut án þess að það snerti við manni.   Hér er partur úr broti sem ég held upp á.

 

….

Augun raunar eru þín

upplitsbjarta stúlkan mín

hitagler ef hlýna

 

sólargeislum innan að

ég er búin að reyna það

safna þau, svo brímabað

brennir vini þína

 

Vinátta, hlýja og félagsskapur er nokkuð sem við öll þurfum á að halda. Miklu meira en nokkurt okkar vill viðurkenna, held ég. Eða svo ég tali bara fyrir sjálfa mig af því að það er öruggara, miklu meira en ég hélt. Síðustu vikur hef ég verið umvafin vinum, kunningjum og meira að segja ókunnugu fólki sem hefur veitt mér ómælda hlýju og skemmtilegheit. Gegnum kveðjur, símtöl, vinskap, falleg sendibréf og heimsóknir hef ég safnað mér orku og krafti sem ég nú beiti til að takast á við lyfjameðferðina sem ég nú stend í. Eitrið í lyfjunum læsir sér um líkama minn og bægir í burtu þessum óboðna gesti sem ég ætla að senda út í hafsauga. Og eitrið vinnur sína vinnu hægt og bítandi, losar mig við hárið á höfðinu og veldur tímabundinni þreytu. Dregur mann niður, um stund, svo hægt sé að byggja aftur. Enn ein klisjan, upprunnin í heilögu orði, maður reisir hús sitt á bjargi, en ekki sandi.

 

Í miðju þessu kófi líður manni upp og niður. Verst þykir mér hvað ég er löt að lesa. Það bíða alltaf nokkrar bækur á borðinu en einbeitingin ekki enn alveg eins og hún á að vera. Það hlýtur að lagast hægt og bítandi. Á meðan hlusta ég á Góða dátann Svejk í græjunum,brosi og hlæ. Hann er auðvitað skyldulesning á hvert heimili, reglulega.

Óboðinn gestur – baráttan við óvænt veikindi

himininn

Lífið getur breyst á einu augnabliki. Við vitum það flest en trúum því samt ekki að neitt hendi okkur sjálf. Ég held sem betur fer.

Við vorum á leið í brúðkaup á Íslandi fyrir örfáum vikum og síðan var ætlunin að hefjast handa við flutninga frá Genf til New York. Praktísku atriðin voru komin á gott skrið, skólamál, íbúðarmál…allt hefðbundin verkefni sem fylgir því að flytja milli landa. Alpalandið var kvatt með söknuði í bili og við hlökkuðum til að takast á við nýjar áskoranir.

Þá tóku æðri máttarvöld í taumana. Ég ákvað að fara til læknis við komuna heim af því að ég var orðin svo mikil um mig miðja frekar skyndilega. Á örskotsstundu skiptu fyrri plön engu máli, hversdagslegu verkefnin víkja núna fyrir þeirri stærstu áskorun sem ég hef staðið frammi fyrir. Óboðinn gestur hafði nefnilega sest að innra með mér.

Ég er nýlega komin úr uppskurði þar sem, gesturinn, illkynja æxli, var fjarlægður og nokkurra mánaða lyfjameðferð er hafin. Öll fjölskyldan er sameinuð hér heima á Íslandi og hér verðum við í vetur og tökumst á við afleiðingar þessa óboðna gests sem vonandi verður endanlega skolað niður í lyfjameðferðinni. Ég hef fulla ástæðu til bjartsýni þegar þeim kafla lýkur. Fram að þessu hefur allt gengið á áætlun, meira að segja hárið sem fýkur af mér í þessum töluðu orðum og í fyrramálið ætla ég sjálf að losa mig við afganginn af því – það verður hressandi að láta íslenska síðsumarið leika um kollinn minn.

Manni bregður við svona tíðindi. Enginn á von á því að svona nokkuð hendi sig. Og það er gott. Ég ætla ekki að velta mér upp úr þessum veikindum en ég ætla hins vegar að sigrast á þeim. Ég finn um leið hvað jákvæðni og stilltur hugur skiptir miklu máli þegar áföll ríða yfir. Að reyna að ná stjórn á hugsunum sínum og laða fram það jákvæða í lífinu hjá mér sjálfri og öllum þeim sem eru í kringum mig.
Þannig ætla ég að nálgast þetta stóra verkefni sem mér hefur nú verið falið að glíma við.

Verst þeir tala ekki frönsku í New York!

Engum sögum hefur farið af afrekum mínum í bloggskrifum undanfarið. Ég er sennilega lélegasti bloggari sögunnar. Þrátt fyrir það hef ég ekki viljað loka litlu síðunni minni því eins og allir vita er batnandi manni best að lifa.

 

Lengst af skrifaði ég um lífið í Genf, breytingarnar sem urðu hjá mér og fjölskyldunni við að flytja til útlanda og koma sér fyrir á nýjum stað. Það er nú vel á annað ár síðan ég kom hingað, þau komu á undan mér. Í ljósi þess hvað ég er treggáfuð, hef ég alveg fram á þennan dag verið að venjast þessum breytingum og er enn leitandi með hvað ég vil taka mér fyrir hendur í framtíðinni.

Og kannski þess vegna myndaðist bloggstíflan…hvað nennir maður að skrifa mikið um það?

 

En geti stífla brostið skyndilega, þá brast þessi með miklum bravör.  

 

En….ég er sem sagt farin að kunna býsna vel við mig hér í miðri Evrópu og farin að kunna betur á hvernig þeir heimamenn vilja hafa hlutina….og þá er best að flytja!  Nú tekur við næsta vers hjá mér og litla samfélaginu mínu.

 

Flutningur til NY í sumar, nýir skólar fyrir stelpurnar, ný íbúð (vonandi utan sprengjusvæðis) og nýtt samfélag!

 

Nú er það að pakka niður, safna saman yndislegum minningum héðan og setja í box, setja allt dótið í gám og halda á vit ævintýranna.

 

í ljósi þess að þeir tala ensku í NY er eins gott að ég hef verið að læra að tala frönsku…spurning um að halda áfram frönskunáminu þar?

 

 

 

Ég er háð sms skilaboðum…sem berast ekki!

Það kemur í ljós að ég er meira en lítið háð síma og tölvu.  Ég þarf núna að horfast í augu við að vera sannkallaður símafíkill og það sem verra er, sms fíkill á háu stigi.

 

Þeir í alpalandi eru með föst tök á sínu daglega lífi.  Og mínu.  Þeir stýra nú interneti heimilisins með harðri hendi og hafa ekki enn afhent mér háhraðatenginguna sem þeir lofuðu þó í desember.  Það er óvenjulegt, af því að yfirleitt stendur allt eins og stafur á bók og rúmlega það.  Skýringin er ágreiningur milli leigusala og alpasímafyrirtækis og mér er sagt að blanda mér ekki í það. 

 

Á meðan bý ég við gamaldagshraða á interneti og hef raunar vanist því ágætlega.  Þegar umferðin er mikil geri ég eitthvað gagnlegra en að góna á fréttir og fylgjast með öðru fólki, hef til að mynda lesið sérstaklega mikið undanfarnar vikur.  Og nú síðast, meðan lætin stigmagnast á Íslandi, hef ég notið mín við lestur á góða dátanum Svejk.  Sem er auðvitað skyldulesning á nokkurra ára fresti.

 

En, hann dugir mér þó ekki alveg, frekar en bækurnar sem bíða á borðinu mínu.  Mig langar að senda sms skilaboð og fá svar við þeim. 

 

Því hefur alpasímafyrirtækið hafnað.  Það sendir mín en segir þvert nei við að senda mér svörin.  Ég hef ekki komið að neinum mótbárum eða komist neitt áfram með að fá skýringar á þessu vandamáli. 

 

Þetta vandamál lét fyrst á sér kræla í sumar, versnaði svo í haust. Undir jól var allt í frosti og ég byrjaði að kvarta.

 

Þú hefur ekki fengið nein skilaboð frá Íslandi, segja þeir.  Öllum skilaboðum sem til þín hefur verið beint, og þau eru öll úr okkar eigin símakerfum, höfum við komið til þín,  með einkar skilmerkilegum hætti.  

 

En ég veit ég fékk skilaboð í morgun, malda ég í móinn, ég skal gefa ykkur upp númerið….

 

En allt kom fyrir ekki.

 

Þá fór sá sem tekur stórar ákvarðanir að blanda sér í málið og varð lítið ágengt.  Og þó…vandamálið virtist óþekkt, líklegast að fólkið á Íslandi kunni ekki að senda sms skilaboð til annarra landa. 

 

Er fólkið með rétt númer? 

 

Ég var við það að gefast upp og sagði við sjálfa mig undanfarnar vikur að ég yrði að hætta að hugsa um sms og ekki síst þau sem ég hafi ekki fengið og allt það sem ég hefði misst af í one liner-um. 

 

Þá hringdi loksins “hotline” alpafyrirtækisins í kvöld og  viðurkenndi loks að þetta væri óskiljanlegt vandamál.  Engar heilbrigðar skýringar væru fyrir hendi og þau væru hreint út sagt ráðþrota.

 

Tæknideildin væri á kafi í málinu og þau vildu allt fyrir mig gera svo ég gæti í framtíðinni fengið öll sms skilaboð undir sólinni…ef því væri að skipta.

 

Á meðan gerist auðvitað ekkert og ábyggilega ekkert án þess að ég fái bréf, símtal og tölvupóst með dagsetningum og líklegum skiladögum…týndra sms skilaboða.

 

Og ég þarf að horfast í augu við að vera að tapa mér yfir tækniundri sem lengst af minnar ævi var mér fullkomlega ókunnugt, en virðist nú ráða svefni mínum og vöku.

Að ná markmiðum sínum…

Hvernig stendur á því að það er erfiðara að ná markmiðum sem maður setur sér prívat, þá á ég við um borða hollari mat, hreyfa sig meira og sofa betur, heldur en þeim sem sett eru í vinnunni?

 

Hvernig stendur á því að það er erfiðara að setja líkamann og sálina í fyrsta sæti heldur en verkefnin sem eru á skrifborðinu?

 

Þetta hefur verið sú áskorun sem ég hef barist við frá því ég stóð upp frá skrifborðinu í vinnunni og settist við borðið mitt hér heima í alpalandi.  Að gera það að fullu starfi að takast á við sjálfa mig og verða líkamlega sterkari á eftir.  Og þá um leið fá enn meiri orku til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

 

Ég hef vanið mig á gönguferðir og hollan morgunmat.  Ég reyni að fara að sofa á skikkanlegum tíma.  Ég er komin með mjög heilsusamlegt tæki hér heim, cross trainer og reyni að nota það reglulega.  Fyrst gat ég bara ekkert, gafst upp eftir nokkrar mínútur en nú er ég komin upp í 20 mínútur og held áfram. 

 

10000 skref á dag er markmiðið, þá með því að nota tækið og ganga úti.  Það gengur upp og niður að ná því.  Gekk ekkert heima um jólin enda annað á dagskrá heldur en að hreyfa sig! 

 

En ég er ekki orðin betri en svo, að ég þarf endalaust að minna mig á að hreyfa mig.  Segja við sjálfa mig á morgnana, jú, Ólöf, morgunmatur er mikilvægur.  Nú er þó a.m.k. svo komið að ég er að verða háð græna spínatdrykknum og eplaedikið er að verða skikkanlegra, en ég á enn nokkuð í land með að tileinka mér morgunmat.  Lengst af borðaði ég ekkert á morgnanna og það tekur tíma að kenna gömlum hund að sitja.  Nú eru það 2 msk af eplaediki í vatni á fastandi maga.  Þeytingur úr spínati, grænum eplum, agúrkum og engifer og heilmikið að vatni fram að hádegi.  Svo versnar í því. Hafragrauturinn kemst ekki að enn…

 

Ég finn þó að þetta hefur allt gert mér gott og þrekið eykst dag frá degi.  Það er nefnilega ekki endalaust hægt að keyra sig áfram á viljastyrknum, sama hversu mikill hann kann að vera.

 

Ég hef eins og við öll, sett mér alls kyns markmið í lífinu og reynt að ná þeim eftir fremsta megni.  En þetta, baráttan við sjálfa mig  og vöðvana í líkamanum ætlar að verða það erfiðasta sem ég hef átt við!

 

 

Álfadrottningin og matskeiðin

Ég syng ennþá öðru hvoru fyrir dóttur mína þótt hún sé orðin 9 ára og satt að segja finnst mér það ekki síður gott en henni.  Ég syng alltaf það sama, flest eitthvað sem ég man eftir að raulað var fyrir mig þegar ég var lítil.  Ég held mest upp á Álfareiðina og syng það jafnvel oftar en einu sinni, þótt ég sé ekki viss um að þeirri stuttu finnist það bæta nokkru við.  Sem krakki vissi ég auðvitað ekki Jónas hefði snúið því úr þýsku heldur sá ég fyrir mér huldufólk og álfakirkjur, glæsilegar svífandi álftadrottningar í íslenskri sveit. Og svo þennan mann sem ég ruglaði stundum saman við Ólaf sem reið með björgum fram og sá hann fyrir mér í Álfareiðinni hans Jónasar.  Mér fannst álfadrottningin mögnuðust allra, áreiðanlega fegurst allra hélt ég, bjó í glæstum álfaborgum og virtist geta allt.  Meira að segja gat hún fært manninn upp á skeið.  Það fannst mér merkilegt.

 

Lengi fram eftir öllum aldri sá ég fyrir mér mann á prjónandi hesti, á matskeið, í höndum drottningarinnar.  

 

Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,

hló að mér og hleypti hestinum á skeið.

Var það út af ástinni ungu sem ég ber?

eða var það feigðin sem kallar að mér?

 

Hugsaði lítið um það sem á eftir kom enda skildi ég ekkert hvernig ást og dauði gæti verið sagt í sömu andrá.  Það voru töfrar drottningarinnar sem áttu hug minn allan.  Og eiga enn. 

 

Þess vegna fannst mér yndislegt um daginn þegar dóttir mín sagðist ekkert skilja í því hvað þessi skeið væri að gera í þessu lagi og hvernig hún færi að þessu, drottningin.

Um 8370 klukkutímar eftir af árinu – nota tímann vel!

Um 8370 klukkutímar eftir af árinu – nota tímann vel!

Svona lítur dagbókin mín út núna, ansi hrein og fín. Áður var hún í miklu kaosi og stundum gleymdi ég að bóka verkefni í hana, eða setti þau á vitlausan stað og þá lenti ég í klípu. Ég hef þó aldrei verið dugleg að nota dagbók á annan hátt en að minna mig á það sem þarf að gera. Ég býst við að flestir hafi sama háttinn á, hvort það notuð er svona venjuleg dagbók eða rafræn í símanum. Ég horfi fram á árið 2014 eins og við öll og set mér markmið um hitt og þetta, hugsa betur um heilsuna, fjölskylduna, lesa og ákveða hvað ég ætla að gera næst. Og ég blaða í dagbókinni og set inn þau verkefni sem þegar eru ákveðin og þá fundi sem eru bókaðir. En það er enn ansi gott pláss.

Hvers vegna nota ég bókina bara í svona? Af hverju ekki að bæta í hana öðrum verkefnum, t.d. því að fara út að ganga kl. þetta, vera búin að lesa þessar bækur á vormánuðum, vera tilbúin með þetta verkefni á þessum degi?

Pældi í þessu í nokkra daga. Væri gaman að fá aftur “busy” dagbókina, hugsaði ég með mér. Ekki síst vegna þess að venjulega geri ég það sem mér er sagt og ef bókin segir mér að gera eitthvað, geri ég það. En ef ég sjálf ætla að gera eitthvað…svík ég það ansi oft og tek það fram yfir sem aðrir segja mér að gera.

En það er hængur á þessu öllu. Markmiðin fyrir árið 2014 má skrifa upp í stílabókina mína sem ég hef alltaf með mér og sting inn alls konar hlutum sem ég sé, póstkortum, miðum, ljósmyndum og svo pára ég hitt og þetta sem mér dettur í hug. Ég þarf ekki þessa bók í það. Og svo auðvitað aðalatriðið, er það markmið í sjálfu sér að vera með útkrotaða dagskrá? Er hægt að leggja það til hliðar í bili og hugsa eftir nýjum brautum? Að það eru nú um 8370 klukkustundir eftir af árinu og ég á enn fullt af lausum klukkustundum – sem ég ætla að nota vel.

Og NB, ég var ansi langt frá 10000 skrefa markinu mínu í hálkunni heima – svo það er nóg að gera í göngutúrunum á næstunni!

Image

Símalaus í alpalandi

Símalaus í alpalandi

Nýjustu tölur:
sunnudagur: 11500 skref
mánudagur: 7200 skref
þriðjudagur 8100 skref
miðvikudagur 3200 skref

Þetta verður barátta – en hún verður þess virði.

Annars var ég að hugsa um jólakort. Ég hef sent mörg jólakort til vina og samstarfsmanna undanfarin ár og mér hefur þótt gaman af þeim undirbúningi. Það tekur tíma að velja myndina og velta fyrir sér hvort það sé rétt að hafa hana úr fjölskyldualbúminu eða ekki. Svo þarf að ákveða textann og ekki vill maður verða of væminn en þó er það þannig að slatti af væmni er bara uppskrift af manni sjálfum. Þá er það hitt, er hægt að setja sama textann alls staðar? Eflaust ekki, en ef kortin skipta hundruðum og kannski meira, er erfitt að skrifa á hvert einasta kort…svo þá vill maður hugsa fallega kveðju.

Undanfarin ár hefur sú rödd verið háværari að það eigi að sleppa kortunum og senda frekar rafræna kveðju og gefa það sem ella hefði farið í kortakaup til góðs málefnis. Það er auðvitað mjög góður kostur. Það var þó áður og er enn hægt að kaupa kort hjá þeim sem lögðu sitt til góðra mála, en gott og vel, kannski er kominn tími til að hætta þessu, spara pappír, hlífa fólki við pósti og leggja fé strax til góðra verka.

Ég ákvað að nú væri tími fyrir mig að prófa. Morgun rann upp og ég settist glöð í bragði við tölvuna og klukkan ekki orðin átta. Nú skyldi taka til óspilltra málana við að sauma saman fjölskyldumyndir, semja hnyttna frásögn og senda um víða veröld.

Ekkert svar.

Fjarskiptasambandið hér á sprengjusvæðinu sem hefur verið frekar brotakennt um hríð….gafst upp.

Ekkert svar – engar myndir – ekki neitt.

Símatólið var meira að segja utan sambands og sjónvarpið, jú, það var líka á bak og burt. Eina sem eftir stóð var nýi samsung síminn minn sem leysti eplasímann nýlega af hólmi. Ég reif hann upp og leitaði lengi vel eftir hringiskífu þar til ég náði sambandi við símafyrirtæki þeirra Svisslendinga sem sögðust mundu koma eins og skot eftir þrjá daga. En þeir myndu vissulega gera boð á undan sér með skilaboðum.

hm.

Eins gott að þessi nýi sími sýni mér skilaboðin án þess að ég þurfi að fara á netið á kaffihúsinu og leita svara!

Ekki þurfti að spyrja að því, að kveldi var mér tilkynnt að símamaður kæmi kl. 8 næsta dag og klukkan var vart orðin tvær mínútur yfir þegar maður stóð við dyrnar hjá mér. Hann byrjaði að grauta í snúrum um allt hús þar til hann kom áhyggjufullur á brún og bað mig að koma að líta á afraksturinn. Þar stóð hann með það sem ég kalla venjulega snúru, kannski dálítið roskna þó, og sagðist aldrei hafa séð annað eins. Þessi snúra hlyti að vera a.m.k. 50 ára. Nú ekki meira, hugaði ég, ég á systur sem eru meira að segja eldri en það. Og fyrir utan það, sagði hann og gat vart náð andanum, þá eru hér fleiri símasnúrur, það voru mörg tól hér, menn hafa verið með starfsemi hér í þessu herbergi. Jæja, hugsaði ég, símalína símalandi í símalandi. Kannski kom Hercule Poirot við hér á leið sinni til London…og leist bara þokkalega á mig.

Niðurstaðan var þó því miður sú að mínu netsambandi var ekki viðbjargandi og ég verð að bíða fram í janúar til að fá bót á. Ég tók þessu af mikilli ró miðað við að netið er orðið mitt helsta samband við umheiminn, kannski fann ég innra með mér að því þyrfti að breyta. Hitt var verra að ég gleymdi að spyrja manninn að því hvers vegna þeir hjá símalandi í Sviss hafi ákveðið að ég megi nánast engin sms skilaboð fá heiman frá Íslandi og að það sé alls ekki einboðið að allir þaðan geti hringt í mig? En þannig hefur það verið nú um nokkra hríð. Það er að minnsta kosti ekki hætta á að sms eða símtöl verði hleruð– þegar engin berast. Er þetta ekki augnablikið sem maður á að hrópa samsæri?

Niðurstaðan er þó sú að ég læt því jólakortin lönd og leið, sleppi símanum en sendi öllum þess í stað kærar jólakveðjur – í huganum.